Úrig fjöll

Eins og þið vitið sem lesið þessa síðu reglulega er ég að vinna að eddukvæðaþýðingu og Skírnismál er eitt þeirra kvæða sem lengst er komið. Eitt af því sem hefur vafist fyrir okkur þýðendum er hvernig eigi að þýða „fara úrig fjöll yfir“. Orðið „úrigur“ er varla til í nútímamáli en þegar farið er í orðabækur nefnir Ásgeir Blöndal tvær merkingar. Önnur er ‘stygglyndur, hranalegur, erfiður’ en hin er ‘votur’ og hefur sú merking oftar verið talin eiga við í Skírnismálum. Á hinn bóginn er ekkert samhengi sem skýrir hvort eigi við þar sem eddukvæðaformið er knappt.

Nú geta fjöll bæði verið vot eða erfið og ógreið yfirferðar og ég er ekki alltaf á þeim buxunum að láta orðabók eða eldri þýðendur segja mér hvað setningar merkja þannig að ég ákvað að skoða dæmin betur. Í fornmálsorðabókinni (ONP í Kaupmannahöfn) fann ég fjögur dæmi og þau falla öll að stygglyndismerkingunni, sótt í Landnámu, Laxdælu, Grænlendinga sögu og Þorleifs þátt Jarlaskálds. Í þremur tilvikum eru það manneskjur sem eru úrigar en í einu er það fé. Merkilegt fannst mér að finna ekkert dæmi um úrigt í hinni merkingunni þannig að ég skoðaði Ritmálssafnið. Þar fann ég tvö dæmi frá 19. og 20. öld og í báðum tilvikum virtist orðið merkja vætu. Það hvarflaði að mér að þau væru innblásin af fornum textum enda skáld og andans menn tekin að sækja í eddukvæðin á þeim tíma. Næst fór ég í Lexicon Poeticum og þar er bleytan allsráðandi en engin dæmi um skapstyggð. Að minnsta kosti hafa öll dæmin verið túlkuð þannig af útgefendum en sum sýnast mér reyndar ekki alveg ótvíræð. Meðal þess sem er úrigt í dróttkvæðum eru hjarn og strönd þannig að ef til vill liggur beinast við að líta eins á fjöllin fremur en að þeim sé líkt við erfiðar kindur eða mannfólk. En er blautt og styggt kannski það sama í fjallgöngu?

Fjöll geta sannarlega verið erfið og kannski ekkert fráleitt að persónugera þau uppi á fjallinu; eins er freistandi að velta fyrir sér hvort eitthvað sé líkt með stygglyndum karli og blautri strönd. Ásgeir Blöndal segir þessi orð mynduð annars vegar úr karlkynsorðinu úr sem vísar til önugleika en hins vegar úr kvenkynsorðinu úr sem merki vætu, s.s. tvö ólík orð ólíkrar merkingar en með sama útlit. Í Orðsifjabókinni hans eru engin dæmi en á hinn bóginn eru orð svipaðrar merkingar til í nágrannamálum. Ég tek mikið mark á Ásgeiri en eftir stendur samt hugdettan um einhvers konar vensl milli bleytu og stygglyndis, og furða mín á því að annað lýsingarorðið sé aðeins til í fornum skáldskap en hitt aðeins í fornum prósa.

Glíman við gátur eddukvæðanna er stundum líkari hinum fornu hjaðningarvígum en þeim snöggu glímum sem Sigtryggur vann á sínum tíma. Í augnablikinu eru fjöllin blaut í þýðingu okkar en hin merkingin togar enn í mig.

Previous
Previous

Stúlkan sem starir á vetrarbrautina

Next
Next

Hvað gerist eftir stjörnuhrap?