Hundmörg gjálfurdýr

Eftir að hafa setið við eddukvæðin seinustu mánuði er mín helsta niðurstaða að þau séu fjarska ólík innbyrðis og þar á meðal málfarið. Eitt af þeim kvæðum sem ég sennilega þekkti einna verst fyrir var Helgakviða Hundingsbana hin fyrri (eins og allir aðrir hef ég verið mun handgengnari Helgakviðu hinni seinni). Ég mundi að hún hefst á mjög fallegri vísu þar sem frasinn „ár var alda“ kemur fyrir eins og í Völuspá en mundi hins vegar ekki að þessi Helgakviða er hlaðin skáldlegum heitum og kenningum umfram flest önnur eddukvæði. Eins eru þar mörg stakyrði (hapax legomena) en þar liggur merkingin vitaskuld sjaldan alveg fyrir þó að stundum veiti samhengi og orðsifjar hugmynd um hana. Í henni eru líka margir torræðir frasar sem best er sennilega að blaðra ekki mjög mikið um á þessari stundu. Margar kenningarnar merkja auðvitað hermenn og orustur, hetjukvæðin í Konungsbók eiga sér stað í fornum heimi hugdirfsku og blóðsúthellinga þar sem mikið er minnst á hræfugla vokandi yfir vígvellinum.

Í bókinni Bókmenntir í nýju landi sem lengi var kennd í framhaldsskólum (og er mín söluhæsta bók) líki ég hetjukvæðunum úr Konungsbók við unglingasápur þær sem voru áberandi í upphafi 21. aldar. Söguhetjur þeirra voru bæði mjög ungar og mjög fallegar, hálfgert yfirburðafólk í útliti. Eins eru söguhetjur hetjukvæðanna konungar og á því er þrástagast í Helgakviðu I þar sem konungsheiti eru ófá (öðlingur, fylkir, lofðungur, döglingur, gramur, hilmir, mildingur, allvaldur, þengill) og mörg endurtekin, eins og til að berja áheyrendur til skilnings á því að hér sé ekkert alþýðufólk á feðr.

Kenningar eru eins og lesendur mínir vita eflaust einkenni dróttkvæða fremur en eddukvæða. Sum eddukvæði eru kenningalaus en það á sannarlega ekki við um Helgakviðu fyrri og þá kemur að einum vanda sem þýðandi stendur frammi fyrir. Á að þýða kenninguna sem heild eða aðeins hluta hennar. Er Helgi skipstjóri eða konungur sjávarhests? Það er stundum léttara að varpa fram spurningum en að svara þeim. Hvers konar áhrifum er þýðingunni ætlað að hafa? Er sagan aðalatriðið eða myndmálið? Við slíkar spurningar glímum við eddukvæðaþýðendur við þessi misserin.

Previous
Previous

Ófreskjan kemur í haust

Next
Next

Sjónarhorn morðingjans