Hæ, Siggi skjaldbaka
Þetta vor hef ég ósjaldan gengið í barndóm með hjálp Spotify eins og fram kom í nýlegu skrifi mínu um gamlar plötur Halla og Ladda. Þá gróf ég líka upp plötuna Algjör sveppur á sömu veitu en á hana var mikið hlustað á þegar ég var sex ára og nú er ég eftir langa mæðu kominn á þá skoðun að það sem Palli kallar á skólalóðinni sé „Hæ, Siggi skjaldbaka“ en ekki „Æ syngi skjaldbakan“ eins og ég hélt lengi. Seinna var flytjandinn Gísli Rúnar nágranni minn í eitt ár og var það einkennilega óraunverulegt, sennilega svipað og að vera það enska barn sem er næsti nágranni J.K. Rowling. Platan var full af uppreisnargirni sem börnum finnst fyndin eins og þegar „haginn grænn og hjarnið kalt“ verður að „súkkulaði út um allt“. Svona var líka snúið úr textum í söngtímum í skólanum, við litla gleði fullorðinna. Drjúgur hluti húmorsins var óskiljanlegur sex ára eins og vísan um „sjóþorskastríðið“ en samt fannst okkur þetta fyndið líka vegna þess að það átti að vera fyndið. Börn eru skemmtilega móttækileg og tilbúin að hlæja með fullorðnum (en það breytist rækilega síðar). Löngu eftir þessa tíma sá ég Twin Peaks og fékk deja vu þegar ein persóna kemur inn syngjandi lag sem ég hélt að væri eftir Palla og fjallaði um Bessa Jóns og Bósa Jóns og hundinn þeirra (ég veit ekki enn hvað Palli syngur þar en það hljómar eins og „keralíngdæbidú“).
Vegna þess að platan var spiluð aftur og aftur heima hafði hún ívið meiri áhrif en Palli í Stundinni okkar í sjónvarpinu sem aðeins var hægt að sjá beint í þá daga (hann sat þar alltaf ásamt Sirrý sem ég dýrkaði og dáði sex ára en sat svo löngu síðar í stjórn Borgarleikhússins ásamt mér vegna þess að Ísland er lítið samfélag; síðar bættust í hópinn í Stundinni Viddi og Begga sem þóttu þó ekki nándar nærri jafn skemmtileg). Eins var með bókina Páll Vilhjálmsson eftir Guðrúnu Helgadóttur en þar tók hún þessa brandaradúkku og setti í alls konar alvarlegt samhengi sem var frekar kjarkmikið og fjarri því að vera augljós valkostur en á þeim árum var Guðrún eins og Mídas konungur, allt sem hún snerti breyttist í gull.
Platan er líka sniðuglega hönnuð, einfaldlega farið í gegnum einn dag í lífi Palla með gríni og glensi og meira og minna endurnýttum lögum. Það er ekkert minnst á Guðrúnu Helgadóttur á plötuumslaginu þannig að líklega hefur Gísli Rúnar samið þetta allt sjálfur. Íslenskir listamenn voru afslappaðir gagnvart höfundarhugtakinu þá, það var ekki fyrr en á 10. áratugnum sem deilt var um höfundarréttinn á Glámi og Skrámi og ef ég man rétt var niðurstaðan að texti, brúður og raddir væru sitthvað og Halli og Laddi fengu að eiga raddir Gláms og Skráms.