Ráð um banaráð
Eins og fram hefur komið vinn ég nú að þýðingu eddukvæða ásamt félaga mínum Matthew Roby og mun eitt frægasta útgáfufyrirtæki heims, kennt við W.W. Norton, gefa hana út. Við skiptum auðvitað verkum og ræðum mikið saman og satt að segja er það meginástæða þess að ég tók að mér verkið. Ég hef ekki áhuga á að þýða einn en þegar starfið kallar á góða samræðu gegnir öðru máli. Eins og allir þýðendur og útgefendur vita líka leiðir slík nákvæmnisvinna með texta ævinlega af sér margar uppgötvanir og eddukvæðin eru ekki síst spennandi þar sem þau eru uppfull af sjaldgæfum og margræðum orðaforða og engan veginn víst að fyrri útgefendur eða þýðendur hafi skilið þau rétt. Eins og lesendur þessarar síðu vita nú þegar treysti ég orðabókum takmarkað og vil frekar skoða dæmin. Það er líka vel þekkt að mörg orð hafa býsna fjölþætta merkingu.
Eitt kvæðið sem við erum komnir einna lengst með heitir Fáfnismál og er mjög áhugavert, fyrirfram gæti lesandinn ályktað að kvæðið snerist um drekadráp en drekinn er raunar drepinn áður en kvæðið hefst. Líkt og persóna í óperu hættir hann þó ekki að tala og á langar samræður við banamann sinn í kjölfar drápsins. Deyjandi drekinn spyr Sigurð Fáfnisbana spjörunum úr en gefur honum líka ýmis góð ráð og það er einmitt orðið „ráð“ sem vekur athygli þeirra sem þýða kvæðið. Nær 1000 dæmi eru til um þetta orð í íslenskum miðaldatextum og það hefur ríflega 20 merkingar, vissulega ýmsar á sama merkingarsviði, og orðið kemur alloft fyrir í Fáfnismálum í ýmsum merkingum. Meðal annars hefst 21. vísa á því að Sigurður segir við Fáfni „ráð er þér ráðið“ og í fyrstu misskildi ég það og hélt að hetjan unga væri að segja drekanum að einhver hefði veitt óvættinni gott ráð.
En þegar málið er athugað betur virðist harla ólíklegt að Sigurður segi annað eins við drekann sem vissulega gefur honum ráð í þeirri merkingu í vísunni á undan. Ráð vísar nefnilega til margs annars en ráðagerða, m.a. hjúskapar, fyrirætlana, örlaga og sjálfs dauðans. Sú seinasta merking kemur einmitt fram í vísu 22 þegar Fáfnir varar Sigurði við bróður sínum og segir: „Hann þig ráða mun“. Líklegra er að Sigurður noti orðið á sama hátt þegar hann segir „ráð er þér ráðið“ við drekann sem hann hefur einmitt sjálfur drepið og nútímamerkingin væri þá eitthvað í ætt við „ég hef stútað þér“ en notkun orðs sem einnig vísar til heilræða er varla tilviljun heldur er sennilegra að höfundur Fáfnismála láti Sigurð hér fara með létt grín eða orðaleik um ráð, orðið sem merkir heilræði í 20. vísu en dauðann í 22. vísu er hér margrætt, ráðið sem Sigurður hefur ráðið drekanum er banaráð og tilræði þó að sá síðarnefndi hafi rétt áður veitt banamanni sínum heilræði. En Fáfnir er ekki alveg af baki dottinn og kemur ráðum sínum á framfæri í 22. erindi með því að benda Sigurði á að fóstri hans Reginn hyggist ráða honum bana, gefur honum þar með ráð um banaráð.