Ekki fyrir iðnaðarfélagsforstjóra
Vorið 2008 hóf ég nýjan feril sem höfundur skáldverka eftir að ég hafði lagt slíka drauma á hilluna rúmum áratug fyrr og helgað mig alfarið fræðastörfum, en á þeim árum sendi ég iðulega frá mér 4-6 viðamiklar rannsóknargreinar á ári í flestum tímaritum á sviði norrænna fræða. Eflaust hafa líka verið löng tímabil sem mér datt ekkert í hug en sem betur fer fennir yfir þau í minningunni. Eins og margir vita sækir innihaldsleysi lífsins ákaft að fólki um 37 ára aldur og kom fram hjá mér í þörf fyrir að senda loksins frá mér skáldverk. Aðallega hafði ég áhuga á ögrandi verkum sem voru sambland fræða, skáldskapar og minninga og höfundar fá Nóbelsverðlaun fyrir en allar slíkar tilraunir runnu út í sandinn. Ég hafði hins vegar verið með vef sem átti sér ýmsa lesendur og fyrsta bókin var úrval af þeirri síðu sem hét Fréttir frá mínu landi. Lesendur tóku henni vel og hún hefur verið uppseld ansi lengi. Gagnrýnendum var ekki skemmt og einn birti tvisvar sama ritdóminn í Mogganum þar sem fram kom að þó að bókin væri grundvölluð á bloggi vantaði í hana hinn hráa tón bloggsins sem gagnrýnandinn hafði vonast eftir. Eins nefndi hann dæmi um ýmsa franska fræðimenn sem hefðu sent frá sér viðlíka smáprósabækur en munurinn á þeim og mér var að þeir væru merkilegir hugsuðir. Það versta við þennan dóm var að hann var líklega ekki illa meintur.
Bókin hófst á kjörorðinu „Ekki fyrir iðnaðarfélagsforstjóra“ sem var ekki skýrt frekar en vísaði í söguna um Hans klaufa. Eins og þið kannski munið tók prinsessan í þeirri sögu á móti vonbiðlum í mjög heitum sal en þar sátu þrír skrifarar og einn iðnaðarfélagsforstjóri sem skrásettu allt sem gerðist. Samkvæmt prinsessunni var iðnaðarfélagsforstjórinn „verstur því að hann er skilningslaus“. Í bernsku sá ég ekkert athugavert við þann góða mann en á miðjum aldri hafði runnið upp fyrir mér hvílík bölvun skilningslaust fólk sé og ekki síst fyrir rithöfunda. Þetta tengist auðvitað lykilatriðum bókmenntafræðinnar sem snýst um alls konar orð og setningar og skilning eða misskilning þeirra. Það lýkst snemma upp fyrir fólki í þessu fagi að sumt fólk hlustar alls ekki mjög vel á það sem sagt er og skilur aðeins það sem það vill skilja. Iðnaðarfélagsforstjórinn í sögu H.C. Andersens er holdgervingur þess fólks sem ég lít á sem minn helsta andstæðing og með þessu upphafi rithöfundarferilsins skoraði ég þennan andstæðing á hólm.
Þar með afhjúpaði ég auðvitað sjálfan mig sem rómantíska sál sem þráir skilning, kannski ekki alveg eins berskjaldaður og H.C. sjálfur, sem leit á sig sem ljótan andarunga, en samt í þeim flokki. Eins kjánalegt og það er hefur mig aldrei langað til að draga þetta til baka, ég er innst inni rómantíska sálin sem hóf sinn skáldferil á prenti með hnefana á lofti reiðubúinn árásum iðnaðarfélagsforstjóra. Síðan hefur skáldverkunum fjölgað, þau eru að nálgast 20 og ég hef uppgötvað ýmsa lesendur sem eru alls ekki iðnaðarfélagsforstjórar. Líklega eru þeir alltaf færri en hinir en samt nógu margir til að geta haldið uppi heilu höfundunum sem ekki eru mjög fjárþurfi.