Útgáfa Hins íslenska bókmenntafélags í ár, seinni hluti

Við hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi erum stolt af útgáfunni í ár sem einkennist ekki af flugeldasýningum heldur látlausum en mikilvægum fræðibókum um efni sem full þörf er á að veita athygli þó að það hafi ekki alltaf verið gert. Það á við um tímamótaverk Sveins Einarssonar, Leikmenntir, en Sveinn er ótvírætt einn af fremstu leikhúsmönnum seinustu áratuga og þessi bók á ekki sinn líka vegna þess að hér ræðir hann sjálfa leiksýninguna, það efni sem hann þekkir flestum betur en engar fræðibækur hafa verið skrifaðar um á íslensku þó að margt stórvel unnið efni sé til um leiklistarsöguna, m.a. eftir Svein sjálfan. Eitt af því sem einkennir Svein er að hann skrifar fræðiverk sín samkvæmt þeirri hugsjón að þau eigi að ná til allra og þess vegna er Leikmenntir aðgengileg bók á sinn hátt um efni sem er í eðli sínu flókið og heimspekilegt.

Annað merkilegt rit ársins er útgáfa á sálmabókum 16. aldar í tveimur bindum en þær eru kenndar við biskupana Martein Einarsson, Gísla Jónsson og Guðbrand Þorláksson. Ég öfunda ungt bókmenntaáhugafólk mjög af því að geta eignast þessi rit sem ég hef þekkt af afspurn síðan um tvítugt og afar eftirminnilegt var að læra um, ekki vegna þess að sálmarnir hafi allir þótt góðir og síst af öllum þeir sem Gísli setti á prent. Þessi er einna alræmdastur:

Glaðliga viljum vér alleluja syngja,
með kærligheitsins begering.
Vort hop og hjarta til Guðs skal lyftast
með sinni helgri náð og miskunn,
sem hefur leyst oss af allri synd
til saligheits og alls kyns treyst
er hann oss öllum upp runninn.

Þekking á íslenskum skáldskap má ekki aðeins verða þekking á því besta sem ort hefur verið. Enginn getur kallað sig bókmenntatöffara nema að kynna sér þessar sálmabækur en hinar tvær hafa löngum þótt mun fremri og Guðbrands best.

Ég er svo forn að ég man bóndabæi í Laugardalnum þegar ég ólst upp þar í grennd og ekki eingöngu vegna áramótaskaupsins þar sem Eyjólfur og Magnús Laufdal birtust í fyrsta sinn. Ómissandi þáttur í sögu höfuðborgarinnar er að þar hefur verið stundaður fjárbúskapur allt til þessa dags og sú saga er rakin af Ólafi Dýrmundssyni í riti um sauðfjárbúskap í Reykjavík sem Hið íslenska bókmenntafélag gefur út í ár.

Ónefndir eru stærstu höfundar sem Bókmenntafélagið gefur út í ár en það eru þeir Friedrich Nietzsche og G.W.F. Hegel. Þýdd verk þeirra koma út í ritröðinni Lærdómsrit Bókmenntafélagsins sem á sér nú ríflega hálfrar aldar sögu en sækir innblástur sinn í upphaf félagsins á 19. öld. Auk heldur kemur út ritið Saga gensins eftir Evelyn Fox Keller sem mér virtist lítt þekkt á Íslandi þegar hún andaðist nú í september án þess að þess væri víða getið hérlendis. Þessu hyggst Hið íslenska bókmenntafélag breyta. Hver veit nema ég ræði Keller frekar þegar ég hef lokið við að lesa bókina.

Previous
Previous

Söguheimar

Next
Next

Enn er búið í Stepford