Vreiði Húna

Í haust sem leið kenndi ég námskeið um eddukvæði og dróttkvæði sem er ævinlega skemmtilegt því að þá kynnist ég þessum merka kveðskap betur og fæ að koma öðrum í betra samband við hann um leið. Ég vil ekki framtíð þar sem enginn Íslendingur er í minnstu tengslum við eddukvæði og dróttkvæði miðalda. Um dróttkvæðin og áherslur mínar í kennslu þeirra ræði ég e.t.v. síðar vegna fjölda áskorana (ef þær berast) en líkt og fram hefur komið vinn ég nú að grundvallarþýðingu framtíðarinnar á eddukvæðum ásamt Matthew Roby sem er mikill meistari ríms og stuðla á meðan ég einbeiti mér að merkingunni. Enn er Atlakviða óþýdd en ég og bekkurinn lásum hana saman í september og gat ég þá bent þeim á eitt örfárra tilvika í íslensku um nafnhátt þátíðar og eins nokkur „schwellvers“ sem Sievers heitinn kallaði svo.

Í Atlakviðu eru allmörg einkennileg atriði, m.a. þegar aldurstamar skjaldmeyjar eru taldar upp meðal fórnarlamba Guðrúnar Gjúkadóttur. Útgefandi kviðunnar í Íslenzkum fornritum neitar raunar að skilja þetta þannig að skjaldmeyjarnar séu stamar af elli en sjálfum finnst mér það einboðið enda sé ég þessar skjaldmeyjar fyrir mér, eitilharðar í skapi en stirðar af elli. Eins má nefna atriðið þar sem Guðrún ákveður að sleppa hvolpunum lausum eftir að hafa drepið mestallt mannfólkið. Þetta þótti Jóni Helgasyni kátlegt á sínum tíma og mér raunar líka. Þess vegna spurði ég einu sinni á alþjóðlegu málþingi: „But what about the puppies?“ en man ekki hverju var svarað. Guðrún virðist hafa aðhyllst þá siðfræði Hollywoods (sjá m.a. The Towering Inferno) að dauði gæludýra sé mun sorglegri en dráp fólks.

Stundum er farið álíka illa með þessar eddukvæðahetjur og Indiana Jones sem stöðugt er verið að henda í ormagarð. Hann lifir það raunar alltaf af en það gerir Gunnar Gjúkason ekki, kannski var hann of upptekinn við hljóðfæraslátt og a.m.k. var áheyrendum miðalda ekki alltaf hlíft við dauða hetja sinna. En Gunnar á sannarlega „gotcha“ augnablik kvæðisins þegar hann upplýsir hinn gíruga Atla um að hann einn viti hvar Rínargullið sé geymt eftir að Atli hefur glapist til að taka Högna bróður hans af lífi — en því fylgir mikil speki um að hjörtu hugrakkra manna séu hreyfingarlaus en hjörtu hinna deigu hoppa þá væntanlega um allt eins og hjartað í kvikmyndinni Airplane. Atli er kannski sigurvegarinn í þeim skilningi að standa yfir höfuðsvörðum andstæðinganna en Gunnar á besta „burnið“.

Mikið dálæti hafði höfundur Atlakviðu á orðinu „aringreypur“ sem er troðið inn í kviðuna við öll möguleg og ómöguleg tækifæri; við eigum öll slík orð og þar á meðal ég (eflaust muna pirraðir eftir einhverjum) — fyrir utan að samfélagið allt á til að taka orð upp á sína arma (svo sem „bölmóð“ upp úr 1990). Eins kynnir skáldið til sögu sendiboðann Knéfröð sem er óþekktur úr öðrum heimildum og ég skil ekki enn tilgang hans en sannarlega er hann frekar „skerí“ týpa sem talar með „kaldri röddu“ áður en hann hverfur með öllu úr sögunni. Við getum einungis ímyndað okkur hversu hræðilegur hann var fyrir þá sem sáu meira. Sem er einkenni eddukvæða yfirleitt, fátt sagt en margt látið ímyndun áheyrandans eftir. Það er einkenni góðra bókmennta og ein ástæða þess að lestur er nauðsynlegur.

Previous
Previous

Larkin og arfurinn

Next
Next

Bóhemaástir