Hópur B eða: alltaf gleymist Bertel
Mig minnir að ég hafi eitt sinn haldið útvarpserindi um þá sem á einhvern hátt standa í skugga annarra frægari og flokkað þá í ýmsa hópa. Í einum eru augljóslega Bertel Þorleifsson, sá Verðandimaður sem fæstir muna eftir, og Brynjólfur Pétursson, eini Fjölnismaðurinn sem ekki er til á mynd. Við gætum kallað þetta Ringo-hópinn því að þó að Ringo Starr sé auðvitað mjög frægur er hann augljóslega í 4. sæti af Bítlunum. Kannski á Melkíor þar heima líka því að hann var sá vitringur sem krakkar áttu erfiðast með að læra nafnið á þegar ég var barn. Í öðrum hóp væru auðvitað Andrew Ridgeley, Dave Stewart og hinn náunginn úr dúettnum Soft Cell sem ég man ekki einu sinni hvað heitir. Mig minnir að ég hafi í erindinu minnst á Fahrenheit, þann vísindamann sem um 5% jarðarbúa minnast þegar þeir ræða um hita á meðan keppinautur hans Celsíus nýtur yfirburðastuðnings. Þá má nefna Elisha Gray sem fann upp símann sama ár og Alexander Graham Bell en enginn man eftir honum þó að hann væri fyrstur. Geimfararnir Edwin Aldrin og Michael Collins koma líka upp í hugann sem fóru með Armstrong til tunglsins. Líklega hefði Bolli í Laxdælu með sitt risavaxna safn af silfurverðlaunagripum haft samúð með þeim báðum. Það gæti líka verið að ég hafi vikið nokkrum orðum að Anthony Caso sem leikur annan af tveimur glæpamönnum sem veitist að Woody Allen í neðanjarðarlest í kvikmyndinni Bananas. Hinn er leikinn af Sylvester Stallone sem á þeim tíma var jafn frægur og Anthony Caso.
Kannski hafði J.K. Rowling allt þetta fólk í huga (jafnvel Bertel) þegar hún bjó til flokkunarhatt sinn í bókunum um Harry Potter. Flokkun Harrys og félaga verður eins og allir muna eins konar barátta góðs og ills þar sem vondu krakkarnir lenda allir í Slytherin og hetjukrakkarnir í Gryffindor. Mig grunar stundum að allir íslenskir foreldrar nútímans hugsi um sín börn sem Gryffindor-krakka, a.m.k. þau fjölmörgu sem kalla þau prinsa og prinsessur. Eflaust eru mun færri sem líta á börnin sín sem Hufflepuff-stúdenta. Flokkunarhatturinn sem sendir fólk þangað minnir stundum á sögusagnir um þýsku prófin sem áttu að vera lögð fyrir börn 10 ára og ákváðu hver yrðu doktorar og prófessorar og hver færu í smiðinn (e.t.v. er þetta dagsatt en ég nenni ekki að fletta því upp).
Ég las auðvitað bækurnar um Harry á fullorðinsaldri og er til marks um ágæti þeirra að ég gat ekki stillt mig um að lesa sex af sjö þó að ég væri fullur mótþróa og meðal annars fannst mér þetta flokkunarkerfi stuðandi og tók m.a. eftir því að vistirnar sem skiptu mestu máli voru kenndar við karla en þær tvær sem komu lítið við sögu við konur, eins og þær væru eftirþanki. Kannski er það fyrst og fremst til marks um hvernig allt var fyrir 25 árum en nokkuð annað því að sannarlega er Rowling tegund af feminista. Samt mun Hufflepuff-vistin hafa eignast sér aðdáendur líka, sennilega fólk sem virkilega langar til að vera aukapersónur. Kannski Bertel, Brynjólfur og Ringo hefðu allir unað sér vel í Hufflepuff.