Kossblautir froskar

Harpa Rún Kristjánsdóttir er meðal þeirra yngri skálda sem una sér vel í ljóðinu og auka þar með bjartsýni manns á framtíð þessa mikilvæga listforms, Hún vakti athygli þegar hún hampaði Tómasarverðlaununum fyrir fáeinum árum en fylgir þeim nú eftir með bókinni Vandamál vina minna sem mér finnst ekki síðri. Þar yrkir hún meðal annars um tímann, mennskuna, líkamann og hvers konar tilfinningasár sem setjast á fólk og er ekki auðvelt að vísa á braut. Ljóðin hennar eru myrk og áleitin, myndmálið sérstætt og leynir á sér. Harpa fer með vísanir þannig að minnir á sum snjöll skáld fyrir 60 árum, ljóðin eru full af óræðu samhengi og tilfinning lesandans er að hér sé á ferð skáld sem eigi margt til í sínu pússi.

Flest ljóð Hörpu eru einföld á yfirborði en tilfinningin sterk að margt búi undir. Áhugaverð er notkun á 2. persónufornafninu. Ljóðmælandinn ávarpar stundum lesandann sem skapar mjög ágenga tilfinningu. Ljóðið „Erfðir“ ber öll þessi einkenni: einfalt ljóðmál, sterk vísun, ágengt ávarp, margt ósagt býr greinilega undir niðri. Hálfi maðurinn í ljóðinu tengist sterku þema bókarinnar sem er mennskan og sterk tilfinning fyrir líkamanum. Óformbundin stuðlasetning er eitt einkenni sem víða má finna en Harpa er sveigjanleg þegar kemur að ytra formi og ljóðin eru fjarri því að vera einsleit þrátt fyrir sterk endurtekin minni. Eins og iðulega erum við skilin eftir með ráðgátu því að hinn helmingur hálfa mannsins liggur engan veginn fyrir og við vitum ekki heldur hvað það er í fari hins ávarpaða sem veldur því að hann er álitinn hálfmennskur.

„Einu sinni var …“ er skemmtilegt prinsessuljóð sem grefur þó undan prinsessumenningu nútímans á nýstárlegan og persónulgan hátt. Fyrir utan prinsessurnar tvær og ljóðmælandann er engin önnur mannvera í ljóðinu, aðeins hluti fyrir heild: blautar varir sem valda klígu. En vísunin er sterk og snýr merkingunni ítrekað á hvolf, froskarnir eru kossblautir og skella prinsessuheitinu á ljóðmælandann sem kærir sig ekki um það. Lokakaflinn er eins konar Me Too yfirlýsing um samþykki en staðsett í lífi ljóðmælandans sem komin er með „uppí kok“ af froskunum. En breytir yfirlýsingin mynstrinu sem lýst er í fyrri hluta kvæðisins? Hvað nú þegar þögnin er ekki lengur samþykki?

Ekki eru öll ljóðin svona margæð en algengt er þó að við séum skilin eftir með spurningar og tilfinningu fyrir mörgu sem órætt er. Þannig er óhætt í þessu tilviki að tala um auðugan og persónulegan ljóðheim. Einn óræður merkingarauki varðar vinina stundum ósýnilegu sem bókin fjallar um og hafa verið svo óvarkárir að treysta skáldinu fyrir vandamálum sínum. Ljóðin eru sá sannleikur sem skáldið hefur fram að færa um þau og hann er stundum napur en þó iðulega einnig kómískur á sinn hátt.

Previous
Previous

Atómiðrun eyðimerkurrefs

Next
Next

Út fyrir mörk hins leyfilega