Söguheimar

Í ár koma út tvær skáldsögur eftir mig, Ófreskjan og Prestsetrið. Báðar geta staðið sér en eru þó hluti af stærra verki. Prestsetrið er sjötta bókin í ritröð um starfsmenn lögreglunnar Kristínu, Bjarna, Margréti, Njál og Martein. Þau koma þó minna við sögu en stundum áður fyrir utan Kristínu en á hinn bóginn er brugðið upp mynd af íslenskri sveit þar sem nokkur hús standa saman, ekki nógu mörg til að heita kauptún. Staðurinn er prestsetur og það skiptir líka máli þegar fengist er við gott og illt eins og stundum í svona sögum en þess má líka geta að menningarhlutverk prestsetra hefur breyst mikið seinustu áratugina og Prestsetrið endurspeglar því nýjan veruleika þar sem slík setur hafa annað gildi en áður. Persónur sögunnar eru fjölbreyttar og líklega er gengið nær þeim en áður í þessum sögum. Ófreskjan er hins vegar þriðja bókin af fjórum í bókaflokknum Álfheimar sem ég hugsa sjálfur um sem eina bók í fjórum hlutum (fyrri skáld gáfu bækur sínar iðulega út í nokkrum pörtum, Halldór Laxness meðal annars). Í þessum fjórum hlutum er hins vegar skipt um sjónarhorn og eins og sjá má á kápunni einnig um frumefni, dýr og vopn. Aðallega er þetta þó djúprannsókn á 19. aldar álfatrú Íslendinga.

Skáldsagnaheimar eru eðli málsins samkvæmt tilbúnir af höfundinum sem reynir að skilja heiminn eða líf sitt eða aðeins örlitla ögn af öðru hvoru með því að búa smástund í öðrum heimi. Ég hef unað mér vel í báðum þessum sagnaheimum með sögupersónunum og vona auðvitað að einhverjum lesendum sé eins farið þó að eðli málsins samkvæmt heyri ég í fæstum þeirra og að þessir sagnaheimar verði alltaf hluti af því sem þeir vita og muna. Sjálfur tel ég gildi bókar ekki liggi í því hversu vel hún selst eða hvort hún fær verðlaun og ekki einu sinni hvort hún sé gripandi heldur fyrst og fremst hvort hún sé eftirminnileg og finni sér farveg inn á mikilvæg svæði í huga lesandans. Á næsta ári kemur út fjórða sagan um Álfheima og er þegar til í fyrstu drögum. Ekki kemur út ný saga um Kristínu og vinnufélaga hennar þó að hugsanlega snúi þau aftur síðar. Mín ósk handa þessum afkvæmum er að þau eigi sér þó sem lengst framhaldslíf með þeim sem lesa.

Previous
Previous

Leikföng og hið háleita

Next
Next

Útgáfa Hins íslenska bókmenntafélags í ár, seinni hluti