Hjúskaparmál 12. aldar konunga

Ein af flugvélamyndum seinustu utanlandsferðar í apríl var The Lion in Winter sem er sýnd á Netflix núna og ég notaði spjaldtölvu til að horfa á. Ég hafði séð hana áður á öldinni sem leið en á þeim tíma hafði ég lesið færri bækur og séð færri kvikmyndir og mat manns breytist með tímanum; einmitt þess vegna vona ég að sem flestir lesendur snúi aftur til minna eigin skáldverka. Frændi minn 11 ára var með mér í ferðinni og reyndist hafa séð myndina (ég spurði hann út í söguþráðinn til að vera viss um að hann segði satt!) og sannfærði mig eins og oft áður um að unga kynslóðin er kannski ekki jafn glötuð og stundum er haldið fram, úr því að hún nennir að kynna sér 55 ára gamlar bíómyndir um hjúskapar- og erfðamál konunga á 12. öld.

Eins og lesendur vita kannski fjallar þessi mynd um jólaveislu Hinriks 2. Englandskonungs árið 1183 og helstu persónur auk hans eru drottningin Eleanor frá Aquitane, synirnir Ríkharður ljónshjarta, Geoffrey og Jóhann (síðar landlausi) auk Filippusar Ágústs Frakkakonungs. Í þessum hlutverkum eru Peter O’Toole, Katharine Hepburn, Anthony Hopkins, John Castle, Nigel Terry og Timothy Dalton, allt leikarar sem a.m.k. mér eru vel kunnir. Kvikmyndin er upp úr leikriti James Goldman sem einnig samdi handritið. Söguþráðurinn er uppspuni og tal fólksins í stíl 20. aldar en það er ekkert fjarstæðukennt eða augljóslega ósögulegt við myndina heldur farið sæmilega rétt með allar meiri háttar staðreyndir og tekur myndin (og leikritið) Becket fram að því leyti en ég ræddi þá mynd á þessari síðu fyrir nokkrum vikum. Peter O’Toole leikur Hinrik 2. í báðum myndum og er miklu betri hérna, eins og hann hafi æft sig upp í hlutverkið. Katharine Hepburn leikur sjálfa sig en það á vel við og hún fékk óskarsverðlaun fyrir. Þessi hlutverk léku á sviði Robert Preston og Rosemary Harris og hlutu einnig verðlaun fyrir en samkvæmt Hollywoodlögmálum þurfti stærri stjörnur í myndina. Tónlistin er eftir John Barry og er frábær, sennilega er þetta eitt þekktasta framlag hans til kvikmyndatónlistar ásamt Born Free, Out of Africa, Dances with Wolves og svo auðvitað tónlistinni fyrir James Bond.

Í fyrstu er myndin svolítið kjánaleg, konungurinn æpir flest sem hann segir og prinsarnir eru ýmist stífir af bælingu eða sviksemi fyrir utan þann yngsta sem er moðhaus. Þegar konungur og drottning hittast minna þau á leikara að leika leikara. En James Goldman kann sitt fag. Það verða alls konar snúningar í plotti og svikum, persónurnar tjá sig hægt og rólega og smám saman hættir áhorfandinn að standa á sama um þær. Jafnvel þetta hefðarfólk reynist vera alvöru manneskjur og svei mér þá ef Goldman nær ekki eins konar kaþarsis í lokin. Kannski ætti líka að þakka leikstjóranum Anthony Harvey en þrátt fyrir mikið gláp hef ég enga aðra kvikmynd séð af þeim þrettán sem hann ku hafa leikstýrt — ég leyfi mér að nota ku hér vegna þess að það er ekki lengur jafn ofnotað og fyrir nokkrum áratugum þegar ég setti það í bann.

Að lokum má geta þess að Hinrik 2. var stórmerkilegur konungur sem var sonarsonur Hinriks 1. en erfði ríkið gegnum móður sína Matthildi eða Maud sem ekki fékk að vera ríkjandi drottning á Englandi þrátt fyrir vilja föðurins (það glerþak brotnaði ekki fyrr en á 16. öld). Enn merkilegri var kannski Eleanor hertogaynja af Aquitane sem erfði þann risavaxna hluta Frakklands 15 ára eftir föður sinn og gekk síðan að eiga Loðvík Frakkakonung en þau skildu (eða öllu heldur var hjónabandið ógilt) vegna þess að þau eignuðust enga syni. Þá gekk hún að eiga Hinrik 2. og færði honum eina fimm stráka, þar á meðal þessa þrjá í myndinni. Á þessum tíma lifði fólk stutt og enginn sonurinn náði mínum aldri. Eleanor sjálf hins vegar varð 82 ára. Hún hefur æ síðan verið vinsælt efni skálda og listamanna.

Previous
Previous

Hópur B eða: alltaf gleymist Bertel

Next
Next

Stundum er hrátt betra