Harmar og hefnd
Út er komin sjötta sagan um glæp og nefnist Prestsetrið en ég sagði lauslega frá henni á þessari síðu þann 3. mars, kannski ekki minn besti pistill því að maður þorir varla að tjá sig mikið um óútgefin verk. Aldrei þessu vant skrifaði ég söguna fyrir jól og lét hana liggja lengi, líka vegna þess að ég þorði ekki að sýna hana neinum af ótta við að mér hefði orðið illa á í messunni í viðleitni mínum við að endurnýja sjálfan mig og sagnaflokkinn. Eftir alla menningarneysluna á þessu ári skil ég raunar talsvert betur hvað ég er að gera. Í sögunni sameinast ýmis form þó að þau séu undirskipuð ráðgátunni. Eins er ég hér nærgöngull við persónurnar umfram það sem ég hef verið vanur. Það er nauðsynlegt fyrir höfund sem vill skipta máli að vera stundum svolítið vondur við persónurnar. Eros og Þanatos svífa hönd í hönd yfir verkinu sem aldrei fyrr, stundum illþekkjanlegir í sundur. Formúlur eru víðs fjarri.
Í vor sá ég Hvíta lótusblómið og þó að ég eigni mér ekki snilld þeirra þátta eru sameiginlegu þræðirnir svo margir að mér finnst ástæða til að geta þess að ég hafði ekkert séð af þessum þáttum áður en handritinu lauk en hluti þess varð raunar til í fyrstu covidbylgjunni árið 2020. Meðal annars er blóm í bókinni, líka hótel og ýmis minni úr þættinum en á hinn bóginn er hið íslenska sveitahótel eðlilega gjörólíkt lúxushótelkeðjum sem treysta á ameríska milljónunga. Eins er hið efnahagslega bil ólíkt minna. Samt eru samspil girndar og fjárhags áberandi, ekkert síður en í þáttunum, og bókin, líkt og þættirnir, gengur ekki endilega út frá sömu skilgreiningu á hvað er eðlilegt samlífi og lengi var í öndvegi. Ég er líka búinn að lesa Sjöwall og Wahlöö síðan lokahandriti var skilað og verð alltaf sáttari við að leyfa mér að hafa húmor í bókinni og hræra í samfélagshugsun lesenda. Noir-stemmingin í nýrri norrænum sakamálasögum er alls ekki sótt til hjónanna sem eru manna fyndnust og notuðu ekkert af þeim trixum sem nú eru efst á baugi í geiranum. Eins sá ég í vor þátt eftir Atburðum við vatn (sjá fyrri pistil) og finnst ég að einhverju leyti vera að reyna það sama og höfundurinn Ekman, þ.e. að nota glæp til að varpa ljósi á erfitt tilfinningalíf fólks sem þarfnast annarra óhemju mikið. Allar sögurnar sex fjalla þannig um tilfinningalegar forsendur glæpa en þessi kannski með augljósari hætti en nokkur hinna.