Norsk Verbúð
Norski sjónvarpsþátturinn Makta eða Valdatafl á íslensku fer yfir stormasöm ár í sögu norska Verkamannaflokksins, þ.e. valdatíð Reiulf Steen og Odvar Nordli og uppgang Gro Harlem Brundtland. Þátturinn heldur sig fast við útlit tímans (1975–1981) en þó með nokkrum augljósum tímaskekkjum sem er viðurkennt í þáttunum sem næstum óhjákvæmileg uppspretta sögunnar („byggður á sönnum atburðum, lygum og brigðulu minni“). Auk þess er þátturinn mjög í anda hinnar nýju fjölmenningarstefnu og fjölmargar persónur eru túlkaðar af leikurum af öðrum kynþáttauppruna en þær voru sjálfar. Valdatafl minnir þannig ekki lítið á hina íslensku Verbúð í frjálslegri nálgun við fortíðina nema að því leyti að sjálfur sögukjarninn er trúverðugur og í stað hinnar stórkarlalegu íslensku grótesku og sleggjuboðskapar kemur lunkin norsk launfyndni sem er vel fönguð í ódæmigerðu kaotísku upphafsstefi þáttarins. Makta fer yfir ýmis strik á ísmeygilegan hátt en áhorfendum er treyst betur en stundum í íslenskri meginstraumslist.
Fyrri syrpan af Valdatafli lýsir hinu einkennilega skeiði þegar Reiulf Steen varð formaður flokksins í stað Trygve Bratteli en Odvar Nordli tók hins vegar við ríkisstjórninni. Þeim gekk ekki of vel að afla sér vinsælda en varaformaður flokksins, Gro Harlem Brundtland, sló í gegn og var síðan áfram vinsælasti forystumaður flokksins þó að hún væri sett úr ríkisstjórn af körlunum öfundsjúku. Í þáttunum er þessu lýst sem dæmigerðu baktjaldamakki þröngrar karlaklíku sem er uppsigað við konu sem þeim finnst vera valdafíkin frekjudolla. Þó að þetta sé allt 40 ára gamalt núna er sannarlega enn marktækur munur á hvernig fjallað er um konur í áhrifastöðum og karla, þar á meðal í hinum afturhaldssömu íslensku fjölmiðlum sem eru flestir á hverjum degi sneisafullir af visku sömu karlanna um og yfir sextugt sem virðast óttast það mjög að konur séu metnar að verðleikum. Ekki er það þó þannig að Valdatafl standi alltaf með Gro en hún kemur þó ólíkt betur úr fyrri syrpunni en Odvar eða veslings Reiulf sem er alltaf blekaður þegar mest liggur á. Sérstaklega skondinn er þáttur sem gerist alfarið í lest þar sem flokksleiðtogarnir fara á fyllerí með blaðamönnum og missa út úr sér alls konar hluti.
Í seinni syrpunni er Gro loksins komin til valda eftir að hinn aldraði Rolf Hansen hafnaði óvænt starfinu sem Nordli og Steen höfðu þó reynt að plotta hann í árið 1981 — en áður hafði Nordli raunar veðjað á Bjartmar Gjerde sem hvarf úr pólitík skömmu á undan bandamanni sínum eftir hið hræðilega Alexander Kielland slys. Það sem kom Gro til góða þá var stuðningur sjálfs Einars Gerhardsen sem enn hafði talsverð áhrif í Verkamannaflokknum þó að hann væri á níræðisaldri. Ekki var þó upphaf leiðtogaferils hennar neinn dans á rósum; þegar hún tók við var Verkamannaflokkurinn óvinsæll og fyrirfram var búist við að hún sæti ekki lengi í embætti sem var og raunin en Gro sneri aftur í tvígang og var alls forsætisráðherra í nærfellt áratug. Hún sat líka uppi með forvera sinn Reiulf sem var enn vinsæll af mörgum í flokknum, varaformann sem er henni ekki að skapi, ungliðarnir eru óþægir og stunda róttæka orðræðu sem virðist hafa verið afar ólík því sem þekktist hjá ungum jafnaðarmönnum á Íslandi á sama tíma, Samar standa fyrir mótmælaaðgerðum, eiturlyfjatáningar eru á götunni og þannig mætti lengi telja.
Í lok þáttarans birtist Kåre Willoch, erkióvinur Gro, á póstmódernískan hátt og verður hennar helsti demóníski andstæðingur. Þátturinn nær súrrealískum hæðum þegar þau Gro hittast fyrir sjónvarpsþátt á sama tíma og flóðhestur gengur laus í Noregi. Á sínum tíma þótti Willoch einna helst líkjast geimveru með sinn risavaxna nauðasköllótta haus og háshvellu rödd en hann var öflugur flokksleiðtog hægrimanna á Reaganárunum og velgdi Verkamannaflokknum oft undir uggum; þegar hann var síðan hættur í stjórnmálum reyndist hann kreddulaus og flestum mönnum skynsamari þannig að fólk eins og ég tók hann í sátt. En tími persónustjórnmálanna var að hefjast á þeim tíma og síðan hefur enn frekar ágerst að flóknum samfélagsmálum sé lýst sem einvígi einstaklinga.