Þar standa hegrarnir
Ég var svo heppinn að Halli og Laddi lifðu sitt blómaskeið þegar ég var barn og gáfu út barnaplötur á hverju ári sem voru síðan spilaðar í drasl á mínu heimili. Sú fyrsta var Látum sem ekkert c þar sem þeir voru í félagi með Gísla Rúnari Jónssyni heitnum (sem um svipað leyti gaf út barnaplötuna Algjör sveppur). Ég velti stundum fyrir mér hvort áhugi minn á Njálu sé orðinn til vegna þess að ég hlustaði á lagið „Ófögur er hlíðin“ þegar ég var sex ára (hvað hafa Halli, Laddi og Gísli þá á samviskunni?!) en þar flytur Fornleifur Engifer Líndal drápu, studdur af eiginkonu sinni Ölgerði Líndal. Fornleifur man þó aldrei hvað hann ætlar að segja og syngur „Börn eru hlýðin“ í stað „Fögur er hlíðin“ og svo fram eftir götunum og mér finnst sá flutningur enn jafn fyndinn og þegar ég var sex ára. Ekki spillir fyrir að öllu er stjórnað af Halla að herma eftir Ingimar Eydal. Í öðru lagi plötunnar birtist hinn skuggalegi Brúsi frændi (Gísli Rúnar) sem nánast gengur frá Magneu litlu þegar hann fóðrar tyggigúmmífíkn hennar. Ég veit ekki enn hvort tyggigúmmið hans var beinlínis hættulegt en ég tek eftir að hann er farinn að hlæja áður en það springur. Mjög skuggalegur hlátur raunar. Annars er Laddi í langstærstu hlutverki á plötunni þegar allt er saman talið. Kemur kannski ekki í óvart í ljósi þess að hann varð seinna langfrægastur.
Árið eftir gerðu Halli og Laddi frasann „Hætt’að telja, þetta er ég“ heimsfrægan á Íslandi í laginu „Royi Roggers“ sem er víst þýðing á lagi eftir Spike Jones og félaga þar sem aldrei er minnst á Roy Rogers (heldur Wild Bill Hiccup) en Spike var þeim félögum mikill innblástur í ýmsum lögum. Mér þykir þó íslenska gerðin mun fyndnari en sú upphaflega en vissi mest lítið um Roy Rogers þegar platan kom á heimilið. Aldrei velti ég uppruna laga þeirra félaga neitt fyrir mér þó að ég lærði auðvitað fljótlega að lögin „Ó, mig langar heim til Patreksfjarðar“ (þegar sem pabbi Halla reynir að skipta á honum og frímerkjum en hættir við af því að frímerkin voru gölluð) og „Heyrðu mig Halla“ væru líklega ekki frumsamin af Halla og Ladda. Fyrra lagið af þessum tveimur höfðar enn talsvert til ungu kynslóðarinnar eins og ég hef nýlega sannreynt. Hins vegar varð ég fyrir áfalli rúmlega fertugur þegar ég áttaði mig á að einleikurinn „Haraldur og Ingibjörg“ væri óbein þýðing á „John and Marsha“ eftir Stan Freberg (að þessu komst ég við að horfa á fjórðu þáttaröð Mad Men).
Þriðja plata bræðranna var Hlúnkur er þetta en á henni er m.a. lagið „Þar standa hegrarnir“ sem enginn getur sungið lengur (ekki fremur en „Grínverjann“). Eins „Tvær úr Tungunum“ sem er sennilega frægari en restin af plötunni. Ég vissi ekki að Tungurnar væru til í alvörunni á þeim tíma og er tiltölulega nýbúinn að átta mig á að þeir bræður syngja ekki „hundleiðar á hænsnunum og Halli vinnur hér“ heldur „hundleiðar á hænsnunum og harðlífinu hér“. Eins hélt ég að náunginn í bílnum hefði „boðið þeim á bay“ en ekki „af bæ“ þó að ég vissi reyndar aldrei hvað þetta „bay“ var. Þeir syngja einnig „Gibba Gibb“ um Bee Gees bræður og eitt lagið heitir „Reiðtúrinn“ og er þeirra gerð af „Ghost Riders in the Sky“. Þar er sungið „Var það ekki hérna sem hann Eyvi litli bjó?“ og núna 45 árum síðar rennur upp fyrir mér að það eigi að vera Fjalla-Eyvindur. Halli og Laddi voru greinilega allt of lærðir fyrir börnin.
Ekki má gleyma „Jólastjörnum“ frá árinu 1977 þar sen Halli og Laddi komu við sögu í gervi Gláms og Skráms og bjuggu til næstfrægasta gerviheimilisfang íslenskrar menningarsögu, Limgerði 33. Fleiri plötur með bræðrunum rötuðu ekki inn á mitt heimili þó að „Umhverfis jörðina á 45 mínútum“ væri mikið spiluð í útvarpinu. Eins lét Skrýplaævintýri Halla okkur ósnerta en það var einkennilega úr takti við þýðingar á verkum Peyo þar sem bláu smámennin voru strumpar en ekki skrýplar.
Það er varla ofmælt hversu Halli og Laddi drottnuðu yfir mínum 6-8 ára smekk og Laddi raunar áfram en þó aldrei sem þá.