Hin félagslega kransakaka

Þegar ég sá danska sjónvarpsþáttinn Matador fyrst á 9. áratugnum þekkti ég fyrir allar persónurnar og leikarana eftir lestur dönsku blaðanna sem komu á heimilið í hverri viku um 1980 og ég lærði framhaldsdönsku á þeim þegar þau bættust við Andrésblöðin sem voru vitaskuld aðeins á dönsku fram á táningsár mín. Þátturinn var síðan sýndur tvisvar á menntaskólaárunum og í bæði skiptin var fjölskyldan sameinuð að horfa, svaraði ekki símanum (þessum eina á heimilinu) og ræddi allt sem var að gerast. Löngu seinna horfðum við fjögur í fjölskyldunni eins og hún var þá saman á þættina og nú seinustu ár hef ég tekið Matadormánuði ásamt vinkonu minni, einn slíkan í nóvember sem var þó sorglegur því að nú er höfundurinn Lise Nørgaard látin, að vísu 105 ára þegar hún kvaddi þennan heim í ársbyrjun. Eins og ég nefndi í fyrri grein um hana var Lise mikill feministi og hafði sterka tilfinningu fyrir núönsum samfélagsstöðu, var eiginlega helsti bourdieu-isti Danmerkur. Það eru engar hugljúfar lygar í verkum hennar og þó að Matador sé auðvitað ekki jafn róttækt núna og fyrir 45 árum var í því hvöss ádeila en lýsandi fremur en boðandi.

Fyrir utan fyndið orðalag í hverjum einasta þætti (lýsingar á fyrri þáttum í upphafi hvers eru svo fyndnar að ég sleppi þeim aldrei) eru persónurnar álíka raunverulegar og í Íslendingasögunum þannig að það er hægt að velta fyrir sér lífi þeirra endalaust ef aðstæður hefðu verið ólíkar og hvert ár hef ég augun sérstaklega á nýjum og nýjum persónum sem eru aðeins kynntar að hálfu leyti þannig að heilmikið í sögu þeirra stendur eftir fyrir áhorfendur að ímynda sér. Söguheimagerð hefur sjaldan náð svo hátt og eflaust nýtur þátturinn þess að vera í raun saminn um Roskilde fyrir stríð og Lise getur líkt og höfundur Sturlungu skilið margt eftir ósagt sem hún veit þó sjálf. Þó að það blasi við að persónurnar eru eins og framhlið húss án bakhliðar og eiga sér ekkert líf utan þáttanna trúir maður því ekki og finnst þær vera til í raun og veru. Sjónvarpsþættirnir minna líka á skáldsögu að því leyti að þegar við höfum náð að kynnast persónum rækilega fáum við í lokin að endurmeta þær siðferðislega og sem manneskjur en um leið samfélagið allt. Í fyrsta þættinum er þannig farið með stutt ljóð en full merking þess kemur ekki fram fyrr en í þætti 24.

Í Matador eru konur ekki síður áberandi en karlar og eins og ég hef sjálfur reynt leiðir það iðulega til þess að sögur séu ekki teknar alvarlega. Eins gerir húmorinn það að verkum að hægt er að segja ansi myrkar sögur, t.d. um kynferðisofbeldismanninn Andersen kennara sem er eins og ljón á gresjunum að leita eftir gasellum að veiða. Þó að í ljós komi að lokum að hann sækist líka eftir kynlífi virðist hann einkum vera á höttunum eftir húsþræl til að strauja skyrturnar sínar og gefa honum mat fyrir matvanda (ekkert kjötfars). Þá er grimmdarlega farið með margar persónur sögunnar, t.d. þegar hinn snobbaði hr. Schwann er féflettur af atvinnuveitanda sínum eða hin gáfaða og góðgjarna Elisabeth Friis er fengin til að njósna óvitandi um kærasta sinn. Í þáttunum er ein persóna sem hneigist bæði til kvenna og karla en á það er aldrei minnst þó að það blasi við, aðeins þann vanda að kona vilji ekki vera húsmóðir. Mjög margir söguþræðir snúast um ósanngjarnar kröfur samfélagsins til kvenna og þjónustufólks. Sumir brotna undan kröfunum, aðrir virðast sterkari og glata engu nema sál sinni. Einstaka persóna þroskast og sérstaklega hin taugaveiklaða Maude sem finnur sinn styrk á stundu neyðar.

Fyrir utan stílinn og umfjöllunarefnin gefur mikil ást á smáatriðum þáttunum gildi. Eiginmaður skilur ekki að það er hermdargjöf að gefa eiginkonunni pels sem er alveg eins og önnur kona á. Broddborgarar bæjarins halda að þeir séu boðnir í fína veislu sem reynist vera fundur og sandkaka á boðstólnum. Gömul kristin frænka flettir listaverkabók með myndum af nöktu fólki eins og hún sé póstur með miltisbrandi. Hún fer með andstyggilega setningu sem er löngu síðar endurtekin af annarri persónu í öðru samhengi og skilin eftir hjá okkur áhorfendum að hugleiða. Eins skilur þátturinn okkur á endanum eftir með spurninguna um hvort sá sem á endanum vann leikinn og fékk allt sé ef til vill líka sá sem glataði öllu sem máli skiptir.

Previous
Previous

Of lítið ort um slíka menn

Next
Next

Byatt látin