Í góðu fríi við Miðjarðarhafið

Ég get ekki endursagt margt af því sem hefur gerst í Hotel Portofino en samt sit ég alltaf bergnuminn við þáttinn og ímynda mér að ég sé staddur á hóteli á þessum fallega stað. Söguþráður þáttanna er líka svolítið eins og að vera í góðu fríi. Það er morgunmatur og kvöldmatur en þess á milli fara menn á ströndina eða rölta um í fallegum garði. Í þættinum er einhver spennandi söguþráður en ég man varla hver hann er, svo litlu máli skiptir hann enda líða iðulega heilu þættirnir án þess að neitt gerist í helstu málum. Einn þráður snýst um að sonur hóteleigandans hefur fyrst trúlofast en síðan gifst fremur leiðinlegri konu en er miklu skotnari í annarri sem er ekki jafn efnuð og á kannski barn í lausaleik (man það ekki alveg).

Annar söguþráður snýst um hóteleigandann sem er einmitt kvenhetjan sem nútíminn þarfnast en kemur svo aldrei neitt sérlega fram við. Hún er gift gagnslausum skálki sem er stöðugt að plotta gegn henni. Aldrei skiptir hún þó skapi enda á það ekki við þegar veðrið er alltaf eins og póstkortafegurð umlykur alla viðburðina. Fólkið í þættinum er allt of siðfágað til að æpa, öskra og rífast en einstaka sinnum ýja þau að vandamálum sínum sem oftar eru þó látin órædd. Starfsfólk hótelsins er ekki ósvipað og í Downton Abbey en miklu friðsamlegra þó.

Fyrir utan nútímalega hugsun um kynferði birtast fleiri nútímaleg sjónarmið og virðist helsti boðskapur þáttanna vera að mannfélagið sé samt við sig þótt nú sé haft orð á ýmsu sem áður var ósagt látið. Þannig á hóteleigandasonurinn besta vin sem heitir Nish og er indverskur. NIsh hefur bjargað lífi hans og milli þeirra ríkir mikill kærleikur en þeir hafa þó ólíka sýn á ástina eins og fram kemur þegar Nish kynnist ítölskum byltingarmanni sem veitir honum það sem fíni drengurinn er ekki fær um. Í seinni syrpu særist Nish vegna þátttöku í baráttu við fasismann og liggur mestan part þáttarins særður í nágrenninu án þess að neinn flýti sér að koma honum burt.

Hotel Portofino er semsé fyrst og fremst afþreying en alls ekki hasar og mann grunar að markhópurinn séu eldri konur, helstu neytendur allrar menningar. Hið rólega tempó og Ítalíublætið fellur einnig vel að mínum smekk. Mér líður vel í ímyndunarferðalaginu. Þetta er allt einum of gervilegt til að ég sé beinlínis spenntur enda hef ég ekki á tilfinningunni að ég eigi að vera það.

Previous
Previous

Sjónarhorn morðingjans

Next
Next

Ekki fyrir iðnaðarfélagsforstjóra