Hvítari fölvi

Hvað eiga sextán Vestumeyjar og Geoffrey Chaucer sameiginlegt? Jú, dægurlagatexta snillingsins Keith Reid sem andaðist núna í mars en samdi flesta textana fyrir hljómsveitina Procol Harum. Hann var stofnandi hljómsveitarinnar ásamt Gary Brooker en hvorki söng né lék á hljóðfæri og var því bæði fremur óvenjulegur poppari og eins konar huldumaður í sveitinni. Seinna samdi hann texta fyrir aðra poppara sem þóttu fremur myrkir. Frægasti texti hans er þó æskuafrekið „Whiter Shade of Pale“ sem er einmitt texti fullur af dulúðugri stemmingu og myrkum vísunum. Textinn var kjarninn í verki sveitarinnar. Brooker og Reid höfðu verið að semja lög og texta saman í nokkra mánuði en urðu að stofna eigin hljómsveit til að einhver fengist til að flytja þau.

Keith Reid sagðist ekki vera vel lesinn í Kantaraborgarsögum Chaucers en hafði óljósa minningu um sögu malarans sem ratar inn í lagið ásamt 16 Vestumeyjum, dansinum fandango og síðan hvítari fölvann í titli lagsins en Reid sagðist hafa heyrt einhvern segja þetta og langað til að nota í dægurlagatexta. Textinn var að sögn hans ekki um neitt sérstakt heldur tilraun til að skapa stemmingu sem passaði við stíl sveitarinnar og yfirþyrmandi Hammondorgelið. Þetta á auðvitað við um dægurlagatexta yfirleitt. Fólk heyrir þá ekki vel og eyðir stundum ævinni í að pæla í hvað var sungið og hvað það merkir en tvítugur dægurlagatextahöfundurinn var kannski ekkert sérstaklega að pæla í Chaucer og hinni fornu Róm heldur bara að reyna að vera kúl (og tókst það).

Procol Harum náði aldrei sömu hæðum aftur og með Hvíta fölvanum sem var ein af áhrifamestu smáskífum allra tíma meðan smáskífuformið var til. Hljómsveitin starfaði í áratug eftir það en fyrsta smáskífan er það sem enn heldur nafni hennar á lofti. Það hljóta að vera skrítin örlög listamanns að slá í gegn með fyrsta verki sínu en ansi algeng eru þau samt.

Previous
Previous

Þar standa hegrarnir

Next
Next

Barbara og börnin