Hljóð nútímans og augu fortíðarinnar
Eitt það ánægjasta við utanlandsferðir nútímans er afþreyingarkerfi Flugleiða (ég neita að nota enska nafnið) og ég hlakkaði til að ná þar tveimur óskarsverðlaunamyndum á 3 tíma flugi fram og til baka. Þegar hefur komið fram að ég sá Vábeiðuna frá Inisherin á útleið til Budapest en á heimleiðinni var kominn tími á Tár, umtalaða mynd þar sem Cate Blanchett leikur hljómsveitarstjóra sem heitir Lydia Tár og er slaufað eða aflýst fyrir að hafa misfarið með vald sitt, svipað og henti James Levine í raun og veru. Í tilviki Tár er bæði um raunverulegar og ímyndaðar sakir að ræða. Önnur mikilvæg andstæða myndarinnar er spurningin um merkingu og eðli listarinnar í nútíma sem er upptekinn af ímyndarpólitík. Í sviðsettu viðtali í upphafi myndarinnar kemur fram að Lydia Tár er augljóslega hugsuður og greinandi sem mislíkar þegar fólk neitar að hlusta á Bach vegna þess að hann hafi verið hvítur karlmaður sem þar að auki eignaðist mörg börn (ég náði ekki alveg hvers vegna það var slæmt, sennilega truflaði flugfreyjan mig þegar það var útskýrt).
Þetta kemur allt upp á yfirborðið í glímu Tár við fallegan en óþolandi stúdent í hvítum buxum sem vill í raun ekkert læra af kennara sínum því að hann er svo upptekinn af því hvað honum finnst sjálfum. Tár hrekur hann burt úr tíma og sjálfsagt hafa margir kennarar nokkra samúð með henni, jafnvel ég sem aldrei hef hrakið nemanda úr tíma. Öllu flóknari eru málin þar sem hún virðist hafa átt í sambandi við nemanda en síðar lagst gegn viðkomandi og ýtt út (við fáum aldrei að vita nákvæmlega hvað gerðist milli Tár og Kristu Taylor, m.a. vegna frásagnarháttarins). Niðurstaðan virðist kannski að heimur fremstu tónlistarmanna og hljómsveitarstjóra nútímans sé fullur af flóknum samskiptum og stundum harkalegri misnotkun. Sagði myndin mér eitthvað nýtt um þetta? Eiginlega ekki. Mér fannst hún góð en hún var einkennilega laus við að vera afþreying. Það er auðvitað ekki skylda, hið sama gildir um myndir Ingmar Bergmans svo að dæmi sé tekið. En Bergman er yfirleitt ekki með fléttur sem manni finnst að ættu að vera skiljanlegar.
Eitt sem ég tók kannski sérlega vel eftir af því að ég horfði á myndina í flugvél með flottu Flugleiðaheyrnartólin var hljóðheimur myndarinnar. Hún er full af dularfullum hljóðum sem ég hélt stundum að væru úr umhverfinu en ekki heyrnartólunum. Það er drepið á dyr, alls konar vekjararklukkur kveða við og þar fram eftir götunum. Freistandi væri að horfa aftur á myndina og hlusta á öll þessi hljóð, vega og meta skilaboð þeirra um hljóðheiminn. Mig grunar þannig að það sé talsverð dýpt í Tár umfram loðin skilaboð myndarinnar um slaufun. Þetta er a.m.k. ekki mynd sem síast strax út úr kerfinu, þó umhugsunarverð fremur en skemmtileg.
Nýstiginn á þurrt land horfði ég síðan á The Fabelmans sem hafði áður tapað keppninni við Tár um að vera heimferðarmyndin í fluginu. Ég valdi Tár af því að mér fannst verra að hafa ekki séð hana en The Fabelmans er líka góð mynd á sinn hátt þó að hún sé ævisagnaleg með hina losaralegu byggingu sem pirrar mig við slíkar myndir, þó hnitmiðaðri en flestar þar sem hún gerist einkum á 2-3 árum. Umfjöllunarefnið er ekki síst skilnaður foreldra aðalpersónunnar og kemur þar fram mikil dómharka í garð móðurinnar lengi vel en síðan dregur að vísu úr henni. Eins er það samband leikstjórans við listina sem er lýst fallega en ég skil samt ekki umtalsvert betur en áður. Auk heldur er söguhetjan gyðingur og er ofsóttur þess vegna; það er sagan sem ég skil einna best og hefur góðan endi þar sem drengnum tekst að deila og drottna með hjálp kvikmyndaformsins og etja saman hrekkjusvínum. Að lokum hittir þetta alterego Spielbergs gamla John Ford sem er leikinn af David Lynch og er sennilega fremur blanda af Ford og Lynch en alfarið sá fyrri. Þá er myndinni lokið og ég hafði gaman af (Spielberg skilur sannarlega hvað afþreying er) en veit ekki hvort mér finnst hún frábær. Ég er eiginlega enn á því að ótvíræð snilligáfa Spielbergs komi allra best fram í bíómyndum um dýr sem éta menn, en Lincoln er áfram besta mynd hans um önnur þemu, líklega ekki síst af því hún studdist við góða bók. The Fabelmans er snotur mynd en að einhverju leyti afhjúpar hún hversu fátt Spielberg sjálfur hefur í raun fram að færa um heiminn en þeim mun meira um óttann í frumstæðustu djúpum mannssálarinnar.