Elítan skemmtir sér
Sjálfsagt hefði Karl Marx áttað sig best manna á örlögum eigin kenninga en það er kannski farsakenndast við þær hvernig marxískt orðafar hefur breiðst út til almennings en iðulega er marxískri samfélagsgreiningu þá snúið á haus og hún jafnvel tekin í þjónustu fasískra afla. Sá furðuviðburður þegar Donald Trump var kosinn forseti, m.a. af fólki sem taldi sig vera að gefa „elítunni“ á kjammann er kannski besta dæmið um þessa hugtakabrenglun. Einnig á Íslandi er hugtakið „elíta“ notað ekki síst af fólki sem er fjáðara en flestir og hefur öðrum betri aðgang að gjallarhorni umræðunnar. Þessi umræðuelíta er í lélegu dulargervi en nær samt að slá ryki í augu margra og þarf engan að undra úr því að Trump gat það. Á hinn bóginn eru víða til hefðbundnari elítur og kannski er Bretland besta dæmið. Þar hefur nýlega farið fram krýning sem vísaði bæði í eldfornar og nýlega uppfundnar hefðir og þar sátu lafðir og lávarðar sem trúa því sjálf að þau séu öðrum fremri, meðal annars vegna þess að fjölmargir Bretar fallast á þá hugmynd. Víðar í Evrópu er til fólk af aðalsættum en það skiptir minna máli þar nema fjármunir fylgi.
44 af 57 forsætisráðherrum Breta voru við nám í sömu tveimur háskólunum þó að aðrir skólar séu margir í þvísa landi. Aðeins 11 af 57 hafa verið við nám í skóla þar sem ekki var krafist gjalda. Þetta er eðlilega framandi okkur Íslendingum og ekki síður sú enska hefð að menn séu aðlaðir og urðu raunar þingmenn á þeim forsendum einum þangað til nýlega. Danska sjónvarpið sýnir reglulega kvikmyndina The Riot Club enda er henni leikstýrt af danska leikstjóranum Lone Scherfig en hún er gerð eftir leikritinu Posh eftir Lauru Wade. Hún lýsir einföldum viðburði, einni veislu þegar klúbbur háskólanema leggur veitingahús í nágrenninu í rúst af ásettu ráði eftir að hafa lítilsvirt aðra viðstadda á allan hugsanlegan hátt. Kröfunni um einingu í stað, tíma og atburðarás er þannig fylgt mestalla mynd þó að við bætist inngangur og eftirmáli. Frægð myndarinnar hefur ekki borist til Íslands en hún er einhver besta greining á bresku elítunni sem gerð hefur verið og það er varla tilviljun að hún var endursýnd í DR daginn sem Boris Johnson hraktist úr embætti. Þó að myndin og leikritið séu eftir konur eru aðalpersónurnar tíu ungir menn sem mynda saman yfirstéttardrengjaklúbb sem á sér hliðstæðu í raunverulegum klúbbi sem Johnson var í á sínum tíma ásamt þeim David Cameron og George Osborne. Um þetta hefði Marx líklega sagt: De te fabula narratur.
Vegna þess að myndin er á einhvern hátt nærfærin í garð drengjanna sem eru flestir ótrúlega fagrir og geta verið sjarmerandi þegar þeim sýnist svo verður ádeilan þeim mun harðari þegar þeir taka að hegða sér á æ dýrslegri hátt og opinbera fyrirlitningu sína á alþýðu manna. Að vísu fá þeir mismikið rými í myndinni en allir eru þó ágætlega skrifaðir og einn er eins konar vitundarmiðja sem áhorfendum er ætlað að tengja við. Hann reynist þó ekkert betri en hinir þegar upp er staðið. Þó að 2-3 í hópnum séu sýnu grimmastir eru þeir á endanum allir hluti af sömu dýrslegu elítu. Hluti af siðferði þeirra er kvenfyrirlitning og þær Wade og Scherfig setja hana upp sem eðlilegan hluta heimsmyndar sem snýst um peninga, völd og sannfæringu um að forréttindin séu eðlislæg, sannfæringu sem þorri Vesturlandabúa er engan veginn ósnortinn af. Þeir eru líka fjarri því að vera einir um að trúa á forréttindi sín. Kapítalisminn viðheldur þeim, í líki góðviljaðs veitingahúsaeiganda sem lifir eftir því prinsippi að viðskiptavinurinn hafi alltaf rétt fyrir sér og fjármunir leysi allan vanda. Drengirnir hata og fyrirlíta alla slíka litla fyirtækjaeigendur sem eru falir fyrir fé.
„Góði drengurinn“ í myndinni er leikinn af Max Irons (syni Jeremy) en skíthællinn af Sam Claflin. Skíthællinn leggur allt kapp á að draga góða strákinn í svaðið með sér og eyðileggja samband hans við kærustuna. Félagar þeirra búa sumir í kastölum, eiga snekkjur og þrá völd og metorð. Í lokin koma þeir sér saman um að fórna skíthælnum en niðurstaða myndarinnar verður samt sú að í Bretlandi sé engum skíthæl fórnað í raun. Klúbburinn reynist ekki bundinn við háskólaárin heldur lifir hann framhaldslífi – og ræður Englandi til þessa dags.