Ég kynni mér leiksigur pabba

Árið 1955 vann faðir minn leiksigur í Þorláki þreytta á Siglufirði og var þetta ein af mörgum siglfirskum bernskugoðsögnum á mínu heimili enda var stundum engu líkara en allir Siglfirðingar væru ein stór fjölskylda. Pabbi lék Þorlák sjálfan sem tók að sér þjónshlutverk sem hluta af farsakenndri atburðarás og ég á heima mynd af pabba í þjónshlutverkinu sem einhver gaf honum. Þessi sýning virðist hafa viðburður á Siglufirði, e.t.v. ekki ósvipað spurningakeppni framhaldsskólanna á landinu öllu síðar.

Leikritið virðist hafa verið fyrst sýnt á Íslandi árið 1937 og það var vinsælt næstu áratugi en sést enn á áhugaleiksýningum. Seinast frétti ég af því á Herranótt MR vorið 1999. Fyrstur til að fara með hlutverk Þorláks á Íslandi var Haraldur Á. Sigurðsson en frændi minn Emil Thoroddsen þýddi og staðfærði leikritið sem var upphaflega þýskt og hét Der müde Theodor, frumsýnt árið 1913 en höfundarnir voru Max Neal (1881–1940) og Max Ferner (1865–1941), báðir frá Bæjaralandi. Leikritið varð vinsælt víða um lönd í fimmtíu ár en mun nokkurn veginn gleymt núna enda eldist húmor iðulega hratt þó að stundum snúi hann síðan aftur.

Árið 1957, tveimur árum eftir leiksigur pabba á Siglufirði, var gerð vinsæl þýsk kvikmynd með gamanleikaranum Heinz Ernhardt (1909–1979) en líka eru til kvikmyndir eftir leikritinu frá 1979 og 1995 og margar eldri. Einnig var gerð sænsk kvikmynd sem hét Trötte Teodor og frönsk mynd sem heitir Service de nuit. Ég hef aldrei orðið svo frægur að sjá leikritið eða neina bíómynd eftir því og var farinn að sakna þess að þekkja ekki leikritið sem pabbi sló í gegn í þannig að ég ákvað nýlega að reyna mig við myndina frá 1957 sem ég fann á Youtube. Enginn texti fylgdi en ég á að heita stúdent í þýsku og skildi hana dável.

Kátleg tónlistin í upphafi segir manni strax að þetta sé skopleikur og þessi spaugilega tónlist heldur áfram alla myndina, einkum þegar aðalpersónan læðupokast. Enn fremur tala flestar aukapersónur með fyndinni röddu. Theodor (Þorlákur) er dæmigerð andhetja, þéttur listunnandi undir hæl konu sinnar sem er andsnúin listamönnum en dóttirin vill einmitt trúlofast einum slíkum. Þegar konan fer í ferðalag dulbýr Theodor sig sem þjón á hótelinu Svarta erninum til að afla fjár eftir að hafa eytt fjármunum sínum í ljóðabækur og fátæka tónlistarkonu af eintómri ást á listinni. Hann vinnur á næturvöktum á hótelinu og er því afar þreyttur á daginn sem skýrir auknefnið. Þannig eru andstæður leiksins listin og auðmagnið og áhorfendum greinilega ætlað að standa með listinni en síðan er auðvitað flókin farsakennd atburðarás þar sem sönnunargögn um tvöfeldni Theodors fara á flakk og hætt er við að konan komist að öllu saman. Að lokum fer allt vel og öll pör ná sáttum. Ekki er þetta beint minn húmor en góður siglfirskur leikhópur hefur eflaust gert sitt fyrir verkið.

Previous
Previous

Að tjá sig með byssukúlum

Next
Next

Sandauðn tveggja alda