Sandauðn tveggja alda

Nýlega sá ég í fyrsta sinn þriggja tíma útgáfu á Dune David Lynch frá 1984 sem ég nennti ekki að sjá í bíó með pabba á sínum tíma, er ekki viss um að þessi lengri útgáfa hafi beinlínis verið sýnd en var ekki heldur mikið fyrir fantasíur á unglingsárunum. Las ekki bókina fyrr en um tvítugt og eiginlega er það fyrst núna sem ég hef náð sambandi við þessi fantasíugen. Síðan sá ég sjónvarpsþættina um aldamótin síðustu og styttri gerð af Lynch-myndinni fyrir nokkrum árum en núna horfir maður óhjákvæmilega á hana í ljósi nýju myndarinnar eftir Villeneuve frá 2021. Ég leit á netsíður sem bera myndirnar saman en fátt er á flestum þeirra að græða. Mynd Villeneuve segir aðeins hálfa sögu þannig að augljóslega vantar í hana persónur sem heyra til seinni helmingi sögunnar og vonandi telst ekki lengur til tíðinda að leikarar séu af mörgum kynþáttum. En það er líka afgerandi mismunur á myndunum tveimur sem tengist uppbyggingu, útliti og persónusköpun.

Litirnir í myndunum tveimur eru gjörólíkir en endurspegla tíðarandann í báðum tilvikum. Í Lynch-myndinni er mikil litagleði sem einkenndi fermingarár minnar kynslóðar og litir iðulega æpandi, t.d. græni liturinn hér að ofan. Harkonnen-ættin er öll rauðhærð og gamli baróninn afskræmdur af kýlum árið 1984, jafn ófrýnilegur og hann er illur. Árið 2021 er hann aftur á móti á litinn eins og grjótveggur og skapgerðin álíka. Eins má sjá Atreides-fjölskylduna hér að neðan í gylltu umhverfi. Þó að aðsókn að Dune hafi valdið vonbrigðum árið 1984 var það ekki vegna metnaðarleysis. Hún var afar myndræn og glæsileg en samt finnst mér meiri hugsun í myndrænunni hjá Villeneuve þar sem sjónarhornið er hjá dvergvöxnu mannfólki sem er drekkt af risageimförum og byggingum. Sú myndræna útfærsla leiðir að öðrum mikilvægum mun á myndunum sem snýst um sjónarhornið.

David Lynch hafði greinilega miklar áhyggjur af því að áhorfendur skildu ekki fléttuna og því er hún útskýrð rækilega af sögumanni í byrjun og við fáum strax að sjá keisarann sjálfan og kynnumst leikfléttum hans. Síðan birtist sögumaður reglulega og segir okkur hvað sé að gerast milli þess sem við heyrum hugsanir persóna. Þannig er áhorfandinn hafinn yfir viðburðina og einungis eftir að hafa fengið þessa víðu sýn í byrjun fær hann að sjá aðalpersónurnar sem fyrir vikið eru eins og dúkkur á sviði. Í Villeneuve-myndinni vantar allar slíkar skýringar en samt er hún í raun skiljanlegri vegna þess að fróðleiknum er einfaldlega sleppt, við erum stödd hjá peðunum í valdataflinu og vitum jafn lítið og þau. Eins er lítið unnið með að heyra allar hugsanir, kannski ívið meiri skilningur á fléttunni en það virkar líklega betur að hann sé takmarkaður þó að heimurinn með öllum flækjum hans komist ekki jafn rækilega til skila.

Í myndinni frá 1984 er valinn leikari í hverju rúmi (s.s. Patrick Stewart, Dean Stockwell, Max von Sydow, Francisca Annis, José Ferrer, Linda Hunt og auðvitað Sting sem gerir lítið fyrir sína persónu) og margir þeirra ívið eftirminnilegri en í myndinni frá 2021. Þegar kemur að aðalhlutverkunum, Paul og Jessicu hefur 2021-myndin aftur á móti vinninginn. Kyle MacLachlan var síðar eftirminnilegur í Tvídröngum en er ekki trúverðugur sem kwisatz haderach eða Messías þessa heims. Það er aftur á móti Timothée Chalamet, Greta Garbo nútímans sem þarf ekki að segja margt til að myndavélin elski hann, þó að hann leiki Paul sem ungling fremur en ungan mann eða kannski einmitt þess vegna. Þá fær Jessica miklu meira rými í mynd Villeneuve en hjá Lynch og myndin nýtur þess. Við vitum aftur á móti ekki enn hvað Villeneuve gerir við seinni hlutann.

Að lokum er tónlistin gerólík í myndunum tveimur, annars vegar rokk í anda Queen og annarra stórhljómsveita 9. áratugarins en hins vegar tölvutónlist Hans Zimmer í öllum sínum þunga. Í stuttu máli eru Dune-myndirnar tvær dæmi um gerólíkar aðferðir til að segja sögu, bæði hvað varðar áferð og litagleði en ekki síður vegna sjónarhorns. Það er ómögulegt að velja aðra þeirra fram yfir hina, a.m.k. ef miðað er við þriggja tíma myndina frá 1984 sem er ólíkt betri en stytta útgáfan, aðferðir Lynch og Villeneuve eru einfaldlega svo ólíkar og ætlun höfundanna að sama skapi ekki sú sama.

Previous
Previous

Ég kynni mér leiksigur pabba

Next
Next

Ljótu munkarnir