Of lítið ort um slíka menn

Nýlega rak á fjörur mínar ljóðabók Jökuls Gíslasonar sem kom út í ár hjá Sæmundi. Jökull er rannsóknalögreglumaður og er það sjaldgæft starf ljóðskálds, bæði á Íslandi og um heim allan. Sum ykkar muna kannski að enska skáldkonan P.D. James samdi nokkrar glæpasögur um rannsóknarlögreglumann sem var jafnframt ljóðskáld. Ég man ekki til þess að ljóð hans hafi birst í bókinni og get því ekki borið þá saman en Jökull er sannarlega áhugaverð viðbót við íslenskan ljóðaheim. Á kápunni kemur fram að hér sé ort um miðaldra karlmann sem hafi það ansi gott og bætt við: „Það er of lítið ort um slíka menn“ sem er skemmtilega ögrandi fullyrðing og viðbótargjörningur kemur fram í heiti ljóðabókarinnar.

Eins og sjá má er þetta 18. aldar titill að lengd og í raun og veru eitt ljóðanna. Þau reynast vera misjöfn að efni og aðferð, mörg setja fram áhugaverð sjónarmið með kímni en önnur eru háalvarleg. Lögreglustarfið mótar bókina talsvert, þessi stétt manna sér ýmsar hliðar samfélagsins sem mörg okkar hinna sleppa við að sjá og það sést víða óbeint í bókinni. Henni virðist líka að einhverju leyti stefnt gegn hrungremjunni og þeim kvartana- og kveinstafaanda sem er áberandi í fjölmiðlum en e.t.v. aðeins minna í samfélaginu sjálfu þó að auðvitað verði það fyrir áhrifum frá því sem það les. Samfélagsmiðlarnir fá líka skemmtilega á baukinn, t.d. í nettu og einföldu ljóði með sterkri biblíutilvísun.

Þó að höfundur sé ekki beinlínis að yrkja trúarljóð býr nokkuð af hinum kristna anda í honum, einkum sá sem snýr að því að hreykja sér ekki of hátt, þakka fyrir það sem fengist hefur og dæma ekki náungann of hart. Stundum er vikið að samskiptum kynjanna í anda sem er eins og glettin útgáfa af nýjum maskúlinistahreyfingum en írónían aldrei fjarri, eins og hér má sjá.

Þegar ég sat fyrir nokkrum árum í dómnefnd Maístjörnunnar og las allar ljóðabækur liðins árs var helsta tilfinning mín sú að íslensk ljóðagerð væri afar fjölbreytt og skemmtilegri en maður heldur. Með þessari bók er hún orðin enn fjölbreyttari og maður leyfir sér að vona að glettin og óttalaus tilraunastarfsemi Jökuls haldi áfram.

Previous
Previous

Ljótu munkarnir

Next
Next

Hin félagslega kransakaka