Dálæti Íslendinga á evrópskri sönglist

Samband mitt við söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hófst vorið 1979 þegar ég horfði á samnefnda hljómsveit flytja lagið „Djengis Kan“ í fermingarveislu á þeim árum sem sjálfsagt þótti að kveikt yrði á sjónvarpinu til að horfa á þessa merku keppni sem ekki var þó sýnd beint. Raunar hélt ég lengi að þetta hlyti að hafa verið tyrkneska lagið í keppninni en hljómsveitin var raunar þýsk og sló aftur í gegn með „Moskau“ skömmu síðar en aðalsöngvarinn var Louis Potgieter sem fékk síðar eyðni og lést árið 1993. Samband mitt við keppnina náði svo hámarki árið 1986 þegar Íslendingar fengu að keppa og aðeins svartsýnustu landar héldu að Gleðibankinn yrði neðar en í 4. sæti. Það hefur aftur á móti flækst allmikið á seinni árum eftir að keppnin verður æ rúmfrekari í dagskrá Ríkisútvarpsins sem er kannski skiljanlegt í ljósi vinsælda hennar hérlendis en síðan má velta fyrir sér menningarlega gildinu í að teygja ítrekað flutning 4-6 þriggja mínútna dægurlaga upp í heila kvölddagskrá. Hvað sem því líður hef ég tekið þá stefnu fyrir mína parta að söngvakeppnisvikan sé aðeins ein á ári og í keppnina eyði ég alls átta tímum, þ.e. þeim sem það tekur að horfa á undankeppnirnar tvær og lokakeppnina. Ég reyni líka að forðast lögin fyrir keppni og hafði t.d. aldrei heyrt lag Diljár fyrr en á fimmtudagskvöldið þegar það var flutt og datt úr keppni sem stigahæsta taplagið. Eftir keppni hlusta ég iðulega á 3-6 lögin sem helst fönguðu mig í keppnina. Sannast sagna eru lögin í keppninni almennt ekki við mitt skap þó að einstaka reynist klassík þegar fram í sækir (t.d. eistneska lagið frá 2015), oft einmitt ekki þau sem maður hélt með á sínum tíma. Já, ég skammast mín aldrei fyrir gamlan smekk þannig að ég játa kinnroðalaust að ég hélt með Bobbysocks gegn Wind á sínum tíma, augljóslega rangur smekkur en þó minn smekkur vorið 1985 og ég stend við hann fyrir hönd Ármanns fortíðarinnar.

Undanfarin ár hef ég horft á keppnina á DR þar sem RÚV er eini miðillinn sem getur ekki afgreitt þennan dagskrárlið án auglýsinga. Á DR er allri pólitík haldið fjarri í lýsingum sem hentar mér vel; auðvitað verður ekki komist hjá því að keppnin sé pólitísk úr því að þjóðríkin keppa en sjálfum finnst mér hún ekki góður vettvangur til að ræða alþjóðamál og að það sé ansi mikið lagt á tvítugar poppstjörnur að fela þeim að tjá ímyndaðan þjóðarvilja þar um. Þegar kemur að kosningunum er þjóðarviljinn hins vegar skýr og svipaður frá ári til árs. Í ár setti íslenska þjóðin Finnland, Svíþjóð og Noreg í efstu þrjú sætin, allt vinsæl lög en varla heldur nokkur maður að þetta geti talist mjög alþjóðlegur smekkur. Íslenska dómnefndin kaus raunar Ástralíu sem mér finnst hálfu óskiljanlegra, hún hlýtur að hafa verið skipuð útrunnu Kaffibarsliði. Finnska lagið var á hinn bóginn svolítið kúl og móderne og mér fannst skiljanlegt að það vann alþýðukjörið. Það er eitthvað frísklegt við það hvernig Finnar eru alltaf svolítið á skjön við keppnina, þó aldrei eins hrikalega og t.d. Svisslendingar sem aldrei hafa minnsta áhuga á hugsanlegum smekk annarra þjóða, en alls ekki Íslendingar sem eru (sem kunnugt er) mjög æstir í að vinna, hafa lítið spekst í því síðan árið 1986 og vilja helst ekki senda neitt sem Evrópa fílar örugglega ekki.

Á hinn bóginn finnst mér sjálfsagt að nota keppnina til að sýna litríkan klæðaburð eins og söngvari Slóveníu hér að ofan er gott dæmi um. Slóvenska lagið var hressilegt en ekkert frábært; þó sungið á slóvensku enda virðast flest lönd Evrópu vera handgengnara sínu eigin tungumáli í keppninni en Ísland og er kannski áhyggjuefni fyrir Íslenska málnefnd. Fyrir vikið veit ég ekkert um hvað slóvenska lagið var en ég veit ekki heldur um hvað lögin á ensku voru (Lag Diljár virtist innblásið af Michel Foucault) og kannski ætti fólk frekar að lesa Kant og Kierkegaard ef það vill dýpt en að hlusta á lögin úr þessari keppni. Litríkur klæðaburður fær fyrstu einkunn hjá mér en hinar ógurlegu tæknibrellur sem hafa hertekið ljósabúnað keppninnar og eru sjálfsagt meginástæðan fyrir því að það var alls ekki hægt að halda þennan ágæta sjónvarpsviðburð í covidinu eru mér minna hugnanlegar. Tækni er auðvitað mikilvæg en hömlulaus og ólistræn beiting hennar kannski síður. Þar með er ekki sagt að keppnin eigi að vera eins og 1979 en kannski mætti draga aðeins úr tæknibrellum í framtíðinni.

Eftir nokkrar umferðir á Spotify á sunnudaginn eftir keppni fannst mér lag Serbans Лука Ивановић sem kallar sig Luke Black alþjóðlega furðu gott en hafði frekar lítinn smekk fyrir sigurvegaranum Loreen. Bæði áttu þau sameiginlegt (og raunar mun fleiri söngvarar) að hefja upp söng sinn liggjandi á gólfinu eins og hinn ungi Loïc Nottet sem keppti fyrir Belgíu árið 2015 og kom þar af stað fári sem enn sér ekki fyrir endann á. Síðan sakna ég Rússa úr keppninni og vona að þeim verði hleypt inn aftur sem fyrst. Eitt er stríð en annað er söngur og ég hef yfirleitt haft dágóðan smekk fyrir bæði rússneska og úkraínska laginu, að vísu ekki því síðarnefnda þetta árið. Ég neyðist til að viðurkenna að óþolandi söngleikalag Norðmanna náði betur til mín en vert væri, ég er skammarlega veikur fyrir slíkum lögum í þessari keppni. Já, og samkvæmt þeirri reglu að mest óþolandi lögin verði að heilaklístri ársins þá var Lion King raul Litháanna einkum að angra undirmeðvitundina nokkra daga eftir keppni.

Previous
Previous

Raddir barna fá að heyrast

Next
Next

Óskópnir hann heitir