Larkin og arfurinn
Philip Larkin (1922-1985) sem er ein helsta menningarstofnun borgarinnar sem í daglegu tali er kennd við ána Hull við fljótið Humru var víst einn helsti aðdáandi Tómasar Hardy sem ljóðskálds og þar sem ég hafði lesið ljóð Hardy á jólaföstu var ekki óeðlilegt að líta næst á Larkin sem er þó öllu frægari, líklega eitt þekktasta ljóðskáld eftirstríðsáranna á Englandi og kunnur m.a. fyrir að vera umhugað um ljóðrænu hversdagsleikans. Hugsanlega var hann áhrifavaldur á Dag móðurbróður minn þó að ég hafi engin gögn rekist á því til stuðnings; raunar er heldur líklegra að sami tíðarandi setji svip sinn á ljóð beggja. Mér kom a.m.k. Dagur í hug þegar ég las ljóð Larkins, „This Be The Verse“ sem hefst svona: They fuck you up, your mum and dad. / They may not mean to, but they do. / They fill you with the faults they had / and add some extra, just for you.“ Hversdagslegt er þetta og gróft hefur f-orðið þótt á sínum tíma en allnokkur broddur sannleikans í því, nógu mikill til þess að enskur dómari mun víst hafa vitnað í þessar ljóðlínur við uppkvaðningu dóms fyrir nokkrum árum. Sjálfur hef ég ekki undan miklu að kvarta frá foreldrum mínum og veit af þeim forréttindum en ei ber hinu að leyna að margt hef ég erft frá þeim og misgott. Ég stend mig æ oftar að því að bregðast við líkt og þau hefðu gert.
Konungabærinn við Hull hefur aldrei þótt fallegur bær né heldur Coventry þar sem Philip Larkin ólst upp og Larkin er frekar drungalegt skáld þó að hann sé á hinn bóginn eitt seinasta skáld á Bretlandseyjum sem höfðaði beinlínis til alþýðu manna en á svipuðum tíma höfðu ljóð líka talsvert meiri áhrif á Íslandi en í nútímanum. Larkin sló í gegn þrítugur með bókinni „The Less Deceived“ og hefur hinn sókratíski titill eflaust haft þar áhrif. Hann aðhylltist þar hið skorinorða ljóð og tekur allskýra afstöðu gegn myndljóðum módernistanna. Að einhverju leyti var hann þar hliðstæður samtíðarmönnum sínum, „hinum reiðu ungu mönnum“ þó að hann virðist iðulega frekar fýldur en beinlínis reiður og vinir hans sögðu síðar að fáir hefðu verið gagnrýnni á ljóð annarra en Larkin. Það sem hann sótti til Hardys var löngunin til að miðla reynslu á skýran og knappan hátt og þess vegna viðurkenndi hann áhrif frá skáldinu þó að almennt teldi Larkin sig vera að gera eitthvað algerlega nýtt og eiga enga undanfara.
Eftir andlátið hefur Larkin iðulega verið gagnrýndur enda skildi hann eftir sig ýmis bréf þar sem hann talar miður fallega um aðra og þar á meðal konur og minnihlutahópa. Þessi viðhorf hans voru nokkuð almenn meðal karlskálda þess tíma en einn helsti pennavinur Larkins var remban Kingsley Amis. Það sérstæða við Larkin var hins vegar hin væðgarlausa viðleitni hans til að tjá alls konar reynslu, eins og m.a. má sjá í ljóðinu „Aubade“ þar sem hann ræðir þann sérstæða ótta sem aðeins ásókn feigðarinnar á miðri andvökunótt skapar: „This is a special way of being afraid / No trick dispels. Religion used to try, / That vast moth-eaten musical brocade / Created to pretend we never die, / And specious stuff that says No rational being / Can fear a thing it will not feel, not seeing / That this is what we fear—no sight, no sound, / No touch or taste or smell, nothing to think with, / Nothing to love or link with, / The anaesthetic from which none come round.“ Larkin er mjög blátt áfram í þessu ljóði en þó skáldlegur eins og hann langaði til að vera. Ég man að á sínum tíma ræddi Skorri mikið um endurnýjun ljóðmálsins hjá skáldum 20. aldar.
Það er hægt að bera virðingu fyrir þessum vilja til að segja það sem skiptir máli á sem einfaldastan hátt en þó ljóðrænan, þó að ekki væri nema vegna þess að það lýsir sannri væntumþykju í garð ljóðsins að telja það geta aðlagast nýjum tímum og gegnt nýju hlutverki. Á hverjum tíma þurfa ljóðskáld að glíma við fyrri kynslóðir sem hafa komið ótal hugsunum í orð en þó er enn eitthvað ósagt sem þarfnast þess að vera tjáð að hætti nýrrar kynslóðar með nýja reynslu. Þetta er úlfakreppan sem skáldið er ævinlega í og fyrir henni fundu skáld eftirstríðsáranna sterkt. Þó að við lifum nú aðra tíma er samt margt hliðstætt og meðal annars þess vegna eiga höfundar af kynslóð Larkins ef til vill greiðari leið til mín en margir aðrir.