Tröll henda höttum

Nýlega datt James Bond allur inn á streymisveitu sem ég hef aðgang að, um svipað leyti og engir nýir QI-þættir voru á BBC og eru þar með kjörið efni fyrir þann sem vill slappa af og hugsa sem minnst, horfa á sjónvarp án þess að beinlínis horfa nema þegar mikið liggur við. Eftir sem áður er bókmenntafræðingur alltaf í vinnunni þegar saga er á skjánum og raunar yfirleitt því að veruleikinn er texti og það eru endalaus tákn að ráða í, líka í daglega lífinu. James Bond var ekki hluti bernsku minnar, mér var ekki leyft að horfa á ofbeldismyndir og ég hafði ekki séð slíka mynd í bíó þegar ég varð tvítugur. Ég man þó eftir skólafélögum leika eftir atriði úr seinni myndum Rogers Moore og rámar líka í parodíu í Stundinni okkar sem hét Jón bóndi og lauk með miklu tuski tveggja njósnara. Að lokum rak James Bond sjálfan þó á fjörur mínar þegar fjölskyldan fékk sér seint og síðar meir myndbandstæki og pabbi lifði þá enn þannig að ég á minningar um að hafa horft á að minnsta kosti fjóra fyrstu Bondleikarana ásamt honum. Hann hafði líka lesið bækurnar (sem hefur aldrei hvarflað að mér) og gat rifjað upp að í bókinni (ekki myndinni) hafi Goldfinger sagt: Once is coincidence, two times happenstance, three times enemy action. Ég þekkti líka Goldfinger-lagið með Shirley Bassey eftir að hún var gestur í Prúðuleikurunum; slík voru fyrstu kynni mín af æði mörgu. Þegar ég loksins sá Goldfinger þótti mér hún frekar ruglingsleg eins og þær allar en síðan þá hef ég tekið Bond æ meira í sátt, einkum Bond frá 1962 til 1989 sem var nokkurn veginn hreinræktuð grínfígúra. Ég átta mig ekki alveg á því sem er að gerast með seríuna á dögum Daniel Craig og þær myndir eru mér ekki minnisstæðar (nema þegar Mads Mikkelsen grenjar blóði) þótt Craig sé fínn leikari.

Núna þegar ég sá Goldfinger á ný um daginn fann ég betur hversu góður leikari Gert Fröbe er og leikur Goldfinger sem frumstætt illmenni, hálfgert naut í flagi sem minnir ekki lítið á annan þrekinn rauðbirkinn stórvaxinn þumbaralegan og yfirgangssaman auðjöfur af þýskum ættum sem hefur verið mikið í fréttum seinni árin. Aðferðir hans eru ekki alveg jafn yfirgengilega flóknar og sumra annarra illmennanna (sem drekka sumir úr silfurbúnaði og leika á hörpu) og hann ætlar sér jafnvel að ganga tiltölulega hreint milli boðs og höfuðs á Bond í fyrstu þó að hann noti til þess leysigeisla. Fyrir utan leysigeislann er hrottaleg meðferð bófans á aðstoðarkonunni Jill Masterson sem hann drepur með því að gullhúða hana (ekki hægt í alvörunni, fremur en svo margt annað í Bondmyndum) fyrir þær einar sakir að hafa hætt að hjálpa honum að svindla í spilum það eftirminnilegasta við myndina – og auðvitað setningin þegar yfir Bond stendur kona sem kynnir sig sem Pussy Galore og hann svarar „I must be dreaming“ (næstbesta línan af þessu tagi er í einni Roger Moore mynd þegar myndarleg kona kynnir sig sem Jenny Flex og Moore svarar „Of course you are“).

Fyrir utan Pussy týna galgopalega nefndar kvenpersónur myndarinnar tölunni hratt en sumar eru skotglaðar sjálfar og Bondmyndirnar eru líklega með fleiri kvenpersónur en ýmsar aðrar hasarmyndir frá sama tíma þó að sá böggull fylgi skammrifi að Bond sefur hjá þeim flestum (en aldrei þó Moneypenny sem lætur hann aldrei komast upp með neitt). Næst á eftir Goldfinger langaði mig mest til að sjá Licence to Kill (1989) sem líkist Goldfinger að því leyti að skúrkurinn hefur enga pólitíska sýn heldur er bara glæpahrotti sem vill auka virði eigin hlutabréfa. Eins gengur sá frá ansi mörgum áður en yfir líkur en einkum þó karlmönnum. Þessi mynd státar líka af Benicio del Toro ungum í aukahlutverki og þegar vel er gáð virðist hann eiga í e.k. hómóerótísku sambandi við aðalbófann Sanchez en áður voru það Mr. Wint og Mr. Kidd í Diamonds Are Forever (1971) sem héldu uppi því merki í myndunum. Sérkenni Mr. Wint og Mr. Kidd var raunar að segja brandara þegar þeir hafa komið fólki fyrir kattarnef („If God had wanted man to fly ...“ „He would have given him wings, Mr. Kidd“) líkt og Bond gerir sjálfur. Bondmyndirnar eru fullar af slíkum grínpersónum (Bambi og Thumper eru í sömu mynd) enda voru þær mjög grínríkar framan af.

Fyrir utan tilhneigingu bófanna til að vera stöðugt að drepa eigin menn, iðulega með aðstoð eiturslöngu, villihunda, krókódíla, hákarla eða píranafiska (en mér hefur ekki tekist að finna áreiðanleg gögn um að sú sjávardýrategund hafi drepið svo mikið sem eina manneskju þó að hún hafi vissulega bitið lifandi fólk og farið ansi illa með lík), settu tröllslegir aðstoðarmenn bófans svip sitt á flokkinn frá því að Kóreumaðurinn Oddjob birtist fyrst (leikinn af Harold Sakata sem var af japönskum uppruna en einn Asíumaðurinn þótti jafn góður öðrum á þeim tíma og má kannski þakka fyrir að Mickey Rooney í grínverjabúningi tók ekki öll hlutverkin að sér). Ákveðnu hámarki náðu ógurlegu hjálparmennirnir í nafnlausa risanum gulltennta sem varð á vegi Bond í tíð Rogers Moore og varð svo vinsæll að hann fékk að lokum að skipta um lið og lifa af (enda nánast ódrepandi).

Þar sem þetta er blogg en ekki fræðigrein og ég vil ekki æra óstöðuga með því að ræða allar 25 myndirnar hef ég látið nægja að nefna aðeins nokkur þemu þessarar ágæta myndaraðar en misvel er farið með þau í einstöku myndum og þær verða svæfandi á köflum, einkum eftir að hasarsenur tóku að lengjast úr hófi og æ lengur tekur að koma illmennum fyrir kattarnef. Hafa þær elst vel? Ja, stundum skána hlutir með aldrinum.

Previous
Previous

Hlédrægar barnastjörnur

Next
Next

Annie, æskan og textinn