Útvarpserindi um greind

Þann 1. júní síðastliðinn flutti ég stutt erindi í Ríkisútvarpið (Uppástand) um efnið „greind“. Hér er það birt lesendum til fróðleiks:

Ég er ævilangur aðdáandi Agöthu Christie, erfði það frá foreldrum mínum. Agatha var líka fyrsti rithöfundurinn sem ég las á ensku og á 14. ári gleypti ég í mig tugi bóka hennar sem til voru heima. Síðan les ég þær reglulega og velti fyrir mér því að þótt fá skýrari dæmi séu um afþreyingarbækur má finna í þeim skarplegar athuganir um hitt og þetta, meðal annars starf gátuleysandans og analytíska eða greinandi hugsun. Á tímum þegar fjölmiðlar eru gjarnir á að staðsetja eigin rembu hjá höfundum fortíðarinnar er ástæða til að nefna að Agatha Christie velur „jaðarmanneskjur“ til að leysa ráðgáturnar í bókum sínum. Annars vegar er útlendingurinn Hercule Poirot sem klæðir sig og hegðar öðruvísi en aðrir, er einhleypingur og talar með hreim. Hins vegar er það gamla konan fröken Marple sem talar ruglingslega vegna þess að hún hugsar hratt. Bæði eru iðulega afgreidd sem meinlaus og skrítin. Glæpamenn og aðrir vanmeta Poirot og Marple vegna þess að breska samfélagið á þeim tíma fyrirlítur útlendinga og gamlar konur og tekur lítið mark á þeim. Annað sem einkennir þessar tvær utangarðspersónur eru greinandi hæfileikar sem þau ræða stundum. Eitt er að trúa engu sem þeim er sagt, það sem við getum kallað heimildarýni. Á tímum þar sem flestar fréttir snúast um að einhver heldur einhverju fram er hressandi að hugsa til Poirot og fröken Marple. Þau treysta eigin augum og gögnunum fremur en háværum fullyrðingum og bæði leysa þau t.d. einu sinni sakamál þar sem forsenda eldri ályktana er sú skoðun að sú myrta hafi verið glyðra og lauslætisdrós en hvorki Poirot né Marple taka því sem gefnu.

Stundum kemur þéttriðinn köngulóarvefur goðsagna og uppspuna í veg fyrir að aðrir sjái hvað gerðist en Poirot og Marple leysa málin með því að hugsa: hvað hefur raunverulega gerst? Annað sem einkennir greinandi vinnubrögð þeirra er að horfa aldrei fram hjá smáatriðum sem ekki finnst skýring á. Ekki er hægt að leysa gátuna fyrr en spurningum um þau atriði hefur verið svarað. Símtal sem engin skýring finnst á. Flaska sem hent er út um glugga en enginn viðurkennir að hafa hent. Vissulega eru sumar flétturnar langsóttar en áherslan er á rökhugsunina og greindina sem felst í því að líta fram hjá reyknum, taka eftir smáatriðum, trúa ekki öllu sem sagt er, horfa ekki á það sem glæpamaðurinn vill að allir horfi á, og gefa sér ekki forsendur sem engan veginn er öruggt að séu sannar.

Um daginn hitti ég stjórnmálamann sem lýsti þeirri sjaldgæfu skoðun að stundum væru bókmenntafræðingar flestum skarpskyggnari. vegna þess að þeir væru þjálfaðir í rökhugsun. Þetta er einmitt það sem mér hefur alltaf fundist sjálfum þó að vissulega séu til misgóðir bókmenntafræðingar og allmargir eigi til að flaska á rökhugsuninni sem á raunar við um allar stéttir vísindamanna og annarra. Mitt starf í bókmenntarannsóknum hefur einmitt snúist um að benda á forsendur sem ekki standast, rökleiðslur þar sem hlaupið er yfir marga liði og gögn sem eru ekki endilega jafn traust og ályktað er. Þegar ég fjalla um fornsögur reyni ég yfirleitt að skoða hugmyndir um uppruna þeirra og hvaða forsendur liggja á bak við áætlaðan aldur. Oft reynast þær illa rökstuddar og byggðar á fordómum fræðimanns sem gaf sér forsendur sem ekki er lengur hægt að trúa á. Mér kemur þessi starfi minn stundum í hug þegar ég heyri fjölmiðla lýsa því að „vísindamaður“ haldi einhverju fram um vísindaleg málefni (sem var t.d. algengt á covidtímanum). Spyr sjálfan mig hvort vísindamaðurinn sé á því sviði sem um ræðir (sem er ekki alltaf raunin) og umfram allt hvort hann hafi beinlínis rannsakað málið sem um ræðir eða sé aðeins með prófgráðu í faginu sem er ekki sami hlutur. Eins er gagnlegt að velta fyrir sér hvort svokallaðir „sérfræðingar“ séu í raun að gæta hagsmuna sem þeir reynast iðulega vera. Opinber orðræða er full af fordómum og fyrirframgefnum forsendum og hlustendur hafa sjaldan haft meiri þörf á að hafa gagnrýna hugsun með í för, þá sem kennir manni að hugsa „hvernig veit hann þetta“ í hvert sinn sem einhver talar. Þó að það sé að einhverju leyti nostalgískt hjá mér að lesa Agöthu Christie reglulega er ástæðan ekki síst sú að bækurnar fjalla um greind, um aðferðafræði, um hvernig jaðarmanneskjan sem leysir málið kemst að sínum niðurstöðum, greinir milli aðalatriða og aukaatriða og heldur fjarlægð frá blæstri umhverfisins. Stundum fæ ég á tilfinninguna að höfundurinn hafi líka haldið heilbrigðri fjarlægð frá eigin umhverfi og iðulega liðið eins og útlaga sem er líklega tilfinningin á bak við allar skriftir.

Previous
Previous

Lítið kjöt í niðursoðna kjötinu

Next
Next

Stúlkan sem starir á vetrarbrautina