Stundum er hrátt betra
Nýlega var þáttaröðin Dýragarðsbörnin (Wir Kinder vom Bahnhof Zoo) sýnd í Ríkisútvarpinu, átta þættir sem byggja á sjálfsævisögu Christiane F. (sem hét fullu nafni Felscherinow) um fíkniefnaneyslu táninga í Berlín á 8. áratugnum en bókin kom upphaflega út árið 1978. Hún var síðan kvikmynduð árið 1981 undir heitinu Christiane F. og mín kynslóð horfði bergnumin á þessa mynd í miðjum snifffaraldri auk þess sem margir lásu bókina tilneyddir í skóla sem þátt í fíkniefnavörnum. Þættirnir nýju voru vel gerðir og snyrtilegir en létu mig einkennilega ósnortinn. Kannski fannst mér þeir aðeins of snyrtilegir, ungmennin of töff.
Sjónvarp Símans setti svo þýsku myndina frá 1981 á dagskrá þegar ég var að reyna að rifja hana upp þannig að ég gat borið saman gamalt og nýtt. Gamla myndin er sannarlega barn síns tíma og engan veginn jafn flott hönnuð en kannski hentar það efninu betur að hún sé hrárri og myndgæðin verri. Hugsanlega eru átta þættir einfaldlega of mikið því að það er í sjálfu sér ekkert flókið við söguna. Eða að ég er einfaldlega fastur í fornri fagurfræði og finnst fortíðin almennt betri en nútíminn. Að minnsta kosti naut ég myndarinnar betur en þáttanna án þess að ég vilji fullyrða að hún sé betri.
Kannski saknaði ég einfaldlega Detlevs sem heitir Benno í nýju þáttunum. Allar persónurnar fá mun rækilegri baksögu í þáttaröðinni en kannski gerir það takmarkað gagn því að fíkniefnaneysla er í raun ekki mjög flókið fyrirbæri, fíklar eru af öllu tagi og ef til vill hefur takmarkað skýringargildi í að þekkja sögu hvers og eins vel. Auðvitað gefst líka meiri tími til að sýna vændið og allt hitt sem fylgir en myndin gerði því raunar ágæt skil líka.
Þannig að þeir sem hafa lítinn tíma ættu að sleppa þáttunum nýju og horfa aftur á gömlu myndina sem er alveg jafn sláandi og mig minnti að hún væri. Eflaust bjargaði hún einhverjum frá fíkniefnadjöflinum á sínum tíma með glamúrsleysinu.