Ekki lána þessari konu penna
Flestar spennumyndir sem ég held svo upp á að ég hreinlega verð að horfa á þær aftur ef þær verða á vegi mínum eru frá 20. öld, sennilega vegna þess að ég fíla hvorki MTV-hraðann né tölvuleiki. Undantekning frá þessu er Raunir í háloftunum (Red Eye) frá árinu 2005, leikstýrt af Wes Craven heitnum sem lengi sérhæfði sig í hryllingsmyndum en þessi háloftamynd er ekki í þeim stíl heldur hæg spennumynd í stíl Hitchcocks sem snýst um samtalseinvígi tveggja persóna. Það er helst í lokin að hið nauðsynlega hlaupahasaratriði skýtur upp kolli og er sísti hluti myndarinnar sem er þannig framþung að gæðum að mínu mati.
Myndin gerist að mestu á flugvelli og í flugvél sem er gott umhverfi fyrir spennumyndir því að flest erum við taugatrekkt á flugvöllum og í flugvélum. Aðalpersónan er hótelstýran Lisa sem er á leið heim til Florida í vondu veðri. Hún er greinilega öflug í starfi en á föður á eftirlaunum (Brian Cox sem oft hefur verið betri) sem er hennar helsti ástvinur og virðist hafa ívið meiri þörf fyrir hana en hún fyrir hann. Í biðröð á vellinum eftir seinkanir og flugvallavesen sproksetur hún leiðinlegan farþega og er studd í því af ungum góðlegum manni sem stendur fyrir aftan hana í röðinni og virðist vilja daðra við hana. Umhverfis eru farþegar (flestir sympatískir en sumir leiðinlegir) sem eiga eftir að koma við sögu í fluginu en enginn sem truflar mann frá aðalpersónunum en þau fáu augnablik sem þeir fá í myndinni eru þó frekar sniðug og létta spennuna fyrir utan að fanga samferðastemmingu flugsins. Seinna hittist parið á bar á flugvellinum, hún ákveður að spjalla við náungann og hann heldur áfram kurteislegu daðri sem virðist þó yfirvegað og spennt sem gæti þó einfaldlega stafað af flugstressi. Ekkert er skuggalegt við manninn í fyrstu nema nafn hans Jackson Rippner — vísun sem þarf varla að skýra fyrir utan að hann segir brandara um morð. En þegar í vélina er komið reynist náunginn sitja við hlið hennar í fluginu. Hún hefur þó engar áhyggjur enda maðurinn vinsamlegur og kurteis, næstum blíðlegur og myndarlegur á kvenlegan og mjúkan hátt, hún er greinilega flughrædd og það er flest óhugnanlegra við flug en slíkur sessunautur. Alveg uns glettið smáspjall þeirra eftir flugtak leiðir til þess að hún spyr Jack hvað hann vinni við og svarið er launmorð og að bylta ríkisstjórnum. Hún tekur þessu auðvitað sem brandara en hann verður stöðugt alvarlegri og segir henni að lokum að einmitt núna snúist starf hans um hana.
Eftir þessi óvæntu hvörf í myndinni þróast hún út í einvígi sessunautanna sem er háð fyrir opnum tjöldum þó að enginn sé að hlusta. Maðurinn sem virtist svo vænn og tillitssamur hótar henni nú með morði föðurins nema hún aðstoði hann og vini hans við að myrða háttsettan embættismann. Ekki að Jack sé hugsjónamaður, hann virðist fremur vera eins konar reddari eða rótari sem hefur einkum það hlutverk að útvega launmorðingjunum aðstoð Lisu. Auðvitað vill hún ekki aðstoða við pólitískt morð en á hún einhverra kosta völ? Jack nær strax öllum völdum í tafli þeirra en LIsa streitist á móti og reynir að finna upp á ýmsum brellum til að gera öðrum í vélinni viðvart. Þetta er miðja og langbesti hluti myndarinnar, einkum þar sem hitt fólkið í flugvélinni tekur ekki eftir neinu og einvígið þarf að fara fram hljóðlega, hún vegna ótta um föðurinn en kvalari hennar verður líka að gæta þess að vekja ekki athygli á því sem stendur yfir. Það er illmennið Jack (vatnsbláeygði írski leikarinn Cillian Murphy sem maður sá fyrst í 28 Days Later fyrir löngu og alltaf er eftirminnilegur í myndum og sjónvarpi) sem aðallega heldur spennunni uppi sem óvenjulegur bíómyndaglæpon, lipur, sjarmerandi og þó trúverðuglega fólskulegur. Í þessari miðju myndarinnar sjá allir aðrir farþegar og flugfreyjur hann sömu augum og Lisa gerði áður, hún ein áttar sig nú á grimmd hans bak við slétt og fellt yfirbragð. Enda skilgreinir hann sig sem bisnessmann og hlutverk hans er að fá Lisu til að hringja eitt símtal og færa gest milli herbergja.
Allir tilraunir Lisu til að sleppa við að taka þátt í glæpnum (sem glæponinn túlkar yfirlætislega sem kvenlega tilfinningasemi) fara úrskeiðis. Andstæðingurinn skallar hana með bobbýkollunni og rotar á tímabili, símasambandið er slakt, flugvélin hristist vegna ókyrrðar í lofti og átökin ná síðan hámarki á salerni myndarinnar þegar Jack ryðst inn á hana þar sem hún hefur skrifað skilaboð á spegilinn (en fólið virðist raunar hika smástund þegar hann sér gamlan áverka á henni — vísbending um að hann sé ofbeldismaður af atvinnu fremur en ástríðu?). Lisa virðist að lokum hafa gefist upp en hefur þá stolið beittum penna frá unglingspilti í flugvélinni og þegar vélin er lent beitir hún honum hugvitsamlega gegn Jack, stingur pennanum í barka hans (úff!) þannig að eftir þá árás er dólgurinn rámur og laskaður sem hindrar hann þó ekki í að elta hana úr flugvélinni, um allan völl og að lokum heim til pabbans. Þetta er allt æsispennandi en kannski dregur aðeins úr spennunni í lokin því að eltingarleikurinn er fyrirsegjanlegri en það sem gerðist áður og glæponinn orðinn hálfgert skrímsli af Michael Myers gerðinni.
Fyrir utan einvígi Jacks og Lisu er öðru hvoru skipt yfir á hótelið en örstutt í senn og eykur spennuna; kannski er óþarfi að láta stelpuna sem er undirmaður hennar þar þurfa að eiga við hvimleiða kröfuharða gesti sem gegna svolítið hlutverki sjónvarpsmannsins í Die Hard. Það er ekki aðeins Hitchcock-spennan knúin áfram af óttanum um hvort Lisa sleppur sem er gamaldags, myndin er líka af lengd mynda frá eftirstríðsárunum, aðeins rétt rúmlega klukkutími (góð flugvélalengd). En maður situr bergnuminn við allan þann tíma.