Hlédrægar barnastjörnur

Þegar ég man fyrst eftir mér var frægðarsól Hönnu Valdísar nýlega hnigin, Einar áttavillti var nokkurn veginn gleymdur, Rut Reginalds var Síríus barnastjörnuhiminsins (en síðar „fallin stjarna“ eftir að kom í ljós að reykingaandúð hennar stafaði líklega einkum af því að hún var mest í hörðu efnunum), Björk næstfrægust (sic transit og það allt) og Katla María senn á leiðinni með sinn spænska framandleika. Tímabil Rokklinganna var áratug síðar en seinustu árin virðist tónlistariðnaðurinn fara varlegar í það að búa til barnastjörnur (við munum öll hvað gerðist þegar 13 ára stelpa vann Evrópusöngvakeppnina en að senda börn var sem betur fer bannað skömmu síðar). Það var ekki mikið rætt um misnotkun á mínum bernskuárum, þótti hálfgert væl, og stöku vinsæll pistlahöfundur okkar tíma kemur þeim horfna tíðaranda dável á framfæri. Á öllum tímum eru þeir hugmyndafátæku sannfærðir um að siðir og venjur þess dags séu þær einu réttu og misnotkunarsögur deyjandi fjölmiðla eru svo margar í mánuði að enginn man þær stundinni lengur. Gott er þó að hafa spurninguna í huga þegar rætt er um barnastjörnur en um leið hina hvort það sé kannski réttur barna að fá stundum að heyra í öðrum börnum eins og við fengum sem ólumst upp við aðeins eina útvarpsstöð sem var full af syngjandi barnastjörnum gleðjandi sjúklinga og sjómenn.

Hanna Valdís var vitaskuld ekki fyrst því að heilum áratugum á undan voru þær Soffía og Anna Sigga og þær voru enn mikið spilaðar í útvarpinu þegar ég var barn þó að við vissum raunar ekkert hverjar þær væru eða frá hvaða tíma tónlistin var. Núna má fræðast á netinu um að þær slógu í gegn árið 1959 og voru hættar árið 1961, ferlinum lauk þegar þær misstu áhugann. Eins og sjá má á myndinni voru þær ekki jafn gamlar, Soffía var tveimur árum yngri en Anna Sigga. Ég náði aldrei að þekkja þær í sundur og fannst þær alltaf syngja kröftuglega fremur en fallega. En lögin Komdu niður og Órabelgur eru rækilega innprentuð í minnið.

Hvort sem þeirra eigin hógværð, skynsemi foreldranna eða hófsemi þeirra sem græddu á tónlistinni var um að þakka er Glatkistan eina ástæða þess að ég veit yfirleitt hvað þær stöllur heita. Í örfáum viðtölum sem hafa birst við þær síðar segjast þær aldrei hafa haft minnsta áhuga á að verða dægurlagasöngkonur, hafa kært sig lítið um athyglina og því hætt við fyrsta tækifæri. Á hinn bóginn haðfi þetta ævintýri ekki heldur nein neikvæð áhrif á líf þeirra. Ég verð að játa að ég tengi mjög sterkt við þetta hugarfar enda hef ég ósjaldan sagt nei við gylliboðum um að endurtaka það sem ég varð frægur fyrir í sjónvarpi á sínum tíma.

Previous
Previous

Ráð um banaráð

Next
Next

Tröll henda höttum