Barbara og börnin
Á afmælissýningunni á Kjarvalsstöðum rak ég augun í hluta af myndverki eftir Barböru Árnason (1911–1975) sem ég hef áður séð í Melaskóla þar sem það er hluti veggmyndar en þar má sjá íslensk börn ybbast eins og bandarísk glæpagengi. Þó að það sé margt um áhugaverð myndverk á þessari sýningu eftir Kjarval, Þórarin, Þorvald og fleiri var það þessi mynd sem ég staldraði við og um leið Barböru sjálfa en ég hef lengi verið að þýfga vinkonu mína um grein í Andvara um list hennar, ekki síst vegna þess hve lítið ég veit um Barböru Árnason annað en að hún var einn helsti upphafsmaður skreyti- og grafíklistar á Íslandi og braut þar blað en var svolítill staksteinn á sínum tíma. Eins og aðrir innflytjendur hefur hlutskipti hennar eflaust stundum virst undarlegt og spurning hvort hún hafi notið sín jafnvel og tvíburasystir hennar Ursula sem varð eftir á Bretlandseyjum og einnig var myndskreytir en jafnframt rithöfundur og hefur m.a. þótt lýsa „erfiðum“ börnum af sérstakri næmni.
Þessi börn á myndverkinu falla eflaust í þann flokk og kannski er það eitthvað sem Barbara tók eftir umfram aðra listamenn, hversu börn eru iðulega flóknar, harðar og grimmar persónur sem er auðvitað þvert á allar tilraunir ýmissa tíma til að lýsa þeim sem litlum og saklausum englum og í nútímanum eru börn auðvitað römmuð inn í fórnarlambavæðinguna sem er orðin svo alltumlykjandi að hún er orðin að sjálfkrafa vanahugsun.
Barbara fékk ung styrk til að ferðast til Íslands og kynntist þá Magnúsi Árnasyni sem hún gekk að eiga og ílentist hér. Þau voru mjög misaldra en hann eldri sem hefur löngum þótt eðlilegra. Ef marka má minningargreinar um hana hefur hún heillað Íslendinga og naut sín hér á landi þó að tækifærin til listsköpunar hefðu eflaust orðið fleiri og fjölbreyttari á miðlægari stað. Ekki er þó víst að hún hefði endilega kunnað vel sig í slíku samfélagi.