Út fyrir mörk hins leyfilega
Nýlega sá ég My Dinner with Andre (1981), tilraunakennda mynd skrifaða af Wallace Shawn en leikstýrt af Louis Malle, kvikmynd sem mér hefur lengi verið kunnt um en söguþráður hennar er sá að tveir menn sitja og spjalla á veitingastað í tvo tíma og báðir leika sjálfa sig. Wallace er annar en hinn er vinur hans og samstarfsmaður Andre Gregory. Myndin varð strax fræg fyrir að brjóta allar reglur um umfjöllunarefni sagna og uppbyggingu frásagnar. Þó er hún vandlega framleidd, tekin á löngum tíma á sviði en ekki raunverulegu veitingahúsi og eftir skrifuðu handriti. En þrátt fyrir hið listræna handbragð er hún samt tilraun til að ná utan um tiltekinn raunveruleika sem sögur ná sjaldan að lýsa. Mennirnir eru til, voru vinir og höfðu átt samræður í þessa veru. Hún er ekki heimildamynd en hversu ósviðsettar eru þær annars? Engin slík fangar venjulegar samræður og varla „veruleikaþættir“ heldur. Þannig að þetta er leikrit með tveimur þjálfuðum leikurum en samt er kvikmyndin skýrt andóf gegn reglum frásagnarfræðinnar og hugmyndum um hvað sé sögulegt. Þannig nær hún að opna ákveðnar gáttir áheyrenda og hún fjallar raunar um miðaldratilvistarkrísu eins og margar bíómyndir en án þess að sviðsetja heldur með aðferðum uppistandsins nema að þeir Andre og Wallace sitja sem fastast og þó að Andre hafi orðið mestallan tímann skiptir áheyrandinn og rammasögumaðurinn Wallace máli, höfundurinn sem leikur sjálfan sig sem miðil sögunnar.
Eiga Íslendingar slíkt listaverk? Sem kunnugt er lék Þórbergur Þórðarson sér talsvert með hið sanna og ævisögulega og sjálfan sig sem sögumann og aðalpersónu. Mér dettur samt enn frekar í hug Draumurinn um veginn, tíu tíma og fimm kvikmynda bálkur Erlends Sveinssonar um þegar Thor Vilhjálmsson gekk Jakobsveginn á Spáni, miklu mikilvægara verk en hið íslenska listalíf virtist ná utan um á sínum tíma. Þar fer fram mikill leikur með formið, Thor gekk sannarlega þessa leið og leikur sjálfan sig í myndinni en hún er þó auðvitað sviðsett á margvíslegan hátt. Mestu líkindin með My Dinner with Andre er þó áhættan sem er tekin með uppreisninni gegn formúlum og klisjum um hið sögulega og hinn sérstaki hægi taktur sem næst fram með því að hafa myndirnar fimm og ferðalagið svipað að lengd og sjálfan Niflungahringinn. Þar með er tekin sneið úr veruleikanum sem er öðruvísi en við eigum að venjast, einhverjir hraktir burt en þátttaka hinna verður þeim mun meiri og dýpri. Tveggja tíma mynd um efnið hefði verið innan marka hins hefðbundna en í staðinn verður Draumurinn um veginn sérstök tilraun um veruleikann, tímann, mannslíkamann, gönguna og kannski ekki síst kvikmyndaformið. Líkt og þeir Malle og Shawn á sínum tíma breytir Draumurinn hugmyndum manns um hvað kvikmynd sé og geti verið. Hún krefst þátttöku umfram flest listaverk en verður um leið áminning um hvað listaverk er.
Annað sem My Dinner with Andre minnir mann á er margvíslegt nýlegt andóf skáldsagnahöfunda gegn hinu bókmenntalega sem fer auðvitað fram á annan hátt en í kvikmynd. Nóbelsverðlaunahafinn Annie Ernaux er leiðandi í þeirri uppreisn, skrifar aðallega um sjálfa sig og eigin reynslu full efa um minningarnar og á fremur óskáldlegan hátt en þó reynir hún að fanga galdur tungunnar með einfaldleikanum. Sama markmið er augljóslega hjá vandræðabarni bókmenntaheimsins Knausgård með hvalkynjuðu verki sínu sem hann vakti athygli á með því að nota titil frá Hitler. Áhættan sem allir þessir listamenn eru að taka er sú að lesendur og áhorfendur nái engum tengslum og skilji ekki tilraunina, haldi jafnvel að um klaufsku og kunnáttuleysi listamannsins sé að ræða. Á móti hverri einni tilraun sem tekst eru margar sem enga athygli vekja og finna aldrei viðtakendur sína.
Auðvitað dró Wallace Shawn talsvert úr þeirri áhættu með því að fá Louis Malle til liðs við sig. Sumir listamenn hafa of sterka stöðu til að verða með öllu hunsaðir. Mynd hans vakti á sínum tíma þó nokkra athygli en samt minni en vert væri; a.m.k. gat ég séð hana ókeypis á Youtube.