Stúlkan sem starir á vetrarbrautina
Greinargerð mín fyrir eigin menningarneyslu væri ekki alls kostar heiðarleg ef ég sleppti alveg úr þeim ófáu stundum sem ég eyði í netlestur um alls konar fyrirbæri sem ég fæ skyndiáhuga á. Svona sem pars pro toto hentar Cecilia Payne-Gaposjkin (1900–1979) ágætlega en hún var stjörnufræðingur sem braut blað á sínum tíma. Ég vissi þó ekki í fyrra að hún væri til en það var hún sem setti fyrst fram kenninguna um að sólin væri í grundvallaratriðum annað fyrirbæri en reikistjörnur eins og jörðin. Þetta var á sínum tíma mjög umdeilt vegna og stangaðist á við almenna þekkingu vísindamanna á þeim tíma og eðlilega hugsar maður til Payne í hvert sinn sem setningin „Eru niðurstöðurnar í samræmi við vísindalega þekkingu á efninu“ kemur fyrir á ritrýnieyðublaði.
Cecilia Payne fékk ekki prófessorsstöðu fyrr en á sextugsaldri vegna þess að ekki þótti við hæfi í Harvard að veita konum slíka titla. Hún var fædd og upp alin í Englandi og gekk að eiga Rússa en varð að lokum bandarískur ríkisborgari og bar beinin þar. Á yngri árum var tónskáldið Holst kennari hennar og hvatti hana til að leggja fyrir sig tónlist. Það vildi hún ekki að gera en hugsanlega hefur Holst samt haft áhrif á hana því að sem kunnugt er eru Pláneturnar hans þekktasta tónverk. Í Bandaríkjunum varð Harlow Shapley kennari hennar og hvatti hana til að skrifa doktorsritgerð. Henry Norris Russell (sem Hertzsprung-Russell línuritið er m.a. kennt við) latti hana hins vegar frá að standa fast á kenningunni um muninn á sólinni og jörðinni en skipti nokkrum árum síðar um skoðun á þessu og setti fram um það tilgátu í eigin nafni þar sem Payne var vissulega getið en Russell fékk þó aðalheiðurinn.
Payne naut þannig aldrei verðskuldaðrar athygli á ævi sinni en vann þó alla tíð við að góna á vetrarbrautina og var ánægð með sinn hlut. Framtíðin hefur dregið fram þátt hennar í vísindasögunni í staðinn.