Sítt-að-aftan-Morse
Um daginn langaði mig til að sjá Kavanagh-þáttinn sem Ewan McGregor lék í en við það ánetjaðist ég Kavanagh QC sem ég á raunar á diskum en er líka allur á Youtube sem nú er í sjónvarpinu eins og allir lesendur þessarar síðu vita. Mér fannst Kavanagh dágóður þegar ég var 25 ára og hann birtist fyrst í sjónvarpinu en núna átta ég mig á að hinn innbyggði áhorfandi er 50+ eins og ég er núna og Kavanagh er margfalt betri í þriðja sinn (til glöggvunar var áhorf númer eitt: Sjónvarpið fyrir 2000, númer tvö: dvd-diskar upp úr 2010, númer þrjú: Youtube núna). Svo að ég fari ekki yfirum í hinu frjálsa formi bloggsins og kynni loksins það sem ég er að ræða er Kavanagh QC sjónvarpsþátturinn með sjálfum Morse, John Thaw, sem í þetta sinn leikur ekki stuttklipptan einhleypan lögreglumann sem drekkur mikið og hlustar á Wagner heldur hálfsextugan málafærslumann sem er með sítt að aftan og er harðgiftur fjölskyldufaðir. Það sem Morse og Kavanagh eiga sameiginlegt er að vera eitursnjallir en snilld lögfræðingsins Kavanagh felst ekki síst í að yfirheyra vitnin í réttarsal og endurtaka asnalegar fullyrðingar þeirra mjög hægt þannig að þær verða enn asnalegri. Ég er nú þegar ráðinn í að taka þetta upp í hversdaglegum samræðum.
Líkt og í mínum eigin lögreglubókum vindur tveimur sögum fram í senn. Annars vegar eru einstök málaferli sem Kavanagh tekur að sér og lýkur í hvert sinn. Á hinn bóginn vindur fram sögu hans sjálfs, konu hans, barna og síðast en ekki sísit lögfræðistofunnar þar sem Kavanagh hefst við og sækir reglulega eins konar „deildarfundi“ með kollegunum sem eru hrokafullar týpur sem gætu þess vegna unnið í Háskóla. Öfugt við flest önnur börn í svona þáttum eru börnin hans Kavanagh fremur aðlaðandi og sympatísk. Þau lenda ekki heldur í neinum yfirþyrmandi vandræðum þó að dóttirin haldi eitt sinn við miðaldra háskólakennara (þessu hafði ég gleymt enda ekki miðaldra háskólakennari þegar ég sá þáttinn fyrst), Kavanagh að sjálfsögðu til sannrar armæðu. Lögfræðingarnir á stofunni eru líka haganlega upp dregnir þó að Jeremy Aldermarten (leikinn eftirminnilega af Nicholas Jones) sé stundum eins og paródía. Leikkonan Anna Chancellor (skúrkurinn í Fjórum brúðkaupum og jarðarför) er sérstaklega góð en mig minnir að ég hafi þarna séð hana fyrsta sinn leika jákvæða persónu.
Þó að réttarhaldasögur snúist um æsandi atburði eru þeir oftast í upphafi en sjálfur þátturinn snýst um að greiða úr flækjunni. Hin samfellda saga þarf líka sitt pláss þannig að minna er þá eftir í sjálf sakamálin en þau ná þó iðulega að vera mjög grípandi og spennandi, nóg til að ég held áfram að horfa en fyrir utan þann fyrsta er hver þáttur 75 mínútur. Kavanagh ferðast víða, t.d. einu sinni fyrir herdómstól í Portsmouth og einu sinni alla leið til Bandaríkjanna (en Morse fór alla leið til Ástralíu). Siðferðisleg álitaefni skipta miklu máli, Kavanagh vill helst ímynda sér að skjólstæðingarnir séu saklausir þó að sú sé ekki alltaf raunin. Iðulega hefur hann samúð með fólki sem allir aðrir fyrilíta. Áhorfendum eru aldrei færðar billegar lausnir á silfurfati.
Þó að enskur réttarsalur sé stundum eins og grín, einkum þar sem allir eru uppáklæddir með 18. aldar hárkollur, gleymir maður því fljótlega og lifir sig inn í þættina. Að lokum horfði ég á hvern einasta (þeir eru 27) og fannst þessi lest halda fullum dampi fram á endastöð. Það er ekki síst að þakka sterkum leik John Thaw sem varð sannarlega besti vinur sjónvarpsáhorfenda í lok síðustu aldar. Hann lést 2002 en lék Morse seinast árið 2000 og Kavanagh árið 2001. Morse lést og var tregaður af mörgum en við skiljum við Kavanagh á sínum stað, nýbúinn að hafna dómarastöðu og bjarga enn einum ákærðum frá fangavist.