Leikföng og hið háleita

Nýlega skrapp ég á Kiev-ballettinn þegar hann kom í Hörpu og flutti Hnotubrjótinn. Mér skilst að hægt hafi verið að fá sæti fram á seinustu mínútu og er hissa á því. Eins er ég fremur hissa á áhorfendum sem voru með símana á lofti allan tímann, klöppuðu endalaust milli atriða og stundum í miðju atriði og skræktu ógurlega eins og vábeiður. Sem betur fer hef ég þá gáfu að geta einbeitt mér nánast hvar sem er og gat því útilokað þetta áreiti og notið hins háleita innan um hið lágkúrulega. Ég hef aldrei áður séð þennan magnaða ballet á sviði, aðeins í sjónvarpinu og svo þekki ég auðvitað tónlistina mætavel þar sem rómantískar sálir mín og Tsjækovskí náðu mjög saman á unglingsárunum og ég hef aldrei hætt alveg að vera unglingur.

Ballet er ég ekki sérfróður um fremur en fimleika en þó vottar fyrir áhuga á hvorutveggja og þó að ég þekki ekki stöðu Kiev-balletsins nú um stundir eru hér augljóslega fagmenn á ferð og það var léttleiki yfir öllu sem þau gerðu sem fellur vel að jólaandanum. Mýsnar voru skemmtilega „krípí“ eins og æskan segði og danssýningin í seinni þættinum stóð alveg undir væntingum, ekki síst rússneski trepak-dansinn og arabíski dansinn. Snjókornakórinn söng mjög fallega og mér sýndist áhorfendur vera í góðu skapi í hléi og í lokin.

Endalok sýningarinnar voru falleg þegar allt reynist hafa verið draumur og Klara sækir leikfangið sitt sem var innblástur að öllu saman. Í þessu verki skiptir söguþráðurinn ekki öllu máli heldur tónlistin og dansinn sem lyftir okkur áhorfendum yfir veruleikann á þann „transcendental“ hátt sem 19. aldar listamenn dreymdi um og færir áhorfendum rómantíska undrið sem okkur veitir ekki af í skammdeginu fyrir jólin.

Previous
Previous

Martraðamyndlist Murnaus

Next
Next

Söguheimar