Raddir barna fá að heyrast

Bókin sem ég hef lesið seinustu dægrin er ofurfalleg og nýútkomin og nefnist The Sunshine Children, gefin út hjá forlaginu Hinni kindinni sem Birna Bjarnadóttir stýrir og hefur áður sent frá sér þýðingar á íslenskum meistaraverkum yfir á erlend mál og gefur einnig út bækur höfunda sem rita undir dulnefni. Bækur Hinnar kindarinnar eru jafnan fagurlega brotnar um með framúrstefnulegum kápum og það á einnig við um þá nýju sem er hönnuð eins og sendibréf með flipa sem lokar henni en er jafnframt bókamerki. Í bókinni fjallar bókmenntafræðingurinn Christopher Crocker um bréf íslenskra barna í Vesturheimi til barnablaðsins Sólskins sem kom út á stríðsárunum, rekur samhengi þeirra og hvernig þessi bréf veita innsýn í það hvernig það var að vera Norður-Ameríkubúi af íslenskum stofni í upphafi 20. aldar.

Þeir fáu sem þekkja minn feril í þaula vita eflaust að ég var einn af þeim fyrstu til að rannsaka börn í miðaldaheimildum (og ritstýrði bók um það efni árið 2005). Eins og ég hef bent á eru heimildir sem koma beinlínis frá börnum nánast óþekktar frá fyrri öldum og þær eru ekki beinlínis algengar heldur frá nýrri tíma. Það var mikið þarfaverk þegar barnabækur voru loksins teknar til rannsóknar af alvöru (aðallega af Silju Aðalsteinsdóttur) fyrir rúmum 40 árum en þær eru auðvitað ekki heldur sprottnar beint frá börnum. Þessi bók um bréfin til Sólskins er því menningarviðburður og einnig hefur nýlega komið út á netinu útgáfa frá hendi Crockers með alls 155 bréfum til blaðsins sem er einhver áhugaverðasta heimildaútgáfa sem á mínar fjörur hefur rekið seinni árin.

Barnablöðin í Vesturheimi hafa vakið forvitni mína síðan ég las um þau í áhugaverðri grein Dagnýjar Kristjánsdóttur í Ritinu og mikill fengur er að geta lesið þau í ljósi hinnar rækilegu greiningar Chris Crocker á þessum heimildum. Crocker ræðir útgáfuna í nýlegu viðtali við Jason Doctor á vefsíðunni Icelandic Roots og bendir þar á að bréf til blaðsins geti verið mikilvægur samfélagsspegill fyrir utan að vera áhugaverð heimild um málfar Íslendinga erlendis og barnamenningu. Ekki veit ég til að bréf til íslenskra blaða (Æskunnar, Vikunnar o.s.frv.) hafi verið rannsökuð að ráði en grunar að hér sé um mikinn óplægðan akur að ræða.

Þess má geta að bókarhöfundurinn Christopher Crocker er enn fremur vandaður skáldskaparþýðandi og hefur m.a. sent frá sér þýðingu á Flugum Jóns Thoroddsen og Þulum Theodóru Thoroddsen (2020) en ég sjálfur skrifaði stuttan formála að þeirri útgáfu. Það er ekki auðvelt að þýða jafn mikla meistara einfaldleikans eins og þau módernísku mæðgin en mér fannst Crocker ná tóninum ansi vel og er því afar stoltur af mínum smáa þætti í þeirri útgáfu.

Eitt af því sem fram kemur í viðtalinu sem ég vísaði í að ofan er að Halldór Laxness er meðal þeirra sem lögðu tímaritinu Sólskini til efni eins og fram kemur í vanmetnum viðtalsbókum Ólafs Ragnarssonar við Halldór heitinn en þær komu út 2002 og 2007 og veittu mjög áhugaverða innsýn í líf og verk skáldsins og voru þessu nýju verki Crockers líka mikilvægur innblástur — en eins og þessi nýja útgáfa sýnir er tímaritið sjálft þó annað og meira en fótnóta í sögu Nóbelsskálds.

Previous
Previous

Ekki lána þessari konu penna

Next
Next

Dálæti Íslendinga á evrópskri sönglist