Óskópnir hann heitir

Í eddukvæðaþýðingu þeirri sem ég vinn nú að eru vitaskuld mörg álitamál sem er ein ástæða þess hve lítið ég hef þýtt í tímans rás; ég er í eðli mínu efahyggjumaður og á til að kikna undan öllum möguleikunum, samhengisrofinu og merkingaróvissunni þegar þýtt er. Góður þýðandi þarf helst að geta skellt sér á merkingu án hiks. Eitt álitaefni eru vitaskuld sérnöfn. Þar hafa tískustraumar í þýðingum verið með ýmsu móti og núna virðist mér vinsælast að þýða ekki nöfn eða breyta á nokkurn hátt en það er þó að einhverju leyti varasamt því að þar með verður hið kunnuglega framandlegt fyrir lesendur þýðingarinnar. Eins geta nöfn haft merkingu sem glatast ef þau eru látin óþýdd og á það meðal annars um eddukvæði. Einn eftirlætisedduþýðandi minn, norrænufræðingurinn Ursula Dronke, þýddi dverganöfnin í Völuspá og mér fannst það vel til fundið þó að sum þýddu nöfnin hennar minntu eigi lítið á dvergana úr Mjallhvítarsögu Disneys.

Áður hef ég minnst á Fáfnismál og orðaleiki með orðið ráð í því kvæði. En áður en Sigurður kveður drekann hefur hann spurt hann fróðleiks og m.a. um nafn á eyjunni þar sem Surtur og æsir munu takast á („blanda hjörlegi saman“ orðar unga hetjan það svo fallega) og Fáfnir svarar og kallar hólmann Óskópni en það nafn mun aðeins þekkt úr þessu eina dæmi. Það er merkingarþrungið en vandinn er auðvitað sá að 21. aldar þýðandi veit ekki með vissu hver merkingin er vegna þess að við vitum ekki einu sinni frá hvaða tíma kvæðið er og drjúgur hluti tilvísunarheims þess er móðu hulinn. Það virðist blasa við að skóp í nafninu tengist sögninni skapa sem var eitt sinn skóp í þátíð. Í handritinu stendur „Oſcopnir“ þannig að við höfum enga fullvissu fyrir að það eiga að rita hér ó fremur en t.d. o eða ö. Þannig kom mér fljótlega í hug áhersluorðið „ósköp“ en það virðist tengjast bæði örlögum og vansköpun. Orðið kemur ekki fyrir í miðaldaheimildum en er þó gamalt í málinu.

Þegar kemur að sköpum eru miðaldadæmin mörg og margræðnivandinn mikill. Hugurinn hvarflar að örlagagyðjunum þremur sem skapa mönnum aldur eins og segir í Gylfaginningu en einnig má leiða hugann að sköpun heimsins og síðan að sköpulagi mannsins því að á þessum tíma (og kannski alltaf) hneigjast fræðimenn til að líta á manninn sem minniheim og sjá hann í landslaginu og öllum heiminum. Sköp eru einnig á konum og tengjast getnaði og upphafi alls lífs. Gæti verið að nafnið Óskópnir eða Ósköpnir vísi til þess?

Freistingin er einna mest að koma að gríska orðinu χάος í ljósi þess að eyjan Óskopnir virðist tengjast heimsendi, falli goðanna og þeirri óreiðu sem sigrar að lokum reglu mannsins. Sköpin marka upphaf lífsins en ósköpin endalokin og eyjan Ósköpnir er þá ef til vill eyja óreglunnar. Úr málinu hefur enn ekki verið greitt en um nóg er að hugsa þegar eitt örnefni er þýtt.

Previous
Previous

Dálæti Íslendinga á evrópskri sönglist

Next
Next

Hópur B eða: alltaf gleymist Bertel