Annie, æskan og textinn

Ungi maðurinn eftir Nóbelsverðlaunahafann Annie Ernaux (í þýðingu Rutar Ingólfsdóttur) er líklega ein stysta bók sem ég hef lesið, ríflega 20 bls. í smáu broti sem fær mig til að hugsa: hvernig kemst hún upp með þetta? En kannski er það sem höfundarverk Annie Ernaux snýst um. Hún breytir lífi sínu í orð, skrifar eins langan texta og hún þarf og er fullkomlega óhrædd — eða kannski ekki því að þessi tiltekna bók er samin um 2000 en gefin út í fyrra, þegar Ernaux hafði hlotnast mesti heiður sem rithöfundur getur fengið. Eins og bókarheitið gefur kannski til kynna fjallar hún um ástarævintýri Ernaux með ungum manni sem eltist við hana og áhrif þessa sambands á líf hennar og skrif. Annie Ernaux hefur alla tíð skrifað fyrst og fremst um sitt eigið líf og stíll hennar er einfaldur. Þar með reynir hún á þanþol bókmenntahugtaksins. Ættu ekki allir að geta sagt ævisögu sína og það án þess að grípa til óvenjulegra málbragða? En kannski er það kjarni málsins. Ernaux getur það sem fáir aðrir komast upp með.

Það eru eiginlega fjórar persónur í sögunni: Annie sjálf, kærastinn ungi, fólkið sem horfir á þau og hennar eigin æska. Aldursmunur parsins er lykilatriði í sögunni. Bæði eiga bernskuna að baki en á ólíkum tíma og reynslan því ólík. Æska kærastans kallar óhjákvæmilega fram minningar höfundarins frá eigin æsku. Um leið eru þau par sem augu samfélagsins beinast að og valda alls konar viðbrögðum sem rædd eru í sögunni. Bæði Annie og lesandinn átta sig á að væri hún karlmaður, þá væri hún klisja: valdamikli eldri aðilinn sem leyfir sér það sem allir aðrir þrá. Hún veltir fyrir sér lostanum og skammast sín ekki fyrir hann, neitar að vera full kvenlegrar sektarkenndar. Kannski er það einmitt þessi andspyrna gegn sektarkenndinni sem víða má finna hjá Ernaux sem hefur heillað fólk við skáldsögur hennar, en þær eru flestar sjálfsævisögulegar og lausar við málalengingar eða málskrúð.

Galdurinn sem Annie skapar í verkum sínum er svo sáraeinfaldur og að því leyti minnir hún á Jónas og aðra ritsnillinga sem geta breytt einföldum setningum eins og „hún hefur gefið mér hörpudisk“ í merkilegan skáldskap. Oft fara höfundar af þessu tagi framhjá bókmenntaheiminum en Annie Ernaux hefur hitt í mark með sínum látlausu og einföldu lýsingum á hversdagslegum atvikum sem stundum virðast alveg á skjön við tíðarandann — misaldra pör eru sannarlega ekki í tísku á Twitter — en kannski fangar hún einmitt þess vegna frelsisþrána sem býr í okkur flestum.

Previous
Previous

Tröll henda höttum

Next
Next

Harmar og hefnd