Martraðamyndlist Murnaus

Thomas Hutter er sendur í örlagaríka ferð að selja Orlok greifa hús og er í fyrstu allsendis óhræddur við greifann og hlær jafnvel tryllingslega að hjátrú heimamanna en að lokum veldur hinn afar ófrýnilegi greifi honum ógn og skelfingu enda er útlit hans martraðarkennt og sérstaklega þegar hann birtist um nóttina í dyrunum hjá Hutter sem felur sig undir rúminu. En áhugi hans beinist þó ekki lengur að Hutter heldur konu hans Ellen. Þetta er fléttan í þýsku kvikmyndinni Nosferatu (1922) sem talin er meðal gimsteina expressíónískra þögulla þýskra mynda þó að raunar sé hún natúralísk fyrir utan greifann hræðilega sem er þannig á skjön við umhverfið og ég hef nýlega séð í sjónvarpinu (en hún krefst eiginlega myrkvaðs kvikmyndasalar). Myndin varð raunar svo fræg að leikstjóranum Murnau var boðið að koma til Hollywood þar sem hann vann óskarsverðlaun í fyrsta sinn sem þau voru veitt árið 1928 (fyrir Sunrise: A Song of Two Humans) og fræg er einnig kvikmynd Murnaus um Faust sem ég á enn óséna. Ég er rétt byrjaður að kynna mér verk þessara mikla meistara en sannarlega hefur myndvísi hans orðið áhrifarík og kemur fram í nánast hverju skoti. Hann var maður þöglu myndanna og myndin er útpæld eins og málverk gömlu meistaranna.

Það var ekkert leyndarmál að Nosferatu er byggð á skáldsögu Brams Stoker Drakúla þó að nafninu sé breytt. Erfingjar Stokers voru alls ekki ánægðir og fóru í mál. Breytingin var kannski ekki aðeins gerð vegna höfundarréttarlaga heldur staðfærsla til að færa söguna hinum þýsku áhorfendum. Í kvikmyndinni er annað skrímsli, herr Knock sem er byggður á Renfield í sögu Stokers en fær hlutverk sem minnir meira á Straker í Salem’s Lot en sjónvarpsgerð þeirrar ágætu skáldsögu kom út sama ár og endurgerð Werners Herzog á snilldarverki Murnaus og er sú sjónvarpsmynd líka greinilega undir talsverðum áhrifum frá Nosferatu, ekki síst myndrænum. En raunar er talsverður texti á spjöldum milli atriða í myndinni líka og allur þjóðsagnaættar en þó hlaðinn helgisagnastíl því að römm tengsl eru á milli þessara frásagnartegunda. Hlaðni textinn eykur óhugnaðinn í myndinni sem einnig kemur fram í áköfum svipbrigðaleik þeirra sem eru andspænis óvættinni en auk heldur eru ljós og skuggar notaðir af snilld til að skapa stemmingu.

Friedrich Wilhelm Murnau flutti síðar til Kaliforníu en átti skamma dvöl þar því að hann lést í hræðilegu bílslysi árið 1931, aðeins 42 ára að aldri. Þó að list hans sé mun áhugaverðari en einkalífið má segja að líf og list mætist í þekktum ljósmyndum hans af kornunga leikaranum David Rollins (1907-1997) sem þótti einhver fallegasti maður í Hollwyood milli 1927 og 1932 en síðan varð lítið úr frama hans og hann gerðist að lokum lárperubóndi. Rollins var þögull um einkalíf sitt þótt hann viki aðeins að því á efri árum og gaf lítið út á samband þeirra Murnau. Drengurinn lék ekki aðalhlutverk í neinni af þeim fjórum kvikmyndum sem Murnau náði að gera í Hollywood en mun þó sjást í einni þeirra. Þegar myndir Murnaus af honum skutu upp kollinum tókst leikstjóranum þó að lokum að gera Rollins frægan. Þær eru óður til lýtalausrar en ögn skelmislegrar fyrirsætunnar, hins eilífa stráks, haganlega rammaðar í bjarta ofgnótt Kaliforníu.

Hugsanlega er vampíra Murnau tákn annarleikakenndarinnar sem hans eigið eðlilega líf vakti hjá öðrum og skýrir hvers vegna sláandi expressíónísk túlkun greifans er látin rjúfa natúralisma myndarinnar. Þó að einhverjum hafi sýnst útlit Orloks undir andgyðinglegum áhrifum er það fremur ólíklegt miðað við fjölda gyðingavina Murnaus (m.a. Alexander Granach sem lék í Nosferatu) heldur mun hann hafa ætlað að láta Orlok minna á rottu og önnur nagdýr. Áhrifin frá óttanum við nýliðna spænsku veikina eru einnig greinileg, dularfullar farsóttir breiðast út vegna vampírunnar sem líkt og í sögunni kemst yfir hafið með skipi þar sem flestir láta lífið. Kominn til Þýskalands á frú Hutter hug óvættarinnar allan og fræg eru skot Murnaus af skugga ófreskjunnar á leið upp stigann til hennar; þau voru ekki í handritinu heldur eins og sýn sem virðist hafa komið yfir leikstjórann í lokin. Eftir þetta fræga skot verður lausnin leiðinlega hröð, gæska konunnar sigrar skrímslið sem leysist upp í reyk en eftir stendur skelfileg ímynd þess.

Previous
Previous

Byatt látin

Next
Next

Leikföng og hið háleita