Byatt látin
Skáldkonan A.S. Byatt lést í nóvember, 87 ára gömul. Höfundarnafn hennar er kynlutlaust í góðu samræmi við enska hefð (allir þekkja J.K. Rowling, C.S. Lewis og H.G. Wells) en hún hét Antonia Susan, fædd Drabble en notaði það nafn ekki enda sat systir hennar Margaret að því. Byatt var fyrri maður hennar en mun lengur hefur hún verið gift manni að nafni Duffy. Byatt samdi tíu skáldsögur og ég mun hafa lesið fimm þeirra. Margar fjalla um fjölskyldu og sársaukafull innileg samskipti, fræðistörf koma við sögu á póstmódernískan hátt og samband hins persónulega og heimspekilega líkt og hjá Iris Murdoch. Upp úr fimmtugu jókst hróður hennar mjög og viðurkenningarnar urðu þá svo margar að ég kann varla að nefna þær. Mér skilst að hún hafi komið til Íslands upp úr 1990 og heillast mjög af landinu sem hún tileinkaði þessa sögu.
Systirin Margaret Drabble nýtti sér líka eigin ævi í skrifum sínum og var lengi titringur milli systranna. Að sögn lásu þær ekki bækur hvorrar annarra en hvorug vildi þó fallast á að fæð væri á milli þeirra. Margaret sendi frá sér fimm bækur á þrítugsaldri, var gift kunnum leikara og var lengi mjög áberandi í Englandi þegar fæstir þekktu A.S. en svo snerist það að einhverju leyti við upp úr fimmtugu. Ég hef ekki lesið nema tvær bækur eftir Margaret og hvorug heillaði mig en það þarf ekki að vera henni til hnjóðs. Bækur A.S. orkuðu aftur á móti sterkt á mig á sínum tíma en ég hef samt mjög óljósar minningar um þær og hef ekki lesið þær aftur en hún er höfundur af því tagi sem þarf að lesa oft til að ná fullum skilningi þannig að nú hef ég heitið því að byrja að lesa hana upp á nýtt og þið getið tekið þátt í því með mér með því að lesa „A Stone Woman“ sem ég vísaði í hér að ofan.
Sú saga er að mörgu leyti dæmigerð fyrir Byatt. Bæði er hún afar heimspekileg en líka myndauðug og írónísk. Náin tengsl manneskja eru til umræðu en einnig tengsl manns og náttúru. Steinarnir skipta máli sem slíkir en líka sem myndhvörf um sorg og aðrar tilfinningar sem missirinn kallar fram. Í stuttu máli óvæntar og myndríkar bókmenntir með þungum hljómbotni.