Lítið kjöt í niðursoðna kjötinu
Eftir langa umræðu um „falsfréttir“ er farið að renna upp fyrir mér að margir skilja ekki að fréttir yfirleitt eru frásagnarform, einföld og ódýr afþreying fyrir vanafasta sem sést m.a. á því að fjöldi fréttatíma er nokkurn veginn óháður því hvað gerist í heiminum og flest blöð jafn stór alla daga. Jafnvel þó að frétt sé unnin heiðarlega gæti hún aldrei verið sannleikur um neitt efni enda takmörkuð af forminu og þeim aðila sem skrifar og velur umfjöllunarefnið, fyrirsögnina, áherslur fréttarinnar og allt sem er látið ósagt. Allt í frétt er val höfundar heinnar: fyrirsögnin, myndin sem fylgir, jafnvel greinarmerkjanotkun hefur sín áhrif, og niðurstaðan er tjáning ekki síður og miklu fremur en veruleiki. Ég er ekki hér að tala um óvönduð vinnubrögð þó að ekki skorti dæmi um þau heldur að allar fréttir eru niðursoðin dósaheimsmynd, kjötlíki fremur en kjöt. Það sem er valið til umfjöllunar á 2-3 mínútum eða 200 orðum litast af stefnu og áherslum hvers miðils sem mótast af þeim hagsmunum sem hann stendur vörð um (óvitað eða meðvitað) og fordómum fréttahöfunda. Að horfa á sömu fréttamenn kvöld eftir kvöld er því álíka upplýsandi (en minna skemmtilegt) og að lesa ekkert nema Ísfólkið. Hvorttveggja fréttir og falsfréttir eru sagan um það sem á að hafa gerst, skyndimatreidd fyrir (yfirleitt aldraðan) almenning sem vill ímynda sér að hann „fylgist með“. Það er varla tilviljun að enginn sagnfræðingur sem hefur völ á frumgögnum notar fréttir sem heimild um að annað en viðhorf miðilsins.
Lítil ástæða væri reyndar til að hafa orð á svo sjálfsögðum hlut nema vegna þess að seinustu áratugi hafa fjölmiðlar og fólk sem þar vinnur unnið að sköpun belgingslegrar sjálfsmyndar um að fjölmiðlar og fréttastofur séu útverðir sannleika, lýðræðis, réttlætis og fræðslu. En jafnvel vandaðasta fréttatengt efni sem væri laust við staðreyndavillur (fátt slíkt finnst þó) er í raun ekki mjög upplýsandi. Sá sem leitar sannleika sem er ekki einfaldaður svo mjög að enginn sem til þekkir kannast við lýsinguna þarf að leita til bóka, tölfræðilegra gagna og vísindagreina – já, og skáldskaparins sem geymir oft meiri sannleik um heiminn en fréttatengt efni. Sjálfur las ég einkum vísindagreinar (eða útdrætti þeirra) í covid-faraldrinum vegna þess að mig langaði til að skilja málið og varð þess var að þeir sem fylgdust aðeins með íslenskum fjölmiðlum vissu flestir minna en ekkert um það sem augu allra beindust þó að. Þó var ástandið þannig séð einfalt og því öruggt að staðan er verri þegar kemur að flóknum samfélagsmálum sem þola smættun illa og þar sem fjölmiðlar hafa meira val um hverju þeir velja að miðla. Þetta er einfaldlega eðli frétta eins og ég ræddi einu sinni í lengri grein. Í stuttum fréttatímum eða netgreinum er brugðið upp svipmynd og þær fylgja föstu formi þó að þegar til lengri tíma litið sé fréttamatið breytilegt og mótað af fjölmiðlastéttinni og tengslum hennar við valda- og hagsmunahópa í samfélaginu. Óhjákvæmilega skapa fjölmiðlar iðulega stemmingu sem er ýkt, villandi eða ósönn, eins og allir vita sem hafa einhvern tímann verið viðstaddir viðburð sem komst í fréttir. Þetta er aldrei líklegra en í nútímanum á þessu landi þar sem flestar fréttir snúast um að einhver haldi einhverju fram og hlutverk fréttamanna er helst að velja þá sem þykja nógu merkilegir til að fésbókargeip þeirra komist í fréttir. Það val mótast auðvitað af þeirra eigin tengslum og fordómum.
Þar sem fréttir eru í eðli sínu snöggsoðnir skyndibitar eru þær litaðar af staðalmyndum ríkjandi menningar. Það er jú fljótlegra að segja fólki það sem það þykist vita en að segja því eitthvað nýtt. Allar erlendar fréttir á Íslandi eru litaðar af heimsmynd og hagsmunum Vesturlanda og þorri mannkyns er varla til samkvæmt þeim (Vesturlandabúar eru iðulega líka heimildin um skoðanir allra hinna). Þetta á líka við þó að þær séu vandvirknislega unnar eins og enn má sjá, einkum erlendis, en á Íslandi er fréttamannastéttin óðum að hverfa af vettvangi dagsins og inn í menningarkima samfélagsmiðla og tekur fegins hendi áróðri frá lobbýistum að berjast fyrir málstað eða jafnvel bara arhygli. Þetta er þó engin nýjung; fréttir hafa alltaf verið fullar af villum eins og kemur iðulega í ljós ef gamlar fréttir eru bornar saman við betri gögn.
Fréttir verða ekki betri heimild um heiminn þó að þær séu lesnar af gráhærðum grafalvarlegum karlmanni fremur en svipmikilli leikkonu sem les af innlifun eins og hinni þekktu Ri Chun-hee (sjá að ofan). Fólk utan Norður-Kóreu sér fréttirnar sem hún leikur sem fals til stuðnings málstað leiðtoga þess einangraða ríkis. En fyrir þá sem halda að fréttir færi þeim skilning á heiminum eru allar fréttir hálfgert fals, líka í lýðræðisríkjum eins og Íslandi. Ef þær koma ekki frá stjórnvöldum, koma þær frá hagsmunaaðilum eða eru sprottnar úr hugmyndaheimi misviturra fréttamanna. Eftir hrunið voru íslenskar fréttir þannig einna helst heimildir um hvers konar lán fjölmiðlamenn hefðu tekið. Þess vegna er ekki aðeins mikilvægt að forðast „falsfréttir“ heldur almennt að greina milli veruleikans og fréttaflutnings, skilja að heimur frétta er ekki heimurinn.
En er lesandinn þá bara illa fokkd eins og kerlingin sagði? Að einhverju leyti, já. Við verðum einfaldlega að lifa með því að geta ekki treyst þeim sögum sem haldið er að okkur. Skynsamlegast væri að losa sig við fréttafíkn sem er álíka skaðleg heilanum og aðrar fíknir, reyna að leita víðar fanga og helst afla eigin upplýsinga en beita eigin dómgreind (m.a. til að falla ekki í áróðursgildrur af því tagi sem eru kallaðar „falsfréttir“) og skynsamlegri heimildarýni gagnvart þeim, leita eins góðra gagna og mögulegt er en skilja líka að sannleikurinn liggur ekki alltaf fyrir og oftast er sá vitrastur sem skilur hve lítið hann veit.