Ljótu munkarnir

Ég hafði enn ekki lesið skáldsögu Umberto Eco, Nafn rósarinnar (1980), þegar ég fór í Háskólabíó jólin 1986 ásamt pabba og bróður mínum að sjá bíómyndina eftir sögunni með Sean Connery í aðalhlutverki og Christian Slater sem varð frægur leikari á þessari mynd. Myndin var hluti af endurreisn Connerys upp úr 1985 og ég man að manni fannst hún mögnuð þó að í henni sé mörgu úr sögunni breytt til hins verra og öðru einfaldlega sleppt, t.d. mestallri táknfræðinni og heimspekinni. Það sem eftir stendur er sýn á miðaldir sem er mjög í anda Hrafns Gunnlaugssonar, mikill fjöldi afar ljótra leikara sem týna tölunni á fremur ógeðslegan hátt. Samt er myndin mjög góð afþreying og ég horfði því aftur um daginn þegar ég rakst á hana.

Eins og þið munið kannski er sérstaða Fransiskana og gagnrýni þeirra á auðsöfnun kirkjunnar mjög til umræðu bæði í bók og mynd. Annað þema er bók Aristótelesar um hláturinn sem hinn illi Jorge frá Burgos (sem sækir nafn sitt augljóslega til eins frægasta rithöfundar 20. aldar) vill fela fyrir ungviðinu. Þessi þemu lifa af í myndinni og auk þess illur rannsóknardómari sem er algjör klisja og deyr í mynd en ekki í bók. Þar að auki var í myndinni frekar opinskátt kynlífsatriði sem mér fannst bæði áhugavert og vandræðalegt 16 ára gömlum en sem betur fer vorum við í myrkvuðum bíósal en ekki heima. Stúlkunni úr því atriði (í myndinni er aðeins kona og hlutverk hennar snýst um kynmök) er bjargað frá bálinu í myndinni en í bókinni skipta örlög hennar engu sérstöku máli. Setning um að hann hafi ekki einu sinni þekkt nafn þessarar „fyrstu ástar“ (sem er auðvitað engin ást því að þau þekkjast ekki) er flutt aftast í myndina og fær þannig heldur veigameiri sess en í bókinni sem snýst meira um heimspeki en hold.

Eitt af því sem eldist kannski ekki mjög vel í mynd umfram bók er afstyrmið Berengar (sjá að neðan) sem girnist aðra karlmenn og er því eiginlega skrímsli eins og þótti afar eðlilegt í meginstraumsafþreyingu á þessum tíma. Aðrir ólánlegir munkar í klaustrinu eru fyrst og fremst ófríðir og allir því mjög grunsamlegir í glæpafléttunni sem verður heldur þungvægari í mynd en í bók. Hún hefur heilmikið afþreyingargildi og ráðgátan snýst að lokum um háfleyga hluti sem kannski fóru fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum áhorfendum.

Vegna þess að ég las ekki bókina fyrr en löngu síðar man ég ekki lengur hvort mér fannst hún jafn klisjukennd og myndin er óneitanlega þótt heillandi sé. Þarna er ekki beinlínis verið að deila á neitt sem aðrir voru ekki búnir að afhjúpa áður, spænski rannsóknarrétturinn er álíka óvæntur andstæðingur og nasistar og jafnvel ádeilan á kirkjuna virðist ívið léttvægari í ljósi þess að Eco er ekki einu sinni að leggja til atlögu við landa sinn drottinn Rómar heldur frönsku páfana í Avignon.

Previous
Previous

Sandauðn tveggja alda

Next
Next

Of lítið ort um slíka menn