Enn er búið í Stepford

Olivia Wilde er ágæt leikkona sem nú hefur gerst kvikmyndagerðarmaður og í flugvél á leið til Parísar horfði ég á myndina Don’t Worry Darling úr hennar smiðju en hún leikur sjálf eitt helsta aukahlutverkið. Með aðalhlutverkin fara Florence Pugh og Harry Styles hinn vinsæli poppari sem nú er að reyna fyrir sér í kvikmyndaleik. Hann er ekkert sérstaklega góður leikari en ekki heldur áberandi vondur. Einna helst nýtur hann sín í dansatriði sem sennilega var sett í myndina fyrir hann. Annars er hans hlutverk að ganga um og vera myndarlegur sem hann gerir ágætlega.

Florence Pugh hins vegar er aðalpersónan og er á sviðinu mestallan tímann. Hún leikur upphaflega sátta húsmóður sem býr á 6. áratugnum, veifar hvern morgun á eftir manni sínum farandi í vinnuna á fornbíl, þrífur síðan allan daginn og sinnir öðrum húsmóðurskyldum. Næstu grannar hennar eru aðrar húsmæður og þeirra menn fara í svipuðum bílum í sömu vinnu sem er mjög dularfull. Síðar í myndinni kemur í ljós um hvað það snýst en það reynist frekar antíklímax en hitt og mesta þróunin í áhorfinu er þegar áhorfandinn skilur hversu lítið er undir í sögunni. Leikmyndin er hins vegar ægifögur og hlýtur þó að eiga að vera eins konar paródía um 6. áratuginn.

„Lausn“ myndarinnar er loðin og ótrúverðug, furðuraunsæi Stepfordkvennanna er hrært saman við The Matrix með smá lögg af Rosemary’s Baby. Olivia Wilde hefur góðan smekk eins og sést líka á mörgum vel útfærðum senum í myndinni (einkum þeim þar sem fornbílar koma við sögu) en þar með er ekki sagt að hún geti gert gott listaverk. Veikleika Don’t Worry Darling mætti lýsa með tilvísun í doktorsvarnarkrossbragði eins andmæla sem sagði að sögn: „Það er margt gott og margt nýtt í þessari ritgerð. En það sem er gott er ekki nýtt og það sem er nýtt er ekki gott“. Myndin verður aldrei annað en dauf endurspeglun sinna áhrifamiklu fyrirrennara og þá skiptir litlu máli þótt Florence Pugh sé öflug leikkona; hún er einfaldlega ekki með nógu gott efni í höndum.

Mér finnst vandamál myndarinnar vera skýrt einkenni nútímans. Hún er áferðarfalleg og ádeilan hefur sannarlega verið í tísku í fimmtán ár en í raun er þessi ádeila ekki róttæk heldur fullkomlega endurunnin frá 8. áratugnum og skarpskyggnin heldur minni; stundum er eins og nútímamaðurinn skilji ekki mjög vel hverju hann andæfir og sannarlega er andófið iðulega tiltölulega tengslalaust við raunveruleikann og snýst jafnvel um stíl fremur en raunverulega breytingaþrá. Þrátt fyrir heilmikla gerjun í femínismanum seinustu áratugi hefur jafnvel slík ádeila fátt nýtt að segja sem ekki hafði áður komið fram. Ekki vegna þess að hárbeitt og nýstárleg ádeila sé ómöguleg (hin frábæra Women Talking afsannar það) en hún kallar á hugsun og sanna róttækni af því tagi sem er sjaldgæf á samfélagsmiðlum og öðrum miðlum sem þá elta.

Previous
Previous

Útgáfa Hins íslenska bókmenntafélags í ár, seinni hluti

Next
Next

Skírnir er kominn út