Hvað er svona gott við Kobayashi?
Um daginn var ég svo heppinn að vera boðið að sjá japönsku kvikmyndina Seppuku sem gerð var árið 1962 af Masaki Kobayashi sem frægastur er fyrir hina risavöxnu stríðsmynd Ningen no joken. Myndin gerist á 17. öld, skömmu eftir að Tokugawa-ættin komst til valda í Japan. Söguþráður myndarinnar er að samúræi einn kemur til Iyi-ættarinnar og segist vilja fremja sjálfsmorð (seppuku) í hallargarðinum. Hann er leiddur fyrir ættarráðgjafann og á þeirri stundu skilur áhorfandinn mest lítið. Síðan er samhengið kynnt í endurliti. Þessi tiltekni samúræi er ekki sá fyrsti sem kemur til Iyi-ættarinnar með þessa ósk og enn fleiri höfðingjaættir hafa áður fengið heimsókn frá atvinnulausum samúræjum sem eru að reyna að fjárkúga höfðingjana með því að hóta sjálfsmorði. Mörgum hefur tekist það en Iyi-ættin hefur fest sig við harðlínustefnu og hefur þegar pyntað einn ungan samúræja til að fremja sjálfsmorð í hallargarðinum. Þessari stefnu á að fylgja til streitu.
Þó að myndin sé hæg er hún þrælspennandi vegna epíska frásagnarháttarins þar sem hægt og rólega er flett ofan af samhengi rammasögunnar (já, svipaður frásagnarháttur í The Usual Suspects bendir vissulega til þess að það sé engin tilviljun að nafn leikstjórans sé notað þar). Fyrst kynnumst við sögu unga samúræjans og örlögum hans en síðan kemur í ljós að nýi gesturinn er honum vel kunnugur og er mættur til að hefna hans. Rakin er falleg saga um dóttur samúræjans og eiginmann hennar en þau eignast lítið barn. Móðir og barn veikjast og tengdasonur eldri samúræjans, sá sami og var neyddur til að fremja sjálfsmorð í hallargarðinum, greip til þess óyndisúrræðis að heimsækja Iyi-ættina vegna þess að hann átti enga aðra fjárvon. Meðal annars hafði hann selt eigið sverð en vegna harðlínu Iyi-ættarinnar er hann að lokum verið pyntaður til að stinga í sig bambussverði þannig að dauði hans varð hægari og kvalafyllri en ella. Hægt og rólega skýrir eldri samúræjinn þetta samhengi fyrir harðneskjulegum og samúðarlausum ráðgjafa Iyi-ættarinnar en að lokum kemur í ljós að sagan er enn flóknari því að gesturinn hefur þegar hefnt vígsins með því að skera hárstertinn af helstu bardagamönnum Iyi-ættarinnar og auðmýkja þá þannig.
Þannig er flett ofan af einstrengislegu siðferði Iyi-ættarinnar sem telur sig hafa yfirburði yfir hina fátæku betlandi samúræja. Þar á bæ töldu menn sig hafa fundið upp réttláta reglu sem refsaði lygurum og svindlurum en í raun eru aðstæður hvers og eins ólíkar og unga samúræjanum sem var neyddur til að fremja sjálfsmorð var aldrei veitt tækifæri til að segja sögu sína eða skýra sinn málstað. Tengdafaðir hans neyðir hins vegar hina hrokafullu Iyi-ætt til að horfast í augu við sannleikann eftir að hafa auðmýkt helstu lauka hennar í einvígi. Að lokum er hann þó felldur og ráðgjafinn tekur samstundis til við að búa til nýja lygasögu um það sem gerðist til að halda við heiðri ættarinnar.
Einvígisatriðin í myndinni eru mjög falleg, t.d. það sem er myndað að ofan þar sem hinn þekkti leikari Tatsuya Nakadai (sem var aðeins þrítugur þegar myndin er tekin en leikur samt eldri mann) tekst á við bardagamanninn Hikukoru sem er leikinn af Tetsuro Tamba (Tanaka úr Bond-myndinni You Only Live Twice). Í hluta atriðisins nemur myndavélin staðar við sjálft grasið sem bærist í vindinum og verður eins konar fulltrúi fyrir hverfulleikann. Það eru ekki síst þessar nærfærnu gælur við blæbrigði og smáatriði sem gera þessa mynd Kobayashi að listaverki.