Ófreskjan kemur í haust

Þessi fallega ugla verður á kápu Ófreskjunnar sem kemur út í haust og er seinasta meistaraverk Atla Sigursveinssonar sem hefur nú hannað fimm kápur fyrir bækur mínar hjá Angústúru. Atli les handritið áður en hann gerir kápuna. Hvort sem það er þess vegna eða annars finnst mér kápur hans fullar af viðkvæmni og fegurð, eins og sögurnar sjálfar. Þær hafa vakið verðskuldaða athygli og fengið verðlaun. Bækurnar hafa fengið minna umtal en það lýsir kannski mest íslenskri bókmenntaumræðu.

Fyrir nokkrum árum kom mér í hug að skrifa fjögurra binda skáldsögu þar sem reynt væri að miðla álfatrú Íslendinga á öldunum fyrir iðnbyltingu, ekki þó sögnunum sjálfum heldur fremur hugmyndalegu inntaki þeirra og hlutverki álfa í menningunni. Innblásturinn er því hin forna hugmynd um álfinn: ríkan, glæsilegan, viðkvæman en líka svolítið ógnandi og varasaman. Það sem mér fannst vera mikilvægast var hvernig álfarnir í þessum fornu sögum voru fulltrúar glamúrs og auðæva og eiginleika sem fólk sjálft þráði að hafa, jafnvel fullkomnunar. Þessa sýn langaði mig til að sjóða saman við eins konar nútímagerð af Narníubókunum þar sem fylgt væri hálfgerðu Rashomon-formi með fjögur ólík sjónarhorn á sömu viðburði, en það væru fjórir krakkar með ólíka eiginleika sem væru líka fulltrúar helstu frumefna (vatns, jarðar, lofts og elds) og sagan væri kannski fyrst og fremst úttekt á áhrifum kynna við yfirnáttúruleg öfl á þau.

Persónurnar urðu smám saman til og er lýst utan frá í öllum hlutum nema einum af fjórum þar sem sögunni vindur fram frá sjónarhorni eins þeirra. Þessar sjónarhornsbreytingar gera merkingu textans aðeins loðnari og er kannski það sem mestur tími hefur farið í. Hver bók tekur lit af hverri aðalpersónu, fyrsta er blá, önnur græn, þriðja gul og fjórða rauð. Jafnframt er í sögunum lýst heimi sem er bæði ógnandi, spennandi, brothættur og ósnertanlegur og öllu þessu þarf að koma fyrir í 100 köflum og 800 blaðsíðum. Eins öllum efanum um það sem er að gerast og sýn minni á hvað galdrar séu. Þessi heimur er þannig mín uppfinning en líka túlkun á álfasögum 19. aldar og merkingu þeirra sem lesendur þurfa ekkert að þekkja en hugsanlega eru lesendur sem eru gegnsósa í rómantík manna næmastir fyrir textanum. Allar bækurnar eru kenndar við höfuðandstæðing krakkana í fléttu hverrar þeirra og nefnast þær Bróðirinn, Risinn, Ófreskjan og Gyðjan. Tvær fyrstu eru komnar út en Ófreskjan kemur út snemmhausts. Hún er fyrsta bókin sem gerist öll í Álfheimum en fram er komið hversu brothættur sá heimur er og eins hvernig þekking söguhetjanna á honum tekur stöðugum breytingum eftir því sem þau átta sig betur á tilurð hans.

Stefnt er að útgáfu Gyðjunnar næsta vor (ég sit sveittur við að ganga frá fyrstu drögum) og þá kemur vonandi meira fram um innihald sögunnar og eins hvort einhver eigi afturkvæmt úr Álfheimum. Í Ófreskjunni verður aftur á móti æ ljósara að í þessum heillandi heimi er ekki endilega einn kraftur sem öllu ræður heldur takast á ýmsir kraftar og kannski eru söguhetjurnar leiksoppar þeirra þó að þau beri konungsheiti í Álfheimum. Andrúmsloftið í bókinni er því gjörólíkt því sem var í fyrri bókunum tveimur — vonandi eitthvað í takt við það hvernig loftið er öðruvísi frumefni en jörðin og vatnið.

Previous
Previous

Rauðavíkingar fyrri alda

Next
Next

Hundmörg gjálfurdýr