Sjónarhorn morðingjans
Bandaríski skáldsagnahöfundurinn Ira Levin (1929–2007) náði heimsfrægð með aðeins sjö skáldsögum sem flestar voru kvikmyndaðar (m.a. Rosemary’s Baby, The Stepford Wives og The Boys from Brazil) en bent hefur verið á að sumar þeirra voru langt á undan sínum tíma í femínískri og vistkerfislegri samfélagsrýni. Sína fyrstu sendi hann frá sér aðeins 23 ára, A Kiss Before Dying (1953). Ég hef lesið hana nokkrum sinnum og renndi yfir hana um daginn og bar saman við kvikmyndirnar tvær sem voru gerðar upp úr henni árin 1956 og 1991. Sagan er einkum fræg fyrir fyrsta hlutann af þremur sem er alfarið frá sjónarhorni morðingjans. Að því leyti braut hún blað en það byggir á listrænni blekkingu sem erfitt er að ná fram í kvikmynd. Í öðrum þætti birtist morðinginn í fyrsta sinn undir nafni en þeim þriðja er oftast breytt mikið í bíómyndunum enda eru hinir tveir hátindur sögunnar. Við það glatast þó ákveðin samfélagsrýni sem gefur sögunni gildi.
Fyrsti þáttur fjallar um ástarsamband ungs manns og kærustu sem er skyndilega orðin ólétt, neitar að eyða fóstrinu og vill giftast án samþykkis fjölskyldunnar. Það er manninum ekki að skapi því að hann var í tygjum við konuna fyrst og fremst vegna ríkidæmis hennar. Sjálfur er hann af fátækum uppruna, hefur þar að auki misst föður sinn og nám hans stöðvast vegna herþjónustu. Þessum samfélagslega bakgrunni er sleppt úr myndunum en hann skiptir miklu máli, m.a. vegna þess að í stríðinu lærir hann að drepa en Bandaríkjamenn eru mjög tregir til að horfast í augu við að dráp í stríði tengist öðrum drápum. Til að skilja söguna er þetta hins vegar lykilatriði. Í myndunum er græðgi mannsins ógeðfelld og líka í bókinni en hún er skiljanleg og auk heldur er sjónarhornið hans þannig að lesendur verða spenntir fyrir hans hönd þegar hann skipuleggur morðið gaumgæfilega og eyðir að lokum sönnunargögnum. Í bíómyndinni 1956 er rækt lögð við þennan hluta enda leikur hin frábæra Joanne Woodward fyrstu kærustuna. Eitt af eftirminnilegustu atriðum hennar er t.d. hvernig ungi maðurinn kemst yfir eitur til að bana kærustunni (sem hún tekur svo aldrei). Í myndinni frá 1991 er allur þessi hluti afgreiddur leifturhratt í upphafi myndarinnar en þar eru systurnar leiknar af sömu leikkonu, Sean Young. Hún er ekki beinlínis góð og dregur þá annars ágætu mynd talsvert niður.
Annar hluti bókarinnar fjallar um leit systurinnar Ellen að morðingjanum sem lýkur hörmulega í bókinni en þar sem Ellen er helsta kvenhetja bókarinnar hefur kvikmyndagerðarmönnum ekki líkað þetta þannig að hún lifir af í báðum myndum og kannski er það góð ákvörðun. Í myndinni 1991 fær Ellen líka að leysa málið en í bæði bókinni og eldri myndinni dúkka upp karlmenn sem bjarga öllu. Í þessari yngri mynd er ungi maðurinn talsvert afkastameiri morðingi en annars og drepur tvær persónur, eina sem er alls ekki í bókinni og aðra sem lifir hana af. Morðinginn er leikinn af Matt Dillon og eiginlega stendur maður með honum þrátt fyrir morðin af því að Sean Young er svo leiðinleg enda er morðinginn þar með eins konar þráhyggju eftir að hafa alist upp horfandi á lestir með eftirnafni föður stúlknanna tveggja. Þar slítur hann líka öll tengsl við móður sína og gengur undir nafni manns sem tók hann upp í bíl sinn og Matt hefur greinilega drepið þótt það sé aldrei seint. Í bókinni er ekki um neitt slíkt að ræða heldur kynnir hann sér auðæfi systranna eftir að hann hittir þá fyrri, og skiptir aldrei um nafn (enda er það hættuspil).
Síðasta hluta bókarinnar er alltaf breytt mest. Þar hefur morðinginn drepið Ellen líka og eltist við þriðju systurina Marion sem aldrei sér í gegnum hann fremur en hinar. Líklega hefur flestum fundist þær systur einum of tregar og fullmikil fórnarlömb. Í þessum hluta fjallar Ira Levin um snobb og hvernig manneskja sviðsetur sig gegnum listrænan smekk og fellur það vel að almennu félagslegu erindi bókarinnar sem snýst um misskiptingu auðs í Bandaríkjunum og aðallega þau takmörk sem fátækari hluta mannkynsins eru stöðugt sett, m.a. ungu mönnunum sem eru sendir í stríð og kennt að drepa, og ádeilan á snobbið rímar vel við það. Ekki hefur Hollywood þó litist á þetta efni og það verður líka að segjast að þriðja þáttinn skortir kraft á við hina tvo. Hann er samt langur í 1991-myndinni en þar er það Ellen sem grunar eiginmann sinn en enginn karlanna og þó er morðinginn afhjúpaður fyrir tilviljun. Í bók og báðum myndum deyr hann síðan, á þessum tímapunkti ferilsins þorir Levin ekki annað en sögulok síðari bóka hans eru mun opnari.