Hvað gerist eftir stjörnuhrap?

Þegar Fyrirmyndarfaðir var á dagskrá á 9. áratugnum var mamma heitin ein fárra sem féll ekki við Bill Cosby og við skildum aldrei hvers vegna. Nokkrum árum eftir að hún lést kom ýmislegt upp úr dúrnum um Cosby og þá rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var á leið til Lundar árið 2004 og mamma spurði hvort ég ætlaði ekki að taka með mér aukagleraugu. Ég taldi það óþarft en í ferðinni brotnuðu gleraugu mín í fyrsta og eina sinn á 45 árum. Kannski var það vegna mömmu að ég sá ástæðu til að horfa á fjögurra þátta röð um Bill Cosby í danska sjónvarpinu, gerðan af hugsandi grínista að nafni W. Kamau Bell. Í honum eru næstum allir sem rætt er við af afrískum ættum eða konur en hvítir karlmenn eru aldrei þessu vant fjarri. Sem var barasta mjög gott og einnig að þátturinn gerir ekki lítið úr framlagi Cosbys til menningar og réttinda svartra Bandaríkjamanna og engin þórðargleði ríkir yfir því að Cosby hafi að lokum farið í fangelsi (en er ekki lengur þar). Um leið ríkir enginn efi í þættinum um sekt hans enda hvernig ætti það að geta verið þegar 60 konur hafa komið fram með ásakanir gegn honum? Auðvitað er samt til fólk sem telur hann saklausan, svo sterk var ímynd hans sem fyrirmyndarföður og eins er auðvitað til fólk sem vill hreinlega ekki trúa neinum ásökunum gegn ríkum og frægum mönnum.

Í þættinum er ekki endilega verið að rífa niður Bill Cosby sem slíkan. Hann fjallar mun fremur um stöðu mannsins í samfélagi svartra Bandaríkjamanna og hve hrikalega sterkur og valdamikill hann hafi verið. Þetta er tengt við almenna nauðgunarmenningu í Bandaríkjunum en kannski hefði mátt koma enn betur fram að aðferð Cosby var af því tagi sem ólíklegt var að kallaði yfir hann refsingu fyrir 2010 og skipti þá kannski ekki öllu máli að hann var ríkur og frægur heldur fremur þáverandi (og að einhverju leyti núverandi) afstaða réttarkerfisins til sönnunargagna í nauðgunarmálum. Konurnar sem hann réðst á voru ekki með áverka vegna þess að hann notaði nauðgunarlyf. Eins voru þær margar beinlínis óvissar um hvað hafði gerst vegna áhrifa slíkra lyfja sem voru lítið í umræðunni lengi og skilja ekki eftir sig spor. Ég hugsa að það séu ekki mörg dæmi um dóma vegna slíkra nauðgana á þessum tíma, jafnvel þótt hinir seku hafi fæstir verið ríkir og valdamiklir. Auðvitað er lyfjaaðferðin skýr vísbending um brotavilja og kænsku manns sem beitti aðferðum sem ólíklegar voru til að leiða til sakfellingar, ekki einu sinni þeirra sem ekki gátu ráðið fremstu lögmenn landsins til að verja sig. Það er líklega fyrst og fremst þessi brotalöm í dómskerfinu en ekki aðeins frægð og völd Cosbys sem skýrir hvílíkan fjölda ákæra þurfti til að þær væru teknar alvarlega og það var fyrst og fremst þegar ný kynslóð spéfugla var farin að tala hátt um nauðganir Cosbys að þær komust á vitorð allra.

Annar vandi var um hríð að ekki var hægt að eltast við manninn vegna glæpa sem höfðu verið framdir fyrir löngu en nú hefur lögum um fyrningu slíkra glæpa verið breytt. Vandinn var í stuttu máli kerfislægur og snerist því alls ekki aðeins um fyrirferð Cosbys í menningunni. Hún veldur því aftur á móti að mörgum finnst enn erfitt að takast á við þetta stjörnuhrap. Þegar Cosby reynist úlfur í sauðargæru hafa svartir Bandaríkjamenn og raunar þjóðin öll glatað mikilvægri fyrirmynd. Eins er það auðvitað í hvert sinn sem menningarhetja fellur af stalli og um það eigum við líka íslensk dæmi. Þar skipti fleira máli en frægðin ein. Eddie Murphy, Richard Pryor og aðrar stórstjörnur höfðu sannarlega ekki yfir sér sömu góðmennskuslikju. Samt bendir Bell í þáttunum á vísbendingar í bröndurum hans Cosby um varasöm viðhorf m.a. til byrlunar (sá mamma þetta sama?).

Sem nauðgari er Cosby ekkert sérstaklega áhugaverður heldur einn af mörgum, augljóslega þó einn af þeim klókustu. Sögur kvennanna eru sláandi líkar og sýna hvernig lyfin og samböndin sem hann hafði myndað við konurnar og aðstandendur þeirra voru eins og moðreykur sem huldi hann. Frægð hans lék auðvitað einnig hlutverk en einkum sú tilfinning venjulegra manna að finnast þeir þekkja sjónvarpsfólk og skemmtikrafta sem þeir hafa þó aldrei hitt. Hið notalega andrúmsloft í Fyrirmyndarföðurnum og peysurnar sem Cosby klæddist þar voru alveg á skjön við ímynd nauðgarans. Það reyndist mörgum auðveldara að trúa á sekt hans þegar hann var orðinn geðillt gamalmenni. Þá fóru líka yngri spaugarar að hjóla í gamla áður ósnertanlega goðið.

Previous
Previous

Úrig fjöll

Next
Next

Ekki lána þessari konu penna