Að tjá sig með byssukúlum

Chandler Halderson heitir bandarískt ungmenni (nokkuð örugglega af norrænum ættum) frá Wisconsin sem myrti foreldra sína og reyndi að leyna því með því að hluta líkin í sundur og brenna þau. Réttarhöldin yfir honum eru vinsælt skemmtiefni á youtube og hægt að fræðast um málið í tugum hlaðvarpa þar sem réttarhöldin og yfirheyrslur löggunnar yfir Chandler eru uppistaðan. Chandler er oftast lýst sem holdgervingi illskunnar eins og flestum bandarískum morðingjum (þessi þjóð er enn stödd á svipuðum stað og Mesópótamíumenn fyrir 4000 árum) en mér finnst nærtækara að lýsa honum sem manngreyi eða vesalingi sem átti svo erfitt með að ræða við sína nánustu að hann óf blekkingarvef til að sannfæra þau um að hann væri bæði í námi og vinnu og á leið til Florida þegar hann var í raun hættur öllu öðru en að leika tölvuleiki. Þetta kallaði ég að vera illa haldinn af Péturs Pan heilkenninu sem allir háskólakennarar þekkja vel og veldur því að sumir geta ekki lokið námskeiðum eða prófgráðum. Enn hefur þó enginn sem skuldar mér ritgerð gengið svo langt að skjóta mig fremur en að viðurkenna að ekkert hafi unnist; sennilega er enginn jafn hræddur við mig og Chandler Halderson var greinilega við foreldra sína en hann var líka vanur að tjá sig með byssukúlum, hafði skömmu fyrir harmleikinn gefið bróður sínum eina slíka þegar sá greindist með sykursýki og krítað á kúluna óskir um góðan bata.

Bandarískir gárungar hafa gantast með að þetta sé fyrsta morðið framið til að hinn seki þurfi ekki að horfast í augu við að vera fullorðinn og það er aðallega kómískt af því að það er dagsatt. Augljóslega var eitthvað mikið að Chandler og einmitt af þessu tagi. Fyrir utan blekkingarleikinn með námið og vinnuna þóttist hann hafa slasast og gekk með kraga um hálsinn þó að rannsóknir hefðu engin meiðsli greint. Hann hafði líka sagt ýmsum að kannski þyrfti hann að ganga með stómapoka ævilangt vegna þessara hálsmeiðsla þó að það orsakasamhengi blasi ekki við neinum og þráði greinilega ákaft að vera vorkennt. Að þessu leyti er hann kannski hinn dæmigerði nútímamaður því að ekki skortir fórnarlömbin á netinu eða annarstaðar. Honum er samt lítið sem ekkert vorkennt á netinu en ég held að það megi þó færa rök að því að fólki sem þráir vorkunn sé einmitt vorkunn. Eftir morðið sat Chandler (sem margir kölluðu Chaz meðan hann var venjulegur strákur en ekki morðingi) við tölvuna og gúglaði fyrst hvernig ætti að losa sig við lík en síðan hvort líkin hefðu fundist og þar sem lögreglan lagði hald á tölvur hans kom þetta honum lítt að gagni í réttarhöldunum þar sem hann sat með grímu og sýndi engin viðbrögð við neinu sem sagt var. Þetta túlka Bandaríkjamenn fyrirsegjanlega sem tæra illsku en mér finnst þetta minna meira á andleg veikindi. Sennilega hefði dómurinn þó aldrei samþykkt slíkt enda var það ekki einu sinni málsvörnin. Skemmtigildi réttarhaldanna þykir aðallega felast í því hversu hræðilega lélegur morðingi Chandler var og skildi eftir sig endalaus spor sem benda eingöngu til hans. Tugur vina og vandamanna var leiddur til vitnis um lélegar lygar hans og blekkingar. Eins var hann með frekar ódýra lögfræðinga sem héldu eiginlega uppi litlum vörnum og þess vegna er hann enn að áfrýja.

Það sem gerði auðvitað út um veslings Chandler var að upp komst um blekkingarvefinn um leið og foreldrarnir hurfu, hann virðist ekki hafa áttað sig á að með því að láta þau hverfa tækju atvinnumenn í upplýsingaöflun við hlutverki þeirra og væru ekki jafn auðblekktir; því var hreinlega ekkert vit í þessu morði sem engar skynsamlegar skýringar eru á nema Péturspansheilkennið áðurnefnda. Sennilega var Chaz orðinn fórnarlamb eigin lygasýki og kann að tengjast því að hann eyddi mestöllum sínum tíma í leikjum á netinu. Þeir bræður (sem sjást að neðan, Chandler til hægri) tengdust til dæmis einkum gegnum leiki og snerust þeir allir um að þeir voru að skjóta fólk og Chandler valdi sér þá oftast rússnesk vopn. Hann hafði raunar líka áhuga á stjörnum himingeimsins en fékk enga vinnu við stjörnugláp og sennilega var byssuáhuginn nærtækari þegar allt kom til alls.

Bæði dómarinn og fólkið sem skrifar um Chandler á netinu lætur eins og hann sé skrímslið Michael Myers (sem ég fjallaði um nýlega á þessari síðu) en raunverulegir morðingjar eru oftast jafn óhræðilegir og skáldskapurinn um morð er ógnvekjandi. Í raun var hann sjálfum sér verstur með því að myrða þær manneskjur sem stóðu honum næst og unnu honum mest og eyðileggja um leið samband sitt við bróðurinn og kærustuna. Ekkert bendir til að hann sé líklegur til frekari glæpa en meðferð gæti hugsanlega gert gagn og það væri óskandi að helsta stórveldi heimsins væri ekki jafn fast í Hammúrabilögunum. Í þessu tilviki á samfélagið (og þar með foreldrar hans) auk heldur hluta af sektina með honum eða svo finnst mér, t.d. með því að ala unga drengi upp í að æfa sig í að skjóta á fólk (það gildir um fleiri bandaríska morðingja) og frá íslensku sjónarhorni eru lítil rök fyrir lífstíðarfangelsi þessa vesæla landa okkar sem er réttlætt með tilvísunum til trúar og siðferði, svipað og er raunar gert hjá erkióvininum Íran. Að neðan má sjá Chandler birtast hjá nágrönnunum sem voru vitanlega ekkert hræddir við hann en honum hugkvæmdist ekki fyrr en allt of seint að kannski hefðu öryggismyndavélar götunnar tekið eitthvað upp sem yrði honum óhagsætt og þegar hann fór að leita uppi þær myndatökur var lögreglan löngu búin að haldleggja þær.

Previous
Previous

Út fyrir mörk hins leyfilega

Next
Next

Ég kynni mér leiksigur pabba