Ein átt fyrir Íkarus
Eina andvökunótt í janúar (þær urðu allmargar) var ég sem endranær á skipulagslausu ráfi um netið og villtist inn í myndband sem sýndi þegar hinir fimm meðlimir sveitarinnar One Direction komu allra fyrst fram í X-þættinum þar sem ókrýndur keisari hæfileikakeppnanna Simon Cowell gnæfði yfir framagjörnu ungviði. Líklega eru þessir drengir best heppnaða afkvæmi allra þessara keppna samanlagt þar sem þeir slógu rækilega í gegn með endalausum hitturum um veröld víða og líkt og flestir sem umgangast yngra fólk gat ég ekki leitt þá alveg hjá mér upp úr 2010 þrátt fyrir lítinn áhuga á sjálfri tónlistinni sem lætur mig enn furðu ósnortinn jafnvel eftir að hafa nú horft á heilu bíómyndirnar um bandið á andvökunóttum. En Spotify okkar frænda var eitt sinn hertekið af dúett Zayn Malik ásamt Taylor Swift (mun ekki skrifa um hana hér á síðunni nema ég fái a.m.k. 100 áskoranir!) í Lundúnaferð vorið 2017 og jafnvel gamalmenni geta varla hunsað Harry Styles sem er orðinn kvikmyndastjarna og allt. Í stuttu máli var saga Einnar áttar lengi fyrst og fremst dæmisaga um ótrúlega velgengni og enginn mundi að stjörnur hrapa.
Minna vissi ég um þá Louis Tomlinson, Niall Horan eða Liam Payne þó að ég næði samt að þekkja öll þessi nöfn og andlit þegar frægðarsól þeirra reis hvað hæst. Á sínum tíma en löngu fyrr leiddi ég raunar líka hjá mér tónlist jafnaldra míns (það munar átta dögum) Jason Orange og félaga hans í Take That en festist eitt sinn 10 árum síðar yfir dramatískri heimildarmynd um þá (þar sem meðal annars kom fram að Jason hafði nýtt heilan áratug eftir poppið í að gera nákvæmlega ekki neitt — sem fyllir mig enn öfund) og enn síðar tók ég jafnvel suma tónlistina í sátt. Dramatíkin í skiptum þeirra tökudrengja jafnast þó ekkert á við sorgleg örlög Liam Payne sem varð á örfáum árum einn ríkasti, frægasti og dáðasti maður Englands en kastaði sér samt útúrdópaður og kexruglaður út af svölum á argentínsku hóteli í fyrra og a.m.k. við sem erum ekki fullkomin þegar kemur að hollri hreyfingu eða ávanabindandi neyslu, og deilum jafnvel auk heldur þeim vafasama heiðri með Liam heitnum að hafa fyrst komið fram fyrir alþjóð í sjónvarpi aðeins 16 ára gamlir, hljótum að finna til smá samúðar. Að teknu tilliti til þess að fókus hans í sjónvarpsævintýrinu var ólíkt skýrari og árangurinn eftir því betri.
Það sem festi mig við strákasveitina þessa andvökunótt var einmitt Liam 16 ára með hárgreiðslu frá Zac Efron á Disneyárunum og sú staðreynd að hann stóð sig áberandi best af þessum fimm í sinni fyrstu áheyrn hjá Simon og tók síðan að sér að vera Geri Halliwell og söng alltaf fyrstur eftir að þeim var sópað saman í strákaband. Á tímabili kölluðu hinir hann „pabba“. Gæfa og gjörvileiki, hlaut ég að hugsa enda bæði uppi á 8. áratugnum og stórlesandi Sturlungu. Dramadrottningin Zayn var næstmest áberandi í fyrstu en hinn glaðlegi Louis fékk aldrei að syngja einsöng og Írinn Niall byrjaði vel en fékk síðan lítið að syngja a.m.k. í keppninni og svo er það Harry Styles sem strax verður uppáhaldið hjá stelpunum án þess að þurfa að leggja mikið á sig og færist smám saman í aukana þegar á líður X-keppnina (sem þeir unnu raunar ekki en unnu samt sem er líka staða sem ég tengi við) og ljóst er orðið að hann er vinsælastur.
Í þessum glefsum frá 2010 er Liam alltaf eins og ábyrgur en áhyggjufullur stóribróðir sem er kjölfesta þessarar sjónvarpssköpuðu sveitar. Strax í keppninni verða þessir drengir stórstjörnur hjá unglingsstúlkum sem skræktu alltaf eins og þeir væru sjálfir bítlarnir þannig að stundum heyrðist ekki mælt mál eða söngur. Við tóku fimm ár af fádæma vinsældum áður en Zayn tók Robbie á félaga sína eftir störukeppni og fór sína leið. Sveitin dó skömmu síðar eins og forverarnir eftir fimm ár af fjölmiðla- og samfélagsmiðlageðveiki og sorglega klausturfóbíska tilveru táninganna sem voru nánast eign sveitarinnar og trylltra aðdáenda sinna allan þann tíma, máttu varla sjást utandyra óáreittir og voru þar að auki ofurvinsælir á samfélagsmiðlatímum sem fylltu líf hinna frægu af áður óþekktum tröllskap, en allir hafa drengirnir selt slatta af plötum síðan sem fullorðnir tónlistarmenn, Harry þó sýnu mest en Liam gekk óvænt einna verst að fóta sig. Stressið sem sjá má stafa af honum vart af barnsaldri leiddi hann að eigin sögn í ofneyslu áfengis og vímuefna strax á unglingsárunum og það er eins og allir vita vítahringur, ekki síst fyrir fólk með frammistöðukvíða. Á þessum tíma (t.d. í klukkutíma þætti um sveitina sem ég horfði á eina nóttina) var honum almennt lýst sem hinum skynsama, vitra og heilbrigða meðlimi sveitarinnar, með mestu jarðtenginguna. Sem kann raunar allt að vera rétt því að mikil áfengis- og vímuefnaneysla hendir slíkt fólk líka og eyðir auðvitað að lokum heilbrigðinu, viskunni og skynseminni.
Enn á ég eftir að sjá virkilega góðu heimildarmyndirnar sem hinir fagmannlegu Bretar hljóta núna að gera um þessa fimm misjafnlega hamingjuríku drengi en það situr í mér að Liam var greinilega í upphafi hæfileikaríkasti fimmmenningurinn og hefði samkvæmt því átt að verða skærasta stjarnan þegar sveitin fór verulega á flug en meðal annars vegna hinnar eitruðu menningar í kringum strákahljómsveitir á papparassaöld fór þetta allt á annan veg og í staðinn flaug hann að lokum vængjalaus og brotlenti bókstaflega víðs fjarri Wolverhampton og nú eru hótelþjónagreyin sem létu hann fá dópið fyrir rétti í Argentínu því að skúrkar eru ómissandi í sorgarsögu og varla verður það sjálfur nútíminn og stjörnumenning hans sem tekur það hlutverk að sér.