Atómiðrun eyðimerkurrefs

Dr. Frankenstein var ekki eini Prómeþeifur nútímans og um það fjallar verðlaunamyndin Oppenheimer sem er næstum þrír tímar og þar af tók mig næstum helminginn að skilja hvort mér félli við myndina eða ekki. Ég er ekki aðdáandi flestra ævisagnabíómynda (ekki Elvis eða Bohemian Rhapsody eða Milk eða Járnfrúarinnar og þannig mætti lengi telja) og finnst þær almennt of losaralegar, fyrir utan hræðileg gervi persónanna ætlað að tjá mismunandi aldur þeirra. Hafði fyrirfram miklar efasemdir um bíómynd þar sem 40 stórleikarar koma fram í hlutverki vel þekktra vísindamanna 20. aldar. Það þarf djúpa alvöru til að svoleiðis mynd geti heillað mig en Oppenheimer einkennist sem betur fer af slíkri alvöru. Meginumfjöllunarefnið er iðrun Oppenheimers og hversu sönn hún var. Atómský hvílir yfir honum og öðrum persónum myndarinnar og ég skil það vel þar sem einnig ég er alinn upp undir þessu sama skýi og það var miklu verra en æskan getur ímyndað sér: við einfaldlega trúðum því varla að þessum vopnum yrði ekki beitt að lokum (enda er sú hætta alls ekki liðin hjá). En auk þess fjallar myndin um ferla, tvö óopinber „réttarhöld“ mynda sögurammann fyrir utan atómtilraunir Bandaríkjanna í eyðimörkinni. Ferlar hljóma ekki jafn spennandi og kjarnorkuvopn en þeir skipta samt máli og vitnaleiðslurnar eru hvor um sig áhugaverð á sinn hátt. Önnur er með árásargjörnum lögfræðingi og þremur nefndarmönnum sem eiga að úrskurða um hvort Oppenheimer missi aðgang að leyniupplýsingum sem greinilega hefur mikið táknrænt gildi. Einn þeirra er eins og miðaldahandrit í framan og kýs að lokum með Oppenheimer, mér til mikillar ánægju. Í hinum vitnaleiðslunum birtist Rami Malek á elleftu stundu með rýtinginn á lofti og helsta fól myndarinnar fær þá makleg málagjöld.

Hin þekktu vatnsbláu hundsaugu Cillian Murphy eru í aðalhlutverki í myndinni og hafa sjaldan verið jafn vel nýtt af leikstjóra. Það eru allmörg skot af Oppenheimer í eyðimörkinni sem sýna okkur þversagnakennda smæð og stærð mannsins sem kannski getur eytt heiminum. Murphy hefur það vanþakkláta hlutverk að leika sama mann á 40 árum og hefur oft verið hallærislega gert (hver man ekki eftir myndinni um J. Edgar Hoover þar sem Leonardo Di Caprio leit út eins og misheppnuð ómeletta drjúgan hluta myndarinnar) en hér er sem betur gætt hófs í gervinu og Murphy nýtur þess að vera grannur eins og langhlaupari. Eins eru í myndinni tvær ekkert sérstaklega þarfar kynlífssenur og allsbert fólk að tala saman í hægindastólum á eftir, kannski til að sýna hve pönkuð þau séu eða kannski bara til að sýna bobbinga Florence Pugh en auðvitað er líka mikilvægt að hlífa Oppenheimer í engu. Annars skipta konur ekki miklu máli í þessari mynd fyrir utan Kitty eiginkonu Oppenheimers sem Emily Blunt leikur prýðilega. Ég get annars ekki talið upp alla þekktu leikarana í Oppenheimer, þeir eru nánast eins og vötnin á Arnarvatnsheiði og ég hef ekki talið heldur hversu mörg óskarsverðlaun leikararnir hafa samanlagt unnið (a.m.k. fjögur) og ekki heldur hversu mörg Nóbelsverðlaun persónurnar sem þeir leika fengu á ævinni (a.m.k níu) en væntanlega munu fjölmörg gagnmerk leiklistarverðlaun bætast við í vor. Þetta er sjálfsagt sterkasti leikhópur síðan Lincoln Spielbergs var og hét og eins og þar hefur áhorfandinn furðu mikinn áhuga á öllum þessum heimsfrægu persónum sem birtast í svip. Kenneth Branagh er næstum jafn lítið líkur Niels Bohr og Hercule Poirot en hann kemur erfiðri stöðu Bohrs ágætlega til skila í tveimur stuttum atriðum og eins tekst Tom Conti í öskudagsbúningi að koma vitsmunalegum þunga Alberts Einsteins til skila. Casey Affleck leikur herptan ofursta og Robert Downey Jr. er sannfærandi í hlutverki öfundsjúks stjórnmálamanns og þannig mætti lengi telja.

Rétt eins og manni finnst ferlarnir sem drjúgur hluti myndarinnar snýst um tiltölulega léttvægt efni hjá atómvopnum eru persónurnar líka skemmtilega uppteknar af því hver heilsar hverjum með handabandi og öðru afar smálegu. Svona er heimurinn einflaldega, háa skilur hnetti himingeimur en blað skilur bakka og egg. Þó að vísindamenn breyti heiminum þýðir það ekki að þeir séu ekki stundum afar uppteknir af hversdagslegum og fánýtum hlutum og Oppenheimer gengur vel að sýna okkur slíkt samfélag í allri sinni stærð og smæði. Kannski fara vísindamennirnir full vel út úr öllu saman en síst af öllu vil ég þó draga úr trú utanaðkomandi á vísindin. Hátindur myndarinnar er vitaskuld lokatilraunin Trinity sem kom á undan árásunum á Hiroshima og Nagasaki þar sem hundruðþúsunda týndu lífi. Hún var æsispennandi og ég límdur við skjáinn — öfugt við persónurnar þurfti ég ekki að búa við að það væru „næstum engar“ líkur á að allt líf á jörðinni þurrkaðist út við sprenginguna — og raunar gilti það um mestalla myndina þó að hún flakki mikið fram og aftur í tíma og sum tímasvið (aldrei þessu vant framtíð fremur en fortiíð) séu svarthvít af einhverjum ástæðum sem ég skil ekki. Kannski á gráminn að einkenna kalda stríðið eða mannlífið á atómöld? En maður sogast inn og mig grunar að þessi kvikmynd sé enn betri í annað eða þriðja sinn.

Svo að það sé sagt vafningalaust er myndin afar listræn og sannur listviðburður þar sem margt helst í hendur við að koma þessari áhrifamestu sögu 20. aldar á framfæri. Ekki kemur á óvart að Christopher Nolan kunni til verka eftir Dunkirk og fleiri fyrri afrek hans en hann sannar sig þó enn og aftur og býsna rækilega. Litbrigði myndarinnar eru almennt vel heppnuð hjá Nolan og tónlistin í myndinni er eftir Svía sem heitir Göransson og minnir mjög á Hildi Guðnadóttur, Jóhann heitinn Jóhannsson og aðra nútíma smillinga kvikmyndatónlistarinnar með nokkrum áhrifum frá Zimmer. Hún verður stundum eins og grafalvarlegur bassataktur undir samfélagsleikjunum sem á endanum eru meginefni myndarinnar.

Að lokum má geta þess að ýmsar persónur sögunnar hafa miklar áhyggjur af því hvort trúa megi Stalín gamla fyrir kjarnorkusprengjunni. Um hana vissi hann þó allt löngu áður en honum var sagt það opinberlega og kannski var það bara ágætt. Hernaðarleyndamál eru líklega oftast til ills eins og önnur leyndarmál og sannarlega var engum einum trúandi fyrir þessu.

Previous
Previous

Að leika píslarvott

Next
Next

Kossblautir froskar