Nótt í kirkjugarðinum
Einn okkar fremsti skáldsagna- og smásagnahöfundur og þýðandi er jafnframt afkastasmikill málari og á því sviði er hann líka með einstakan og heillandi stíl. Gyrðir Elíasson heldur sýningu þrjár helgar í apríl í Garði og ansi mörg okkar hafa lagt leið undir fót til að skoða verkin. Þetta er sölusýning og ég hef keypt verk sem heitir „Nótt í kirkjugarðinum“, valdi það vegna þess að það heillaði mig og mér fannst það eiga heima á veggnum hjá mér. Úr mörgum öðrum stórkostlegum verkum er að velja þó að ýmis hafi þegar verið seld þegar ég mætti. Flest verkin eru lítil að vöxtum en handbragðið nákvæmt og það má alveg sjá líkindi með þeim og skáldskap Gyrðis.
Ljósmyndum mínum af listaverkunum er ekki ætlað að veita nema örlitla hugmynd um verkin; til að kynnast „Nótt í kirkjugarðinum“ þarf að heimsækja mig en vonandi átta lesendur sig á að ég valdi verkið bæði út af hinu óvenjulega þema, sérstæðri litanotkun og symbólismanum í verkinu sem minnir á ýmsa smáprósa Gyrðis. Hann hefur alltaf verið meistari tungumálsins, táknanna og kenndanna og jafnvel mætti kalla hann meistara hinnar breyttu endurtekningar því að mörg verk hans minna hvert á annað en alltaf með snúningi. Ég get ekki neitað því að mörg önnur verk freistuðu mín fyrir ýmissa hluta sakir en ég var mættur til að kaupa aðeins eitt.
Hin mikla elja Gyrðis vakti undrun allra sýningargesta því að vaninn í menningunni er að vantreysta afkastamiklum listamönnum en þó að verkin væru alls 1200 sá ég ekki eitt sem mér þætti ekki sóma sér vel heima og ýmis toguðu talsvert í mig. Eins og sjá má fá litirnir að tala en titlar verkanna bæta iðulega miklu við og það er eitthvað heillandi við hið smáa form sem fær þarna að njóta sín svipað og í japanskri hæku (formi sem margir reyna sig við en fáir fara vel með). Ekki kom á óvart að sýningin gengi vel enda ýmsir fremstu listamenn landsins á staðnum. Ein helgi er eftir og óhætt að mæla með ferðinni.